Járnminningarmörk

Erindi þetta var flutt á sagnakvöldi í Kirkjuvogskirkju í Höfnum þann 14. desember ´06. Fyrirlesarinn var Sigrún Jónsdóttir Franklín.

Járnminnismerki
Í kaflanum Járnöld gengur í garð kemur fram „að listgrein sú sem tekur til minningarmarka um látna menn er nærri Járnminningarmörkjafngömul manninum.” Steinhöggsverk og marmarahögg voru aðallega í minningarmörkunum. En rétt fyrir miðja 19. öld á iðnbyltingin sér stað í Vestur-Evrópu, „öld eims og eisu.” Gufuaflið, vélin og fjöldaframleiðslan hélt innreið sína og handverkið féll í skuggann. „Allt handgert þótti gamaldags, en verksmiðjuframleiðsla fín.” Í kjölfarið breyttist járnsteyputækni og hægt var að fjöldaframleiða járnminnismerki á leiði, s.s járnkrossa, sökkla, járngerði „stakitt” og „monument”. Hægt var að steypa allskonar flúr, gotnesk munstur o.fl. munstur en þó með mismunandi áletrunum sem við átti á hvert leiði fyrir sig. Járnminnismerkin var hægt að panta eftir príslistum og keyptu Íslendingar aðallega frá verksmiðjum í Danmörku.

Í kaflanum “Svona dauðinn sviptir öllu af foldu sem er áletrun á járnsökkli kemur fram að dönsku mótagerðarmennirnir þekktu annað hvort ekki íslensku stafina eða gátu ekki lesið miðana frá pöntunaraðilum því það koma oft fyrir villur í áletrunum á minningarmörkunum sem þeir sendu til Íslands. Jafnframt kemur fram að þeir sem minna áttu „urðu sem oftast að láta sér nægja græna torfu, nema því aðeins að einstakt trygglyndi færi með fátæktinni.” Járnminningarmörk voru því nær eingöngu á leiði efnaðra manna.
JárnminningarmörkÍ framhaldi af umfjöllun Bautasteins um Hólavallakirkjugarð (Suðurgötugarðinn) í 1. tölublaði var þjóðminjavörður svo vinsamlegur að svara nokkrum spurningum blaðsins. Í upphafi var hann inntur álits um hvers eðlis og hvers virði minnismerkin í Suðurgötugarði og íslenskum kirkjugörðum væru almennt séð.
Í kirkjugarðinum við Suðurgötu getur að líta flestallar gerðir minnismerkja sem á annað borð sjást í íslenskum kirkjugörðum.

Pottjárni hætt við broti
Járnminnismerkin eru ekki síður merkileg. Járnkrossar og steypt járngrindverk um leiði eru allvíða í elsta hluta garðsins. Þetta er dæmigert fyrir 19. öldina. Víða hafa þessi minnismerki þó skemmzt, og ekki síst hefur það gerst víða í görðum úti um land. Sum minnismerkin í gamla garðinum eru í bágbornu standi, hafa tærst af ryði og brotnað, er brotunum sums staðar tjaslað saman, en sums staðar eru garðar óvarðir fyrir skepnum og hafa hross allvíða brotið þessi minnismerki.
Nefna má hér að víða erlendis er nú orðið fátt um slík minnismerki og halda menn þar dauðahaldi í þau sem til eru. Á styrjaldarárunum voru þau víða miskunnarlaust brotin niður og höfð til hergagnasteypu.
Listrænir hlutir frá fyrri öldum eru óvíða til eldri og líklega hvergi í jafn ríkum mæli og í kirkjugörðum okkar. Og raunar er kirkjugarðurinn við Suðurgötu, Hólavallagarður, “stærsta og elsta minjasafn” Reykjavíkur, eins og Björn Th. Björnsson listfræðingur bendir á í bókinni “Minningarmörk í Hólavallagarði”.

Stærsta minningasafnið
Í kaflanum Vökumaður kemur fram að menn trúðu hér á landi, að sá sem væri fyrstur grafinn í nýjum garði, yrði „vökumaður” garðsins. „Átti hann ekki að rotna og vaka yfir þeim sem síðar kæmu”. Í kaflanum er vitnað í Þjóðsögur Jóns Árnasonar að menn höfðu nokkurn beyg af því „að láta grafa sig og sína nánustu nálægt gröf vökumanns, s.s. á Görðum á Álftanesi”. Þar er enginn grafinn nálægt gröf vökumanns.
JárnminningarmörkÞegar átti að vígja Hólavallakirkjugarð, sem er gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu, þá voru góð ráð dýr. Því enginn vildi leggjast eða láta leggja sína nánustu í fyrstu gröf garðsins. Ráðamenn vildu að það yrði einhver sérstakur, því það átti að vígja kirkjugarðinn með viðhöfn í leiðinni. Vökukona garðsins varð Guðrún Oddsdóttir, frú Sveinbjörnsson, dómstjórafrú og var garðurinn vígður 11. nóvember 1838, með mikilli viðhöfn.
Á leiði hennar í dag er stærsti járnkrossinn í öllum garðinum. Hann er með nýgotneskum armsprotum (sjá mynd). Á undirstöðu krossins, er mynd af lampa með logandi eldi.
„Í táknfræði sameinar lampinn bæði Vöku og Nótt”. Merkingin á því mjög vel við minningarmark vökumanns garðsins. Samskonar tákn er líka aftan á.

Í kaflanum Monument yfir biskup Steingrím kemur fram að Jón Sigurðsson, sem hafði verið skrifari hjá Steingrími biskup er beðinn um að láta hanna veglegt monument á leiði biskups. Jón var þá við nám í Kaupmannahöfn og því hæg heimatökin. Minnismerkið er bogadreginn laupur (sjá mynd 2; ath. það vantar krossinn sem á að vera ofan á, líklegast er hann í viðgerð.)
Framan á minnismerkinu eru fimm tákn:
Bagall, sem er tákn fyrir biskup.
Heiðurssveigur með flögurborðum, „sem er tákn fyrir virðingarstöðu og lífsheiður hins látna.”
„Rós, sem er notuð í táknrænni merkingu á legmörkum, merkir hún vammleysi eða hreinleika af synd.”
Kross, tákn kristinnar og
Stjarna „í slíku sambandi oftast til orða Krists:” „Ég er …..stjarna skínandi, morgunstjarna”, úr Opinberun Jóhannesar, 22.16.

JárnminningarmörkAftan á minnismerkinu er plata með nafni eiginkonu biskups og heiðurskrans og stór stjarna.
Járngerðið eða „stakittið”, umkring er klassískt skreyti. Þar sést grískur Alexanders-bekkur, rósin og liljan.

Fram kemur hjá starfsmanni kirkjugarðsins að járnminningarmörkin eru úr potti eða steypujárni. En þau eru líka til úr smíðajárni. En munurinn er að pottjárnið, ryðgar ekki eða flagnar ekki og er yfirleitt skrautlegra. Það getur þó brotnað. Smíðajárnið er yfirleitt flatt, getur bognað og hægt að snúa upp á það. Það þykir ekki eins fínt og pottjárnið.

Hér á landi er aðallega einn maður sem vinnur við að gera við slík járnminnismerki. Hann heitir Kristján Guðmundsson, og fyrirtæki hans heitir vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Vélsmiðjan sjálf sem slík er safn. Þar er vélum og verkfærum haldið því sem næst óbreyttu frá upphafi. Kristján hefur unnið listilega að verndun og viðhaldi járnminnismarka (sjá mynd af minningarmarki í Hólavallakirkjugarði).
En slík vinna krefst mikillar nákvæmni og kunnáttu sem því miður örfáir kunna. Fram kom hjá Kristjáni að á seinni hluta nítjándu aldar hefðu verið um 200 „steybirí” í Danmörku en nú væru um 15-20 slík. Hér á landi væri vélsmiðja hans líklegast eina smiðjan sem hefði aðstöðu til að vinna slík verk.

Sagan úr Dýrafirði
kirkjuvogskirkjugardurHandverkið felst í því að:
Fyrst er útbúið mót úr tré, munstrið er skorið í tréð, mjög djúpt, eða módelið þrykkt í formsand og síðan tekið úr.
Járnið er brætt í deiglu ( þ.e. í potti ) og hitað upp í 1400°C , bræðslumarkið er 1200°C . Í vélsmiðjunni tekur það um 3 tíma að bræða 150 kg af járni.
En það eru misjafnar aðferðir við það. Í olíuofni eða rafmagnsofni, þá tekur það um 1 tíma. Hér áður voru notaðir koksofnar (koks er kol).
Járninu er síðan hellt í formið. Járnið verður að kólna rólega. Venjulega er það tekið úr forminu daginn eftir.
Minningarmarkið er galvaniserað með sink grunni. Hér áður var notað einhvers konar olíu bygg til þess.
Ef um kross er að ræða á sökkli þarf að setja smíðajárnsteina og steypa niður og skrúfa síðan krossinn við teinana.
Steypt er undir sökkulinn. Undirstaðan undir „stakittið” á sumum grafreitum er þó stundum úr potti, en ekki steypt.
Á landsbyggðinni eru nokkur járnminnismörk í kirkjugörðunum. En í kirkjugarðinum við Suðurgötu er eitt stærsta og elsta minjasafn járnminningarmarka, þó víðar væri leitað.

Minningarmörk í Kirkjuvogsgarði
JárnminningarmörkSigurður S. Sívertsen sonur Sigurðar B Sívertsen sem gegndi prestsembætti a Útskálum í hálfa öld frá 1831-1887 merkur fyrir Suðurnesjaannála sína. Sonur hans var vígður til Kirkjuvogskirkju 25 ára gamall árið 1843 sem aðstoðarprestur föður sins en hann lést stuttu síðar.
Vilhjálmur Chr. Hákonarson reisti þá kirkju sem við erum í. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri.
Gunnar Halldórsson var óðalsbóndi í Kirkjuvogi var fæddur 1824- 1876.. Hann var heiðursmaður líkt og hinir.
Ketill Ketilsson lét reisa kirkju á Hvalsnesi og hún var vígð 1887 os stendur enn.

Hvað verður um minningarmörkin?
Lítið er til af járnminningarmörkum erlendis, því að á stríðstímum voru minningarmörkin rifin upp og járnið var brætt og notað í stríðstól. En við hér „á hjara veraldar” höfum varðveitt furðu mikið af slíkum járnminnismörkum. Eitthvað var þó um að járngerðin væru fjarlægð og fleygt úr kirkjugörðum til þess að auðveldara væri að hirða um leiðin. En það er liðin tíð. Í dag er reynt að varðveita slík minningarmörk.
JárnminningarmörkSumarið 2000 var samningur gerður um skráningu minningarmarka eldri en 100 ára. Til er kirkjugarðasjóður, sem er sameiginlegur sjóður allra kirkjugarða landsins, úthlutað er úr þeim sjóði til að borga viðhald á slíkum gömlum minningarmörkum.

Járnminnismerki illa farin
Reidar Tinnesand, norskur sérfræðingur í lagfæringum og viðgerðum á minnismerkjum úr smíðajárni dvaldi hér í tíu daga í október ´96 á vegum Skipulagsnefndar kirkjugarða til þess að kanna ástand minningarmarka í Suðurgötugarðinum og gera tillögur um úrbætur.
Í greinargerð Reidars Tinnestad um garðinn fullyrðir hann að þessi kirkjugarður sé einn sá merkasti er hann hafi augum litið og leggur áherslu á að allt verði gert til að varðveita þá miklu menningarsögu sem garðurinn býr yfir.
Það hefur mikið menningargildi að varðveita gamalt handverk. Framan af tækniöld setti handverk víðast mjög niður. Það þótti jafnvel vart frambærilegt, enda var hin vélgerða fjöldaframleiðsla ódýr. Þegar stöðluð fjöldaframleiðsla kom til sögu tóku menn henni tveim höndum. Jafnvel þótti stöðluð framleiðsla eftirsótt, þar sem allir hlutir voru nákvæmlega eins.

Hverfi minnismerkin hverfur hluti sögunnar
“Mikilvægt er að varðveita kirkjugarða fyrir komandi kynslóðir. Þýðingarmikið fyrir sögu Íslands og menningu. Minningarmörkin segja sína sögu um þróun bæjarins og fólkið sem þar lifði og bjó fyrrum. Margir legsteinar hljóta að hafa kostað stórfé þegar þeir voru settir upp og sýna hvernig fyrri kynslóðir mátu minningu látinna. Hverfi minnismerkin, hverfur einnig hluti sögunnar.”

Skriflegar heimildir:
-Úr völdum köflum úr bókinni: Minningarmörk í Hólavallagarði eftir Björn Th. Björnsson – Mál og menning – Reykjavík – 1988.
– Aase Faye – Danske Stobejernskors -Jan Faye – NNF – Kaupmannahöfn 1988.

-Munnlegar heimildir:
-Halldór Kristinn Pedersen, kirkjugarðsvörður við Suðurgötu.
-Gunnar Bollason, sagnfræðingur hjá fornleifavernd ríkisins.
-Kristján Guðmundsson, vélsmiður á Þingeyri.
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/brynast.html.
-www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast1/hnignun.html – 6k
-Bautasteinn, Útgefandi: Kirkjugarðasamband Íslands 1. tbl, 1. árg. 1996.
Járnminningarmörk.