Kaldársel II
Garðakirkja átti selför í Kaldársel, en þótti langt. Þórunn Sigurðardóttir, húsfreyja á Hvaleyri, hafði síðast í seli þar árið 1871. Jón Jónsson bjó þarna með konu sinni 1868-1870 og 1873 fluttist Þorsteinn Þorsteinsson þangað með ráðskonu og bjó þar síðastur manna til 1887.
Á síðustu öld reisti K.F.U.M. skála þarna fyrir drengi á sumrin.
Í Lesbók Morgunblaðsins 1993 er ljóð eftir Úlf Ragnarsson, lækni, sem ber heitið „Haust í Kaldárseli“.
Haustið er komið í Kaldársel.
Það kólnar í gagnsærri stillu
og litirnir brenna á laufi svo vel
að líklega spáir það illu.
Hún kaldá úr Botnunum læðist á laun
og ljóðar af gömlum vana
en týnist svo ofaní helluhraun.
Hvað verður svo um hana?
Það greinir víst enginn þann undirstraum
sem endar í blikandi sænum.
Hjá Fjallinu eina minn innstra draum
anda ég heyri í blænum.
Og blítt lætur eilífðin alla tíð
uppi á Helgafelli.
En letileg teygir sig Langahlíð
lúin og grá af elli.
Hún var þó áður svo árdegisblá
sem æskunnar falslausa gaman.
Blóðrauð á vörunum Búrfellsgjá
brosir að öllu saman.
Og víst var þó gangan helsár og hörð
umhraunin á sultarvorum.
Göturnar fornu á Grindarskörð
greina frá þungum sporum.
En himinsins bláskál hvelfir sig
yfir Húsfellsins bunguþaki.
– Hjá Valahnjúkunum var þig
á vængjanna hraða blaki!
Þörf er hafa hraðann á
– hérna er margt að ugga.
Burknarnir fögru í Gullkistugjá
glitra í dauðans skugga.
Í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsens er m.a. getið um komu hans í Kaldársel. „Við Kaldársel lágum við nokkra daga. Það þar er bæði gras og vatn fyrir hesta, en hvort tveggja er annars torfengið í þessum héruðum. Kaldá kemur undan móbergshálsum rétt fyrir neðan Helgafell. Eru þar lón eða augu, og kemur vatnið fram víða í bökkum. Og á botni sést sums staðar, að smásandur dansar upp og niður af vatninu, er streymir upp um holurnar. Áin rennur svo spölkorn eftir hrauninu niður hjá Kaldárseli og hverfur dálitlu neðar undir hraunið, sogast þar niður í sprungur og katla. Neðar er sagt, að rennandi vatn sjáist sums staðar í hraunsprungum.
Margar munnmælasögur eru um Kaldá. Segja sumir, að hún renni undir hraunum út allt nes, komi svo upp í sjónum fyrir utan vita og af straumi hennar verði svo Reykjanesröst, en þetta er fjarri öllu sanni. Víða kemur dálítið vatn í sjóinn undan hraunum, en vatnsmagnið í Kaldá er svo lítið, að hún getur eigi komið neinum verulegum straumi til leiðar. Sumir segja máli sínu til sönnunar, að taka megi ferskt vatn ofan á sjónum í Reykjanesröst, en nákunnugir menn hafa sagt mér, að það sé ekki satt. Munnmælin segja líka, að Kaldá hafi fyrr runnið ofanjarðar eftir hinum löngu hraunsprungum, er ganga út Reykjanes, en fyrir því er enginn fótur. Kaldá rennur líklega til sjóar í Hraunum fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þar koma margar uppsprettur undan hraunum í fjörunni.
Kaldá hefir nafn sitt af því, að vatnið í henni er eins og annað uppsprettu- eða lindarvatn, aðþað hefir alltaf hér um bil sama hita árið um kring, og finnst þvói vera mjög kalt á sumrum, þegar lofthitinn er miklu meiri. Hiti Kaldár var 21. júlí 5°C, en lofthitinn samtímis 10 1/2°. Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kaldársel, og þar eru víða á hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d. 14. júlí 1887), sem áður hafði verið í Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið.“ Þá er getið um ferðir Þorvaldar og félaga út frá Kaldárseli um Undirhlíðar, Grindarskörð og Bláfjöll.
Í Minningarbók um Þorvald Thoroddsen frá 1923 er auk þessa getið nánar um nefndan Þorstein. „Við lágum um tíma í tjaldi hjá Kaldárseli og fórum þaðan um nálæg fjöll, þar bjó þá skrítinn og sjervitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson; hann kom oft á morgnana í tjaldið til þess að biðja um staup, og eitt sinn gaf annar fylgdarmaður minn honum fullan bolla af lampaspiritus, karlinn tæmdi bollann í botn og sagði: „Þetta var hressandi, það er þó eitthvað annað en bannsett Hafnarfjarðarbrennivínið.“
Í bókinni „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár“ fjallar Daniel Bruun um ferðir hans um Ísland. Þar segir hann m.a. um Kaldársel: „Enda þótt byggingarefni íslenskra bæja væri oftast torf og grjót, eða torf eingöngu, þar sem stafnar voru þó oftast úr timbri, þá notuðu menn að sjálfsögðu betra efni, ef það var fáanlegt.
Sunnan við Hafnarfjörð eru víðáttumikil hraun, þar er víða að finna þunnar hraunhellur, sem þekja holrúm, loftbólur undir yfirborði hraunsins. Létt er að brjóta þessar hellur, og víða hafa þær brotnað og fallið niður í hraungjótur. Slíkar hraunhellur hafa með góðum árangri verið nýttar til húsagerðar á bæ einum, sem nú er að vísu í eyði, en var í byggð ekki alls fyrir löngu.
Býlið heitir Kaldársel og er góð sauðjörð. Nafnið sel bendir til, að þar hafi verið selstaða fyrir löngu. Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir, einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
Meðfylgjandi er svo uppdráttur ef selstöðunni, þ.e. helluhlöðnu húsunum í Kaldárseli. Þau voru rifin þegar hús K.F.U.M. voru reist þar á fyrri hluta 20. aldar. Ef einhver, þótt ekki væri nema einn, hefði þá barist fyrir því að fá aðra til að láta tóttirnar ósnertar, ættu Hafnfirðingar nú einstakar minjar um sérstaka mannvirkjagerð frá fyrri tímum. En því miður – enginn hafði þá hugsun þá, líkt og nú.
Hér verður ekki fjallað um fornaldarbæ þann, sem Bynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, taldi vera Í Helgadal. Sumir vilja tengja þær tóftir við Hinn heilaga „Gral“, sem jafnan hefur skotið upp í umfjöllun kristinna. Telja þeir hinir sömu að örnefni Helgadalur og Helgafell séu þaðan frá komin.
Í göngu um Kaldársel voru framangreindur fróðleikur hafður til hliðsjónar. Hann er þó langt í frá að vera endanlegur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Minningabók Þorvalds Thoroddsen, 2. bindi, bls. 94, Safn fræðafélagsins II, Kaupmannahöfn 1923.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók 1913-1915, I. bindi, Reykjavík 1958, bls. 154-159.
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, Steindór Steindórsson þýddi, 1987, bls. 325-326.
-Lesbók Mbl., 36. tölubl., 16. okt. 1993, bls. 10 – „Haust við Kaldársel“ eftir Úlf Ragnarsson, lækni.
-Sunnudagsblað Þjóðviljans 1965, viðtal við Gísla Sigurðsson um örnefnasöfnun.