Jarðminjar – Reykjanes
Á háhitasvæðum Reykjanesskagans má víða sjá ummerki jarðhita.
Í Eldvörpum eru ummerkin þó ekki alveg augljós í mosagrónu hrauninu umleikis. Yngsta hraunið er frá árinu 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir. Gígaröðin er ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Goshrinan varð á árunum 1210 til 1240 hefur verið nefnd Reykjaneseldar. Í Eldvörpum má einnig sjá leifar af eldri gígaröð, um 5000 ára gamalli.
Eftirfarandi upplýsingar um jarðminjar á vestanverðum Reykjanesskaga er að finna í skýrslu um „Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita“ eftir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson frá árinu 2009:
„Jarðhitasvæði á Íslandi skiptast í háhitasvæði og lághitasvæði. Lághitasvæði finnast víða um landið og tengjast oftast sprungum í eldri berggrunni. Háhitasvæði eru bundin við gosbeltin og flest þeirra eru í rekbeltunum. Gosbeltin skiptast í eldstöðvakerfi sem eru samsett úr gosreinum og megineldstöðvum. Í gosreinunum verða eldgos í löngum sprungukerfum. Í megineldstöðvum gýs ítrekað á miðlægum svæðum. Þar eru innskot tíð og bergtegundir aðrar en basalt geta þróast, svo sem líparít. Þar geta einnig myndast öskjur. Almennt má segja að öflugustu háhitasvæðin fylgi megineldstöðvum. Orka háhitakerfa stafar af heitum kvikuinnskotum í jarðskorpunni. Hún flyst til yfirborðs með hringrás vatns. Þetta vatn getur komið til yfirborðs sem gufa annars vegar og hins vegar sem vatn. Samspil þess við aðstæður á yfirborði, svo sem landslag og yfirborðsvatn ræður miklu um það hvaða gerðir hvera myndast á yfirborði.
Almennt er litið svo á að varmi háhitasvæðanna komi frá heitum innskotum í rótum eldstöðvakerfanna. Þaðan flyst varminn til yfirborðs með vatni eða gufu. Reiknað er með að þetta eigi sér stað þannig að vatn sem seytlar niður eftir sprungum í skorpunni nái að komast í návígi við heit innskot. Vatnið hitnar og flytur með sér varma úr innskotinu til yfirborðs og þar verður til jarðhitasvæði. Varmaflutningur til yfirborðs veldur því að með tímanum kólnar innskotið og virkni dvínar á jarðhitasvæðinu nema til komi meiri varmi frá nýjum innskotum.
Alþekkt er að á mörgum af jarðhitasvæðum landsins er jarðhitavirkni á yfirborði breytileg þar sem hverir ýmist koma eða fara og virkni í einum og sama hvernum á það til að breytast með tímanum, jafnvel frá ári til árs.
Hverasvæði geta þannig dvínað um lengri eða skemmri tíma og að sama skapi eykst virkni þeirra á milli. Til að viðhalda jarðhitakerfum þarf varmagjafinn annars vegar að endurnýjast reglulega og hins vegar þarf berggrunnurinn að brotna upp reglulega til að mynda nýjar sprungur í stað þeirra sem þéttast af útfellingum. Þegar nýjar sprungur myndast í berggrunni fylgja því iðulega jarðskjálftar. Frá öndverðu hafa menn séð samband á milli hveravirkni og jarðskjálfta á hverasvæðum enda alþekkt að virkni svæðanna aukist eða minnki við jarðskjálftakippi. Því hafa jarðskjálftar á slíkum svæðum löngum verið nefndir hverakippir. Gott dæmi um hver með breytilega virkni er hverinn Pínir í Sveifluhálsi við Seltún í Krýsuvík. Síðustu áratugina hefur hann átt það til að liggja að mestu niðri um nokkurra ára skeið en þess á milli eru gufustrókarnir frá honum þeir öflugustu á svæðinu.
Á háhitasvæðum eru víða flákar af ljósleitum leir umhverfis hverasvæðin. Við jarðhitasvæði er algengt að sjá slíkar leirskellur sem virðast hafa kólnað og eðlilegt er að líta á sem kulnaðan jarðhita. Leirskellurnar verða til við ferli sem nefnt er ummyndun.
Ummyndun bergs við yfirborð verður fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við ummyndunina leysast frumsteindir og gler í bergi upp í frumeindir eða jónir. Sumar skolast burt með vatni eða rjúka með gufu en aðrar verða eftir og endurraðast í svonefndar ummyndunarsteindir, þ.e. steindir sem eru í jafnvægi við ríkjandi hita- og sýrustig. Við yfirborð háhitasvæðanna verða þannig til nýjar steindir, aðallega svonefndar leirsteindir sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir en einnig sem hluti af upprunalegu bergi sem ekki hefur ummyndast að fullu. Slíkt berg er nefnt ummyndað berg.
Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.
Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlantshafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.
Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst. Allmikið rask hefur orðið á jarðhitasvæðinu en það hófst með rannsóknarborunum eftir 1950. Leifar sjóefnaverksmiðju eru við jarðhitasvæðið og fiskiðjuver. Verulegt rask er vegna efnistöku á svæðinu, nýtt og gamalt. Auk breytinga á jarðhitasvæðinu hefur Reykjanesvirkjun valdið miklu raski á svæðinu auk þess sem hún er staðsett u.þ.b. í línu Stampagígaraðarinnar.
Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama. Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík.
Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin.
Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Borhola er á jarðhitasvæðinu ásamt tilheyrandi vegi. Þá hefur efni til vegagerðar verið tekið úr gígum norðaustan við jarðhitasvæðið.“
Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Unnið fyrir Orkustofnun 2009.