Kálfatjarnarvör – skilti

Kálfatjörn

Ofan Kálfatjarnarvarar á Vatnsleysuströnd er upplýsingaskilti með eftirfarandi fróðleik:

Kálfatjörn„Í fjörunni hér að vestanverðu er Kálfatjarnarvör. Út af vörinni er legan en svo nefnist lónið innan stærsta kersins, Markkletts. Norðan klettsins er Kálfatjarnarsund, þröng og skerjótt innsigling inná Lónið. Miðið í Kálfatjarnarsund er Sundvarða í Keili. Varðan er á Klapparhól nyrst í Goðhólstúni. Hún er nú hrunin en leifar hennar má enn sjá á hólnum. Keilir var algengt fiskimið enda áberandi í landslagi. Vestur af Markkletti er lítið sker, Geitill. Í stillu má oft sjá og heyra í selum sem liggja þar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Strandlengja hreppsins var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins, allt þar til enskir togarar lögðu undir sig fiskimiðin við sunnanverðan Faxaflóa í lok 19. aldar. Hver einasti bóndi á Ströndinni var þá útvegsmaður og áttu sumir marga báta. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomusjómenn og íbúar í sveitinni. Á vertíðum var fólksfjöldinn í hreppnum vel á annað þúsund.

Kálfatjörn

Kálfatjörn. Bakki fjær.

Fisk var að fá meðfram öllum Strandarbrúnum og á Strandarleir út af þeim, ýmist á handfæri eða í net. Einnig var fiskur sóttur á Sviðin og í Garðsjó. Strandarbrúnir eru hraunbrúnir nokkuð undan landi sem mynduðust á þurru í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum þegar sjávarstaða var lægri. Meðfram allri starndlengjunni má finna fjölda mannvistarleifa sem vitna um liðna búskapar- og atvinnuhætti.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð séra Stefáns.

Á klapparhól sunnan við Kálfatjörm stóð sjóbúð sem séra Stefán Thorarensem prestur á Kálfatjörn (1857-1886) lét reisa. Sjóbúðin rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Stefán hafði lengi útgerð á Kálfatjörn.“

Kálfatjörn

Kálfatjörn – upplýsingaskiltið ofan Kálfatjarnarvarar.