Jónsbúð – fornleifarannsókn
Úr skýrslu Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings um fornleifarannsókn í Jónsbúð segir m.a:
Inngangur
Félagskapurinn, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, kom að máli við undirritaðan árið 1997 um að kanna fornleifar á svæðinu Hraunum við Straumsvík. Ekki var um eiginlega fornleifaskráningu að ræða, heldur fornleifakönnun, sem er leitun að, og staðsetning á rústum á korti/loftljósmynd. Rústirnar voru mældar með GPS og staðsettar á loftljósmynd í mælikvarðanum 1:2000.
Í framhaldi af þessari vinnu kviknaði áhugi félagsins á því að láta kanna Jónsbúð nánar með prufuholugreftri og fór sá gröftur fram á tímabilinu 26. okt. – 13. des. með hléum. Verkefnið er samvinnuverkefni Umhverfis- og útivistarfélags Hafnarfjarðar, Byggðasafns Hafnarfjarðar og Fornleifafræðistofunnar.
Stefnt var að, og til þess fengið leyfi, því að kanna fleiri fornleifar í nágrenninu, en sökum veðurs verður það að bíða betri tíma. Annarsvegar er um prufuholugröft við Óttarsstaði, þar sem staðfesta á hvort meint bænahús sé þar að finna eða ekki og hins vegar að kanna aldur Fornasels, sem liggur austan megin við þjóðveginn, talsverðan spöl austur af Álverinu.
Staðhættir
Jónsbúð er utarlega við vestanverða Straumsvík í landi Hafnarfjarðar. Bæjarstæðið er aðeins nokkra metra frá sjávarkambinum sem skilur að býlið og uppsátur þess, eða Jónsbúðarvör. Utan um túnin er túngarður úr grjóti sem liggur frá sjávarkambinum utan um stóran klett að sunnanverðu (Skötuklett) og liggur svo að norðan nokkra metra sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðarmanna. Svæðið einkennist mjög af hraunhólum og grasi grónum bollum á milli þeirra. Þessir grasi grónu blettir hafa verið undirstaða skeppnuhalds á staðnum, auk þess sem sjórinn gaf.
Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.
Jónsbúð í rituðum heimildum
Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.
Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.
Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882.
Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að
þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.
Í bókinni „Forðum gengin spor“ segir í viðtali höfundar við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeim komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkrar kindur.“ (Jón Gunnarsson. Forðum gengin spor. Hafnarfirði 1996: 45-46).
Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti ábúandi Jónsbúðar, en búðin greinilega kennd við einhvern annan Jón en hann og ekki heldur við faðir Gunnars sem bjó í Jónsbúð árið 1910. Ekki er loku fyrir það skotið að búðin hafi haft ýmiss nöfn, stundum eftir ábúendum sínum og stundum eitthvað annað. Dæmi um slíkt eru vel þekkt.
Ekki hefur Jónsbúð verið mjög lengi í eyði áður en Jón þessi í Jónsbúð byggði upp kotið, varla nema nokkur ár (eins og altítt var með hjáleigur og smákot sem oft voru í eyði til skamms tíma).
Bæjarstæðið
Eins og sést á teikningu er bæjarstæði Jónsbúðar óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.
Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).
Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.
Fundir
Þrjár prufuholur voru teknar við Jónsbúð. Prufuhola 1 var tekin inn í miðju hólfi A inn í bæjarhúsinu, prufuhola 2 tekin rúma 5 m frá dyrum bæjarhúss og prufuhola 3 tekin rétt innan við dyr á hólfi B.
Í prufuholum fundust brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra, keramík, gler, steinkol, járn, aðrir málmar, skeljar og kuðungar, auk þess sem sjálf mannvistarlögin voru gerð úr, svo sem viðarkol, skeljasandur o.fl. Beinin benda til þess að sauðfé hafi verið hluti af bústofninum, eins og nautgripir sbr. fjósið. Fiskur og fugl hefur verið hluti af fæðunni og svartfuglar verið veiddir til matar (nema að köttur beri ábyrgð á gogginum í baðstofunni!).
Sjá mátti í prufuholu 2 að steinkolin fundust aðeins í efri hluta mannvistarlagsins og það bendir til þess að neðri hluti lagsins sé eldri en tími fyrstu eldavélanna, en þær komu upp úr 1870, þó þær hafi ekki orðið almenningseign fyrr en talsvert síðar. Steinkol voru notuð í þessar vélar. Því má draga þá ályktun að á síðasta skeiði búskaparins í Jónsbúð hafi verið eldavél og hún vafalítið verið í baðstofunni (SA – horninu?).
Meðalaglasið, ampúllan, sem fannst í prufuholu 1 er einnig ungt, jafnvel frá þessari öld. Trúlega hefur innihaldið í því verið notað til að bólusetja sauðfé (nautgripir og hestar ekki bólusettir!) Bólusetning af þessu tagi byrjar ekki fyrr en eftir fyrri heimstyrjöldina (Munnleg heimild: Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum).
Um aldur gripanna er ekki hægt að segja mikið annað en þeir eru ungir, sennilega frá seinni helmingi síðustu aldar.
Bæjarhúsið
Bæjarhúsið í Jónsbúð hefur skipst í baðstofu og fjós. Fjósið liggur lítið eitt lægra en baðstofan, en það gat verið með ráðum gert til að nýta hitann af skepnunum, en hiti stígur upp eins og þekkt er. Slík ráðabreytni er þekkt úr öðrum gömlum bæjum svo sem í Sandártungu í Þjórsárdal, kotbýli frá seinni hluta 17. aldar (Kristján Eldjárn. „Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949-50. Reykjavík 1951 og „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1961. Reykjavík 1961.).
Eins og fram kemur hér að framan var eitt heilþil og eitt hálfþil á húsinu. Og eins og fundir gefa til kynna var gluggi á húsinu, jafnvel fleiri en einn. Líklega hefur húsið litið svipað út og Arnarnes nokkuð. Slík hús eru kölluð Þurrabúðargerð yngri, en sú gerð þróaðist upp úr þurrabúðinni (Þurrabúðargerð eldri), sem var án þilja, glugga og bursta. Þessi þróun átti sér stað í lok síðustu aldar (Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Húsafriðunarnefnd ríkisins. Reykjavík 1998.:47, 48: mynd 98-99).
Niðurstaða
Í Jónsbúð hefur verið búið á síðustu öld og eitthvað fram eftir þessari. Hús 1 hefur skipst í baðstofu (hólf A) og fjós (hólf B) og í baðstofunni hefur verið eldavél á seinni stigum búsetunnar og í henni hefur steinkol verið brennt.
Á býlinu hefur verið haldið sauðfé og nautgripir og fiskur og fugl veiddur til matar. Þang hefur verið notað sem eldiviður, auk annars sem nothæft var (bein, sprek o.fl.). Líklega hefur þangið verið talið til hlunninda eins og segir um Krísuvíkina, ekki síst til að beita sauðfénu á.
Ekki var hægt að rekja aldur býlisins mikið lengra en til seinni hluta síðustu aldar, en hólf A, baðstofan, gæti verið yngri en sum önnur mannvirki á staðnum. Vel getur hugsast að fyrir hafi verið hús af gerðinni Þurrabúðargerð eldri, sem hafi verið endurhlaðin og bætt samkvæmt þörfum samtímans og ráðandi tísku í lok síðustu aldar, eða þegar þurrabúðin varð að einskonar hjáleigu með tilkomu húsdýra. Til að komast til botns í þessu máli þarf að grafa betur á staðnum, t.d. í gegn um veggi bæjarins og kanna betur öskuhauginn.
http://www.simnet.is/utivera/text/forn.htm