Kaldrani – Hvalvík – Brunnflatir – Nýibær – Litla-Sandvík
FERLIR fer jafnan víðreist þegar lagt er af stað á annað borð. Að þessu sinni var ætlunin að skoða nánar meint bæjarstæði Kaldrana norðvestan Kleifarvatns, mögulegar leifar verslunarstaðar ofan Hvalvíkur austan Hrauns í Grindavík, fornan brunn á Brunnflötum ofan Þórkötlustaðarbótar, gamlar bæjarleifar hins þjóðsagnakennda Nýjabæjar ofan Staðar í Staðarhverfi sem og sagðar sjóbúðaleifar í Litlu-Sandvík.
Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Þar segir m.a.: „Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.“
Í fornleifaskráningu Agnesar Stefánsdóttur 2008 um Krýsuvík og Trölladyngju má lesa eftirfarandi: „Matthías Þórðarson Þjóðminjavörður friðlýsti túngarðsleifar býlisins Kaldrana árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar (Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“): Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleyfarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti.
Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það hafa verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“
Í örnefnaskrám segir að bæjarins sé getið í þjóðsögum og segir sagan að fólkið á bænum hafi étið loðsilung úr Kleifarvatni sem var eitraður. Um það á þessi vísa að vera:
Liggur andvana
lýður í Kaldrana
Utan ein seta
er ei vildi eta
Suður af Kleifarvatni eru Hvammarnir, þar hafa skátar frá Hafnarfirði byggt skála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Samkvæmt heimasíðu gönguhópsins Ferlis eru minjar á þessum stað. Mögulegar tóftir fundust á tveimur stöðum í Hvamminum.
Í austur frá Krýsuvíkurvegi við suðurenda Kleifarvatns liggur vegslóði í átt að frístundabyggð sem þar er við endann á vatninu. 150 metrum NA við vegslóðann og 50 m neðan við Krýsuvíkurveg eru leifar túngarðs sem svarar nákvæmlega til lýsingar Brynjúlfs hér að ofan. Túngarðsbúturinn er tæplega 60 metra langur og liggur í sveig neðan við melhól. Friðlýsingarskilti er við norðurenda. Krýsuvíkurvegur fer yfir háhólinn vestan við garðinn.
Vestan við veginn uppi í hlíðinni fundust leifar af öðrum garði, mun ógreinilegri. Sumsstaðar er einungis ein steinaröð eftir. Garður þessi liggur nærri þráðbeinn uþb. 80 metra langur í SA-NA meðfram veginum. Ef loftmyndin af svæðinu er skoðuð virðist garðurinn halda áfram í NA u.þ.b. 100 metra í viðbót og jafnvel sveigja í átt að veginum. Mögulega hafa þessir tveir garðar ofan og neðan vegar verið samtengdir í upphafi. [Þessi „garður“ eru reyndar leifar girðingar frá Krýsuvíkurbúinu frá því um miðja 20. öld öld; FERLIR].
Ef marka má sagnir um býlið um býlið Kaldrana og að túngarðurinn hafi legið umhverfis bæjarstæðið má telja líklegt að bæjarstæðið sjálft sé nú að mestu horfið undir veg. Upp við og neðan túngarðs er smávegis gróið svæði í dálítilli lægð, þar er nokkuð þýft og mögulega gætu leynst þar tóftir. Annars er svæðið milli garðanna mjög uppblásið.
Hvammarnir sem selið frá Kaldrana á að vera í er rúmlega 1 km. suðsuðaustur af túngarðinum. Það var ekki skoðað að þessu sinni og var ekki greinilegt á loftmynd.
Einu heimildirnar um bæ á þessum stað eru munnlegar þjóðsögur sem skráðar voru af Jóni Árnasyni (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862). Þjóðsagan, útgefin af Jóni Árnasyni. Túngarðurinn bendir hins vegar til þess að einhver fótur sé fyrir sögum um bæ á þessum stað og túngarðsleifar í brekkunni ofan vegar renna frekari stoðum undir það. Hér væri því um að ræða jafnvel elsta bæjarstæði á svæðinu og sem slíkt hefur það mikið rannsóknargildi. Ekki er ólíkegt að finna megi fleiri minjar á þessum stað. Sögusagnir um að sel frá bænum sé í Hvömmunum suður af Kleifarvatni þyrfti líka að kanna nánar.“
Öfuguggi
Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:
„Mál er að gana,
[geislar flana.
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,
[utan sú eina seta,
sem ekki vildi eta.“
Eða svo:
„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði eftirfarandi: „Fyrir innan Miðdegishnúk er Kaldrani. Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið. Nú sjást þess engin merki og hvergi finnst þess getið.“
Um ofanverða Hvalsvík eða Efri-Hrólfsvík skráði Loftur Jónsson: „Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.“ Þarna er Loftur að vísa í uppgröft þann er dr. Kristján o.fl. stunduðu ofan við Hrólfsvíkina á síðari hluta 20. aldar. Aðstæður eru allnokkuð breyttar frá því sem þá var. Búið er að fara með jarðýtur yfir svæðið með fyrirhugaðar túnsléttur í huga. Garðahróf á svæðinu gefa það skýrt til kynna. Ef verslunarstaður hefur verið ofan Hvalvíkur hefur ummerkjum um hann verið eytt, annað hvort með stórvirkum vinnuvélum eða freklegum ágangi sjávar, sem mulið hefur af ströndinni svo tugum metra skiptir á undanförnum öldum.
Um Brunnflatir á Þorkötlustöðum eru til eftirfarandi heimildir: „Í fyrsta lagi viðtal við Guðmund Benediktsson; í öðru lagi frá feðgunum á Hópi í Grindavík; í þriðja lagi það sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti hefur skráð. Ari Gíslason skráði („Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum“).
Loftur Jónsson skráði eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum.“
Rétt mun vera að nefndur brunnur hafi verið á Brunnflötum. Leifar hans, þ.e. hleðslum ofan hans, má sjá þar enn í dag.
Í „Örnefni í Staðarlandi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, má lesa um „Nýjabæ“. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað (þ.e. bænum). Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir. – Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“
Skv. framanskráðu var nefndur Nýibær í núverandi vegstæði Reykjanesvegar. Ofan vegarins má hins vegar sjá stekk, gerði, rétt, fiskibyrgi, fiskigarða og fleira er hafa verið hluti slíkrar búskaparheildar.
Um Litlu-Sandvík segir: „Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.“
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé „talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ (Staðhverfingabók, bls. 29). Hvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.
Þegar aðstæður í Litlu-Sandvík voru skoðaðar má ljóst vera að þar hafi fyrrum verið nauðhöfn. Að vísu hefur marinn barið ströndina óbirmilega í gegnum aldirnar svo í dag er þar fyrrum ólíku saman að jafna. Ef sjóbúðir hafa einhvern tíma verið ofan Litlu-Sandvíkur hefur Ægir annað hvort brotið þær undir sig fyrir löngu eða að minjar slíkra búða lumist undir ofanverðri sandorpinni ströndinni. Erfitt er um slíkt að spá…