Jólatré

“Bandaríski jólasveinninn, sem gengur undir nafninu Santa Claus (heilagur Kláus) eða bara Santa þar í landi, dregur nafn sitt af heilögum Nikulási sem var biskup í Mýru í Litlu-Asíu (Tyrklandi) á 4. öld.
Um líf og störf Nikulásar er fátt Jolasvein-232vitað en hann er þó einn af vinsælustu dýrlingum bæði rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þeirrar grísk-kaþólsku. Ýmsar óstaðfestar sagnir eru til um hann þar sem honum eru eignuð hin ýmsu kraftaverk. Samkvæmt þessum sögnum var hann örlátur mjög sem er væntanlega rótin að hugmyndinni um Nikulás sem jólasvein sem gefur börnum gjafir. Þjóðsagnapersónan Santa Claus barst frá Evrópu til Bandaríkjanna og er eins konar samsuða úr heilögum Nikulási og Jesúbarninu. Á 19. öld trúðu börn í Þýskalandi og víðar því að Jesúbarnið, eða Christkindlein, kæmi og færði þeim gjafir. Annað nafn bandaríska jólasveinsins, Kris Kringle, mun vera afbökun á Christkindlein. Jesúbarnið var þá stundum sagt eiga sér fylgdarmann sem var einhvers konar Nikulásarfígúra, til dæmis Père Noël í Frakklandi og Pelznickel í Þýskalandi. Í Hollandi fengu börnin gjafir frá Sinterklaas á Nikulásarmessu, 6. desember. Þegar Evrópubúar tóku að nema land vestanhafs fluttu þeir þessar sagnir með sér.

Árið 1804 var sögufélag New York stofnað og Nikulás valinn verndardýrlingur þess. Árið 1809 kom út grínsagan „A History of New York“ eftir Washington Irving sem skrifaði undir dulnefninu Diedrich Knickerbocker. Sagan gekk út á að hnýta í hollenska fortíð New York-borgar og þar með hinn hollenska Sinterklaas. Þar var meðal annars talað um heilagan Nikulás svífandi yfir borginni á vagni. Kvæðið „An Account of a Visit from St. Nicholas“ kom út 1823 og naut fljótt mikilla vinsælda. Þetta kvæði er betur þekkt undir upphafsorðum sínum, „’Twas the night before Christmas,“ og í dag er lestur þess hluti af jólahaldi margra Bandaríkjamanna. Þar er talað um heilagan Nikulás á fljúgandi sleða dregnum af hreindýrum.
jolasveinn-233Eftir því sem leið á 19. öldina fór heilagur Nikulás að gegna æ stærra hlutverki í jólahaldi Bandaríkjamanna og gekk nú undir nafninu Santa Claus eða Kris Kringle. Oft var hann að sögn klæddur loðfeldi, líkt og hinn þýskættaði Pelznickel, en stundum átti hann að klæðast litríkum fötum. Í fyrstu var hann ýmist sagður líkjast litlum álfi eða vera maður í fullri stærð og varð seinni ímyndin ofan á.
Árið 1897 birtist frægt svar Francis P. Church í dagblaðinu New York Sun við fyrirspurn 8 ára stúlku, Virginiu O’Hanlon, um tilvist jólasveinsins. Svarið bar yfirskriftina „Yes, Virginia, there is a Santa Claus“. Hugmyndin um Santa Claus sem feitlaginn karl í rauðum fötum var orðin útbreidd um aldamótin 1900 og um 1920 var jólasveinninn í huga flestra bandarískra barna kátur karl, hvítskeggjaður og rauðklæddur.
Á 4. áratug 20. aldar fór Coca-Cola svo af stað með hina frægu auglýsingaherferð þar sem jólasveinninn, teiknaður af Haddon Sundblom, var í aðalhlutverki. Ef til vill hefur sú herferð orðið til þess að festa ákveðna ímynd jólasveinsins í sessi en víst er að þessi ímynd hafði verið til um skeið og var ekki uppfinning Coca-Cola eða Sundbloms þótt hann hafi vissulega túlkað fyrri hugmyndir eftir eigin höfði.
Vissulega hafa auglýsingar átt sinn þátt í að móta jólasiði Bandaríkjamanna. Til að mynda er hreindýrið Rúdolf með jolatre-231rauða trýnið, sem sungið er um í vinsælu jólalagi, afsprengi auglýsinga frá stórversluninni Montgomery Ward frá 1939. Það ár fékk verslunin Robert L. May til að semja barnasögu sem dreift var til viðskiptavina fyrir jólin. Sagan naut fljótt mikilla vinsælda og 1949 kom út lagið „Rudolph the Red-Nosed Reindeer“, sungið af Gene Autry. Árið 1964 var svo gerð sjónvarpsmynd um Rúdolf og félaga með brúðum í hlutverkum þeirra. Líkt og kvæði Moores um aðfangadagskvöld jóla er þessi sjónvarpsmynd jafnstór þáttur í jólahaldi Bandaríkjamanna og hangikjötið er á Íslandi. – EMB”
“Hið sígræna tré hefur um árþúsundir vakið furðu manna og aðdáun og þótt búa yfir leyndardómum. “Jólatréð”, sem nú er eitt helsta tákn jólanna víðast hvar, tiltölulega nýkomið til sögunnar í þeim búningi. Þessi dýrlegi árstími væri æði snautlegur á að horfa, ef ekki væru marglit ljósin til að gefa honum það yfirbragð sem nú má hvarvetna líta. Og eins, ef engin væru jólatrén úti fyrir. Hvað þá inni. Um uppruna jólatrésins er þó flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn t.d. í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar. Til er einnig fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritar í bókinni Sögu daganna (1977): Frá því um 1100 var tekið að sýna helgileiki innan kirkju og utan, þar á meðal söguna um sköpun mannsins, syndafallið og jolatre-232burtreksturinn úr aldingarðinum Eden. Stóð skilningstréð þá tíðast á miðju sviðinu. Það var grænt tré og héngu á því epli og borðar. Líktist það talsvert jólatré, nema kertin vantaði, en svo var einnig um þau jólatré, sem fyrst eru spurnir um. En hversu sem orðið hefur siður að reisa sígrænt tré í húsum á jólum, er næsta eðlilegt, að það bætti á sig ljósum með tímanum. Kerti voru ævinlega mikið um hönd höfð á jólunum og engin undur, þótt mönnum dytti í hug að reyna einnig að festa þau á tréð.
Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774. Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799. Nokkrum árum síðar, 1807, eru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, m.a. skreytt gylltum ávöxtum og kertum. Greinilegt er, að siðurinn er þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800. Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880–1890. En áhrifin voru þau sömu, hinn duldi kraftur engu minni. Um þess konar tré yrkir Hannes Pétursson: Jólatréð okkar, stirðlegur stautur af dökkum viði sem bíður síns tíma í tómlátu myrkri háaloftsins…
Nú höldum við af stað upp í hlíðina gömlu að reyta handa því lyng. Það er logn og hvít jörð. Til að reyta berjalyng handa blásnauðu trénu. Jólin að koma – og lyngið er loðið af mjöll. Vongleði vængjar skóhælinn okkar!
Eins og gefur að skilja eru til margar helgisagnir um uppruna jólatrésins, þessa mikla tákns ljóssins hátíðar. Þekktust jolatre-233allra er líklega sagan um englana þrjá, sem Guð bað um að fara til jarðarinnar, þegar halda átti jól í fyrsta sinn, og velja þar tré, sem best hentaði tilefninu. Og allir völdu þeir grenitréð.
Önnur saga, ekki eins kunn, en ættuð frá Sikiley, er á þessa leið: Á fyrsta ævikvöldi Jesúbarnsins komu lífverur hvaðanæva af jörðinni í fjárhúsið í Betlehem til að heiðra konunginn nýfædda og færa honum gjafir. Meira að segja trén voru í þeim hópi. Ólífutréð gaf honum ávexti sína. Pálmatréð færði honum döðlur. Og öll hin áttu líka eitthvað til að færa honum að gjöf. Nema þinurinn litli. Hann var kominn um langan veg og gat með naumindum staðið uppréttur, þegar áfangastað var náð. Hin stærri trén áttu því auðvelt með að stjaka við þessum norðlæga gesti og fyrr en varði stóð hann einn afsíðis, fjarri ljómanum sem frá jötunni stafaði.
Engill, sem var þar hjá og sá það sem gerðist, kenndi í brjósti um tréð lágvaxna, fór upp til stjarnanna og bað nokkrar þeirra um að koma og setjast á greinar þess. Sem þær og gerðu, lýsandi eins og björtust kerti. Þegar Jesúbarnið sá þetta, fylltist hjarta þess af gleði og bros færðist yfir varir. Það blessaði tréð og mælti svo um, að þinurinn og ættingjar hans skyldu þaðan í frá verða prýdd á aðventu og jólum, til að verma hjörtu barnanna. Hvert og eitt einasta er Lífsins tré, miðja alheimsins, og tengir saman alla þætti hans. Þar sameinast fortíð, nútíð og framtíð. – SÆ”

-Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 14. des. 2002, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, bls 11.
-Morgunblaðið 15. desember 2002, Sigurður Ægisson, bls. 47.