FERLIR ákvað að skoða og ganga eftir landamerkja- og örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði og Straum því þegar hvorutveggja eru lesnar virðast þær einfaldlega ekki ganga upp.
Í ljós kom að svonefndri “Markhellu” í svonefndum “Markhelluhól” virðist stórlega ofaukið, en í dag miðast samt sem áður bæði landamerki framangreindra jarða sem og bæjarmörk Grindavíkur, Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar í dag. Niðurstaðan varð sú að einhver eða einhverjir hafi gert sér það dundur um miðja síðustu öld að færa mörkin til suðausturs um ca. 600 metra með því að krota þar á slétta klöpp í hól stafi þriggja jarða. Um er að ræða vott um eitt fyrsta veggjarkrot hér á landi. Viðkomandi gleymdi/u hins vegar einni jörðinni er þar ætti að mæta klöppinni þeirri arna; Straumi.
Hverfum til baka að upphafinu, þ.e. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „Landamerki milli Óttarstaða og Lónakots byrja rjett fyrir ofan sjávarkampinn, þaðan í Markhól, sem klappað er á: Ótta. Lón .
– Frá Markhól í Sjónarhól, frá Sjónarhól í vörðu austanvert við Lónakotssel; frá þeirri vörðu í Miðkrossstapa.“ „Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá Mið-Krossstapa í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá Búðarvatnsstæði i Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótta., Hvass., Krv.-“
„Landamerki milli Óttarstaða og Straums byrja við sjó, á Vatnaskersklöpp, og yfir miðjan Markhól. – Þaðan beint í Stóra-Nónhól, frá Nónhól í Gvendarbrunn, frá Gvendarbrunni í Mjósundavörðu , frá Mjósundavörðu í Klofaklett, suður og upp af Steinhúsi. Á Klofaklett er klappað: Ótta., Str., og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyólfshól; á þennan Markastein er klappað: Ótta., Str. – Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krísuvíkurlandi.“
Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana.
Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elzta veginn. Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir.
Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunns-hæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu.
Landamerkjalínan liggur suður og upp úr Mjósundavörðu, yfir hraunflatneskju, sem nefnd er Flatahraun. Þar vestarlega er smájarðfall, grasi gróið. Eru þar tvö op nær samliggjandi. Ekkert vatn er þarna nema í frostum. Upp frá hraunbreiðu þessari eru brekkur, sem nefnast Bringur. Neðst í þeim er lítill klapparhóll, sprunginn, nefndur Steinhúsið. Efst í Bringum er Markaklettur (nefndur Klofaklettur í landamerkjalýsingu). Á hann eru klappaðir stafirnir Ótta., Str. Landamörkin liggja þar um og upp í Eyjólfshól. Á honum er varða, sem kallast Eyjólfshólsvarða, en kringum hólinn eru mosahæðir, sem nefnast Mosar. Línan liggur áfram suður í Markastein.
Mosar eru kallaðir í hrauninu rétt sunnan gjárinnar [Sauðabrekkugjár].. Krýsuvíkurmörkin liggja yfir þá. Aðeins sunnan við gjána og vestan við Stóru-Sauðabrekku eru Sauðabrekkuskjól við Sauðabrekkuhella. Þaðan er stutt vestur í Markhelluhól. Í honum er klöpp, sem nefnist Markhella, og eru klappaðir i hana stafirnir Ótta., Hvass., Krv. Er þetta hornmark á milli Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur.
Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns.”
Skoðum þá lýsingar af Straumslandi: “Landamerki milli Straums og Óttarstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp, yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól, frá Nónhól í Gvendarbrunn, frá Gvendarbrunni í Mjósundavörðu, frá Mjósundavörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað: „Ótta.“, „Str.“ og varða hlaðin hjá. – Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól; á þennan Markastein er klappað: „Ótta.“, „Str.”. – Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Vatnsskersklöpp). Á skerinu voru landamerki milli Straums að austan og Óttarsstaða að vestan. Héðan lágu landamerkin upp í svonefndan Markhól, sem stóð í Jónsbúðartjörn.
Landamerkjalínan lá úr Skiphól suður í Nónhól eða Stóra-Nónhól. Nónhóll hefur e.t.v. verið eyktamark frá Straumi. Héðan liggur línan í Gvendarbrunnshæð og í Gvendarbrunn, sem er fram undan hæðinni.
Úr Gvendarbrunnshæð lá landamerkjalínan suður í svokölluð Mjósund, sem var á hraunbrún sunnan við Seljahraun. Þar hafði verið Mjósundavarða allt þangað til gaddavírsgirðingar voru lagðar um Hraunin, þá var hún rifin.
Landamerkjalínan liggur svo áfram suður og upp í Bringur suðvestur af Gömluþúfu og áfram í margklofinn klett, sem nefnist Klofaklettur. Þar er Markahella, sem á er letrað ÓTTA STR. En á klettinum eru þrjár vörður. Suður frá klettinum liggur línan á svonefndan Eyjólfshól upp af Gömluþúfu. Þar á er Eyjólfshólsvarða. Hér í kring eru Eyólfsbalar. G.S. segir, að sumir nefni þá Eyjólfsdali, en það er rangt. Héðan liggur svo línan suður í Markastein.”
Við skoðun á framangreindum örnefnum var hægt að staðsetja þau öll skv. lýsingum, ekki síst vegna þess að girðing hafði verið reist mjög nálægt landamerkjum Straums og Óttarsstaða um miðja 20. öld, allt frá Vatnaskersklöpp upp fyrir Steinhús miðja vegu að Klofakletti. Girðingin er nú fallinn, en enn má sjá leifar straura og gaddavírs, auk undirhleðslu.
Á engum framangreindra staða var að sjá að klappað hefði verið í hraunhelluna. Vörður voru á þeim öllum. Margar fleiri vörður voru í línunni og virðist sem einhver eða einhverjir hafi gengið aftir landamerkjunum og hlaðið litlar vörður á sjónhendingum.
Þegar gömul landakort, allt frá 1908 til 1960, eru skoðuð er augljóst að þeim ber alls ekki saman um meginstaðsetningu landamerkjanna í suðri, þ.e. við “Markhelluhól”. Á eldri kortunum liggur línan beint í Búðarvatnsstæðið, enda er örnefnið Markhelluhóll beint suðvestan við það. Á hólnum er mosagróin varða. Gamlar girðingar, þversum og langsum liggja út frá hólnum í allar áttir. Skammt innan við Markhelluhólinn rís stór hella upp úr mosavöxnu apalhrauninu. Skammt vestan við hana er varða. Með góðum hug má lesa óljóst letur á hellunni.
Hellan sú er í seinni tíð hefur verið nefnd “Markhella” á “Markhelluhól” er, sem fyrr sagði u.þ.b. 600 metrum suðaustar en Markhelluhóllinn við Búðarvatnsstæðið. Lítil varða trjónir efst á hraunbólunni. Á slétta norðurhlið bólunnar hefur verið krotað með járnegg framangreindar áletranir (Otta-Krv-Hvassa). Áletrunin virðist nýleg, ekki síst ef stafagerðin og skýrleikin eru metin. Þarna virðist einhver eða einhverjir hafa gert sér að leik að “krota” á klett, en gleymt einu þeirra er rétt hefði þar að merkjast, þ.e. Straumi, er mæta hefði átt þar Óttarsstaðalandi á endimörkum í suðri.
Ljóst má telja, af framangreindu, að landamerki Krýsuvíkur ættu að færast til norðurs sem munar ca. 600 metrum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Gísli Sigurðsson.