Kaldárhöfðasel

Eftirfarandi þjóðsögu, “Selið”, um Kaldárhöfðasel má lesa í “Íslensk æfintýri” er safnað höfðu Magnús Grímsson og Jón Árnason:

SELIÐ
Kaldarhofdi-2“Þegar vjer riðum austan um Lyngdalsheiði vestur á Þingvöll, þá ríðum vjer upp hjá Þrasaborgum. Þar koma saman lönd þeirra bæja, sem liggja umhverfis að heiðinni. Þar er heiðin hæst, og má þaðan sjá víðsvegar um Árnessþing. Þaðan sjest Þingvöllur, Þingvallavatn og Almannagjá. Er hún dimm álits að sjá, og eins og varnarveggur vestan til við Þingvöll. Hrafnagjá sjest eigi hjeðan; því sá barmurinn er hærri, sem nær er. Hjer er ekki óskemmtilegt að vera, þegar logn er á vatninu á morgnana og fjöllin skoða sig í því báðumegin, eins og í skuggsjá, en ólík eru þau nú því, sem þau voru þá, er þau kváðu undir lögsagnir frelsishetjanna á Þingvelli. Skógarnir eru horfnir úr hlíðunum, og runnar á þá sandskriður. Sólin gyllir reyndar tinda þeirra enn, en vatnið minnir þau á, hvað þau hafa misst. Hjeðan sjest og Úlfljótsvatn, sem rennur suður úr Þingvallavatni. Þá Álptavatn þar suður af, en Álptavatn rennur aptur um ós þann, sem Árnésingar kalla Sog, suður í Hvítá að austanverðu við Ingólfsfjall. 

Kaldarhofdi-1

Þá kemur Hvítá úr landnorðri, og sjest bera í hana hjer og hvar milli holtanna. Hún kemur fram fyrir norðan Vörðufell pg krækir suður fyrir Hestfjall, og rennur fyrir sunnan Ingólfsfjall; þar hverfur hún sjónum vorum, en þá verður oss litið upp á Ingólfshaug, þar sem Ingólfur landnámsmaður á að vera heygður. Fyrir norðan oss sjáum vjer Kálfatinda, og eru þrír þeirra hæstir. Þeir risa upp samhliða og eru víðir vellir umhverfis þá að neðan. Það eru Laugarvatnsvellir, þar sem Flosi fylkti liði sínu, áður en hann reið á Þingvöll. Nú ríðum vjer vestur eptir heiðinni, og sjáum þar ekki annað en gráan mosa og stöku graslaut á milli hólanna, sem allir eru lágir og flatir að ofan. Hallar þá ávallt jafnt undan fæti, þangað til vjer komum vestur af heiðinni. Þar komum vjer í brekku eina, sem Dript heitir.

Kaldarhofdi-3

Hún liggur vestan og norðan í heiðinni, neðan frá Kaldárhöfða, sem stendur við ósinn, sem rennur úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn, og nær norður undir Laugarvatnsvöllu. Hana má gjörla sjá af austanverðri Mosfellsheiði. Þessi brekka skilur Lyngdalsheiði frá Þingvallahrauni, og Grímsnesið frá Þingvallasveit. Þegar vjer ríðum nú vestur um brekkuna, sjáum vjer á hægri hönd við oss húsatóptir. — Jeg ætla nú að segja samferðamönnum mínum dálitla sögu af tóptum þessum og skulum vjer á meðan setja oss niður í brekkuna og hvíla oss.

Í fyrndinni var hjer selstaða bóndans í Kaldárhöfða. Solveig hjet dóttir hans, kvenna fríðust og vel að sjer um alla hluti; hún var í selinu. Einn morgun sat Solveig úti undir selveggnum. Veður var hlýtt og heiðríkt lopt. Brekkan var allfögur, og uxu í henni alls konar blóm. Solveigu fór að lengja eptir smalamanni, og gekk upp á brekkuna til þess að vita, hvort hún sæi ekki til hans.

Kaldarhofdi-5

En er hún kom upp i miðja brekkuna, veit hún ekki fyrri til, en maður rauðklæddur stendur við hlið hennar. Hann var forkunnar fríður. Hann yrðir á hana að fyrra bragði, og segir: “Sæl vertu, fríða mey! Jeg hef sjeð þig á hverju kveldi og hverjum morgni, þegar þú hefur gengið á kvíarnar. Jeg hef gengið við hlið þjer, en þú hefur ekki orðið þess vör; því þú sjer ekki, nema það mannlega. Jeg hef opt setið hjá þjer á kveldin í brekkunni, og tafið fyrir þjer. Mennirnir vita ekki, hvað í loptinu og í hólunum býr. Það eru ekki einungis lifandi verur á yfirborði jarðarinnar, heldur og í loptinu og í miðju skauti hennar. Eða heldur þú, að allur þessi ómælandi geimur sje til einskis gjörður af alföður? En hvar sem lífið er, þar er einnig ástin. Hún sigrar mennina, og hún sigrar þær verur, sem máttkari eru en mennirnir. Hún á sjer eins stað, og þróast eins innan í hólunum, eins og utan á þeim. Hún þarf ekki við yls sólarinnar; því hún er sjálf sól; hún þarf einungis andstæði, til þess að hvíla á.” — Solveig varð ekkert hrædd, en það var eins og hún gleymdi sjer öldungis, og hún vissi ekki fyrri til, en hún lá í faðmi rauðklædda mannsins. Þá raknaði hún við, eins og úr draumi, og ástin, sem hún hafði áður gjört sjer mjög óljósa hugmynd um, hafði nú gagntekið hjarta hennar. Maðurinn hvarf, og hún var ein. Henni fannst, eins og sig vantaði eitthvað, og söknuður þrýsti að brjósti hennar. Smalinn var kominn á kviarnar, og hafði hún ekki orðið vör við, þegar hann kom.

Sel-tilgata

Eptir þetta heimsótti rauðklæddi maðurinn hana opt, og sat hjá henni, en enginn vissi af því, nema þau tvö ein. En svo fór, að Solveig átti barn í selinu, og sat rauðklæddi maðurinn yfir henni, og hafði barnið á burtu með sjer. Eins vitjaði hann hennar samt eptir og áður, á meðan hún var í selinu…
Eitt laugardagskveld var sólin að renna til viðar, og sló þá gullroða á jaðrana á skýja bólstrunum, sem voru að hnappa sig saman í loptinu. Himininn var þungbúinn og leit regnlega út: þokubeltin liðuðust um fjallatindana.
Fjeð var að renna heim á kvíarnar á bæ þeim, sem heitir á Villingavatni í Grafningi. Húsfreyja sat á bæjardyra – þrepskildinum og var að lyppa og skemmta bónda sínum, sem var að kurla við úti á hlaðinu.

Kaldarhofdi-559

Þetta var Solveig og bóndi hennar. 5 ár voru liðin 12 ár frá atburði þeim, sem áður er frá sagt. „Hvernig ætla veðrið verði á morgun, hjartað mitt,” segir Solveig, “Mjer sýnist hann líta svo regnlega út?” “Það er ekki að vita,” segir bóndi, „mjer þykir líklegast það verði stormur á útnorðan.” „Ósköp geispa jeg,” segir Solveig, „jeg held það sæki einhver að mjer.” „Þig er líklega farið að syfja, góðin mín,” segir bóndi, „og það mun vera öll aðsóknin.” „Nei,taktu eptir,” segir hún, „hjer kemur einhver í kveld.” Bóndi stendur þá upp og hættir að kurla. Honum verður litið út í túnið og sjer tvo menn koma. „Jeg held þú ætlir að segja satt, góðan mín; þarna koma tveir menn gangandi.”
Mennirnir komu nú í hlaðið, og var annar roskinn, en hinn ungur og efnilegur. Undir eins og Solveig sjer þá, hleypur hún inn í bæinn og skilur eptir lár og lyppu; svo mikið flýtti hún sjer. Gestirnir báðu bónda að lofa sjer að vera, og það fengu þeir. Ekki ljet Solveig þá sjá sig um kveldið. Um morguninn fóru hjónin til kirkju, og ætluðu að vera til altaris. Þau kvöddu allt heimafólkið með kossi, og báðu það fyrirgefa sjer allt, er þeim hefði á orðið, eins og þá var siður til, og lengi hefur verið. Síðan fóru þau á stað. En er þau Kaldarhofdi-552komu út í túnið, spyr bóndi Solveigu, hvort hún hafi kvatt gestina.
Hún sagði það ekki vera. „Farðu þá heim aptur, elskan mín,” segir bann, „og gjörðu það, og breyttu ekki út af gamalli venju guðhræddra manna.” „Þessa mun þig lengi iðra,” segir Solveig, og fer heim grátandi. Bóndi beið hennar stundarkorn, þangað til honum leiddist eptir henni, þá fer hann heim. Finnur hann þá Solveigu í faðmi hins eldra komumanns og Voru þau bæði örend, en pilturinn stóð grátandi upp yfir þeim. Sagði hann þá bónda alla söguna, eins og faðir hans hafði sagt honum hana.

Nú er selið í auðn og brekkan moldrunnin. Fjeð er hætt að breiða sig um hlíðina, og sjaldan kemur smalinn þar, af því að hann eigi þar von fjár síns, heldur til þess að ganga um í selinu og hvíla sig á tóptarveggjunum, áður en hann fer upp á heiðina, sem er þung fyrir fótinn af mosanum, og, ef til vill, til þess að vita, hvort hann verði ekki var við huldufólkið í brekkunni.

Kaldarhofdi-554

En svo má hann standa upp aptur af selveggnum, að hann sjer það ekki. Þegar bezt lætur, heyrir hann að eins áraglammið hjá huldufólkinu, þegar það rær út á vatnið, og fagnar hann því mjög; því það veit á góða silungsveiði í vatninu.”

Hvorki selið né örnefni því tengdu er sýnt á herforingjaráðskorti frá 1908, en úr því hefur verið bætt á kortið frá 1953. Örnefni á þessum slóðum benda til þess að þar hafi verið selstaða, s.s. Selhöfði/Selmúli, Selhvammur og Selvellir.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1932 lýsir Ásgeir Jónason frá Hrauntúni svæðinu. Segir hann m.a.: “Sunnan við Skútavík gengur hæð frá sv. til na., nefnd Skútavíkurhryggur. Norðuraf Kaldárhöfðavöllum gengur heiðarmúli vestur úr Lyngdalsheiði, er heitir Selmúli. Þar norðuraf eru Selvellir. Þar er lítil uppsprettulind, er sjaldan þornar að fullu. Austuraf Selvöllum, í heiðarbrúninni, byrja grasbrekkur þær, er Drift heita.

Kaldarhofdi-555

Syðst í henni er Selhvammur. Þar uppi á heiðarbrúninni hafði verið sel frá Kaldárhöfða, sbr. Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ekki sást þar til tófta í lok nítjándu aldar.”
Í örnefnalýsingum um Kaldárhöfða segir m.a. um selið og seljaörnefnin:
“Norðvestan við Húsagil er Fremri-Selmúli, og norður af honum Innri-Selmúli. Milli Selmúlanna eru lautar- og giljadrög. Norðan við Innri-Selmúla eru Selvellir, það eru valllendisflatir. Norðvestur af Selvöllum er stór hæð vestur í hrauninu, er heitir Gjáarhólar, eftir þeim endilöngum liggur sprunga, Gjáarhólagjá. Dálítið norður af Selvöllum er valllendisbrekka, Litladrift. Upp af Selvöllum er Selhvammur. Gegnum Selhvamma skerst Selgil og liggur niður á Selvelli. Uppi á brúninni ofan við Selhvamminn eru gamlar seltættur; vafalaust hefir Selið verið byggt uppi á brúninni vegna mýbitsins, sem þarna var oft mjög mikið.”
Þegar FERLIR skoðaði svæði það er tilgreint er í örnefnalýsingunni hér að ofan fundust tóftir tveggja selja; annað norðan undir Innri-Selmúla og hitt í Selhvammi. Eina, sem þurfti, var að rekja selsstíginn frá bænum að seljunum. Hann er enn greinilegur (og reyndar á köflum illa farinn vegna vatnsskorninga). Mikil umferð að síðarnefndum beitarhúsum skýrir varðveislu þessa góðu hans.

Kaldarhofdi-556

Afstaða síðarnefnda selsins kemur ágætlega heim og saman við lýsingu þjóðsögunnar sem og lýsingu Ásgeirs. Byggt hefur verið í Selhvammi upp stærðarinnar beitarhús úr torfi og grjóti með niðurgrafinni hlöðu við austurendann, líklega á fyrri hluta 20. aldar. Uppsprettulindin tiltekna er skammt suðvestar. Lækur hefur runnið norðan Selhvamms, sem var þó þurr í þessari vorheimsókn FERLIRs. Þegar svæðið var gaumgæft af nákvæmni komu í ljós leifar af stakk og einu jarðlægu rými norðaustan beitarhústóftarinnar miklu. Telja á líklegt að um séu að ræða leifar selstöðunnar í Selhvammi. Hluti beitarhússins virðist hafa verið byggt á hinar fornu seltóftir.
Seltóftirnar norðan undir Innri-Selmúla eru öllu greinilegri; tvírýma tóft (búr og baðstofa) með heillegum veggjum. Norðan við tóftina má greina hleðslur stekkjar. Norðaustan við hana virðast vera eldri minjar, sem vert væri að skoða nánar.
Framangreindar tóftir koma allar vel heim og saman við skráðar heimildir.
Í annarri örnefnalýsingu Óskars frá 1971 segir hann m.a. um þetta svæði: “Sunnan við bæinn rennur Kaldarhofdi-557Kaldá. Hún kemur upp skammt austur af bænum og rennur vestur í Úlfljótsvatn. Norðan við bæinn er Höfðinn, hár og víðáttumikill hóll. Norðvestan við aðalhöfðann er hár og allstór hóll og er hann aðagreindur með nafninu Vesturhöfði; og aðalhöfðinn þá nefndur Austurhöfði. Skarðið milli höfðanna heitir Kleif; toppmyndaður hóll er í Kleifinni, er heitir Kleifbúi. Norðast í Kleifinni skagar klettur austur í hana, heitir hann Klakkur. Fremst í Kleifinni er hellir, hann var áður notaður sem fjárhús. Sunnan við hann er grasbrekka, Hellisbrekka. Áður fyrr var allfjölfarin ferðamannaleið um hlaðið í Kaldárhöfða og norður um Kleif og áfram norður Miðfellshraun. Norðan í höfðanum, vestast, er hátt standberg, neðst í því er Kúahellir. Norðan undir höfðanum eru stórar valllendisflatir, heita Vellir. Vestan við þá eru Kúagötur) með hraunjaðrinum. Kúagjá er í hraunjaðrinum vestan við þær norðarlega. Leysingarvatn hefir grafið þessar götur allmikið.
Löng valllendisflöt gengur austur úr Völlunum, Kaldarhofdi-553heitir Vallakrókur, nær hann að Hálsi að norðan. Austan úr Heiðinni koma þrjú gil niður á Vellina, næst Höfðanum er Vallagil, þá Stóragil, og norðast Húsagil. Austan við það standa fjárhús. Niður af fjárhúsunum er Fjárhústún, neðan við það er svonefnt Vatnsstæði undir Heiðarbrúninni, það þornar stundum. Niður undan Húsagili heita Víðirar, nú að mestu komnir undir aur frá gilinu. Beint vestur undan gilinu er dálítil laut í hraunjaðrinum, heitir Vatnslaut. Norðvestan við Húsagil er Fremri-Selmúli, og norður af honum Innri-Selmúli. Milli Selmúlanna eru lautar- og giljadrög. Norðan við Innri-Selmúla eru Selvellir, það eru valllendisflatir. Norðvestur af Selvöllum er stór hæð vestur í hrauninu, er heitir Gjáarhólar, eftir þeim endilöngum liggur sprunga, Gjáarhólagjá. Dálítið norður af Selvöllum er valllendisbrekka, Litladrift. Upp af Selvöllum er Selhvammur. Gegnum Selhvamma skerst Selgil og liggur niður á Selvelli. Uppi á brúninni ofan við Selhvamminn eru gamlar seltættur; vafalaust hefir Selið verið byggt uppi á brúninni vegna mýbitsins, sem þarna var oft mjög mikið. Norður af Selhvammi liggur svo Driftin, langar og brattar valllendisbrekkur; um það bil sem Driftin er hæst er í henni Stóraskriðugil.”
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Íslensk æfintýri, söfnuð af M. Grímssyni og J. Árnasyni, 1852, bls. 1-7.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 44. árg. 1932, Örnefni í Miðfellshrauni og á Miðfellsfjalli í Þingvallasveit, Ásgeir Jónason frá Hrauntúni, bls. 79-80.
-Örnefnaskrá fyrir Kaldárhöfða – heimildarmaður: Óskar Ögmundsson, bóndi í Kaldárhöfða. Óskar er fæddur í Kaldárhöfða 2. júní 1923 og hefur átt þar heima alla æfi. Gísli Guðmundsson skráði í apríl 1971. Farið var yfir örnefnaskrá Kaldárhöfða, sem Gísli Guðmundsson skráði, með Óskari Ögmundssyni, Kaldárhöfða, í Örnefnastofnun 4. og 5. ágúst 1981. Skráðar voru eftir honum athugasemdir og viðbætur, sem felldar eru inn í textann og honum nokkuð breytt. Óskar er fæddur í Kaldárhöfða 2. júní 1923 og hefur átt þar heima alla ævi. Foreldrar hans fluttust þangað 1916.
-Óskar Ögmundsson, bóndi í Kaldárhöfða.
-Herforingjakort frá 1908.
-Herforingjakort frá 1953.

Kaldárhöfðasel

Kaldárhöfðasel.