Kálffell
Veður var eins og samið hafði verið um – 10 stiga hiti og rakavænn andvari af suðri.
Fyrst var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla og það skoðað. Kvengöngufólkið þótti eldhúsið tilkomumikið, enda í stærra lagi miðað við önnur svipuð, sem skoðuð hafa verið – 90×120 cm.
Þá var haldið eftir Skógfellavegi að Brandsgjá og skoðuð gjáin þar sem Brandur missti niður tvo hesta á leið sinni að Ísólfsskála. Brandur var þá að koma úr Vogum og hafði fengið sér í staupinu áður en lagt var af stað. Við brúna yfir gjána er fallega hlaðin varða.
Áfram var genginn Skógfellavegur uns beygt var út af honum til suðurs og gengið niður Mosadalagjá og haldið að Kálffelli. Skoðaðar voru hleðslur í og við fellið, litið á fjárhellinn og síðan farið ofan í Oddshelli, sem nefndur er eftir Oddi frá Grænuborg austan Voga. Oddur hélt til í hellinum og þar var hann er Ólafur Þorleifsson ætlaði að heimsækja hann á aðfangadag um aldarmótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 40 árum síðar, sitjandi á syllu.
FERLIRsfólkið átti góða stund í Oddshelli. Kveikt var á jólakerti, snætt var hangikjöt og því rennt niður með Malti og Appelsíni. Þá var boðið upp konfekt og því skolað niður með úrvals koníaki. Sesselja Guðmundsdóttir, sem var með í ferð og þekkir hverja þúfu á þessu svæði. Færði hún FERLIR að gjöf bók sína, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem nú er uppseld og var henni við þetta tækifæri afhent FERLIRshúfa, sem hún hafði áunnið sér fyrir þátttöku sína í FERLIRsferðum.
Þegar út var komið var ákveðið að ganga nokkra hringi um einiberjarunna, sem þar er – svona í tilefni hátíðarinnar, sem í hönd fór.
Frá Oddshelli var haldið í Nýja-Vogasel og það skoðað. Um er að ræða nokkur hús, stekk og kví. Eitt húsanna hefur verið nokkuð stór með nokkrum vistarverum. Þaðan var haldið niður í Gamla-Vogasel og það skoðað.
Þá var haldið til baka og má segja að dagsbirtan og góða veðrið hafi verið nýtt til hins ýtrasta.