Keflavík – örnefnið
Ægir Karl Ægisson fjallaði um örnefnið Keflavík.
“Þegar orðið kefli kemur fyrir í örnefnum eins og í Keflavík er kefli vanalega talið merkja rekaviðardrumbur. Keflavík myndi þá standa fyrir víkina þar sem er mikið af rekakeflum. Það þykir mér nokkuð skringilegt að kenna Keflavíkina við rekakefli þar sem hún er hreint ekki þekkt sem góð rekafjara. Náttúruaðstæður kunna að vísu að hafa breyst og uppsafnaður reki kynni að hafa verið í fjörunni þegar landnámsmenn komu hingað og væri það skásta skýringin á nafngiftinni samkvæmt hefðbundinni túlkun.
Ég get þó hugsað mér aðrar skýringar, .s.s. að þarna séu annars kona kefli en rekaviðarkefli eða að nafnið sé afbökun á öðrum orðum. Kefli gæti verið afbökun á kapall, þ.e. hestur sbr. Kaplaskjól. Upp af Keflavíkinni hefðu verið geymdir hestar og hún þá verið kennd við þá og köluð Kaplavík, sem hefði síðan ummyndast í Keflavík. Þá hefur mér dottið í hug að nafnið Keflavík megi rekja til enskra duggara, sem bundið hefðu skip sín vandlega í víkinni og því kennt hana við þau digru reipi, sem til þurfti, nefnilega “Cable”-vík. Því miður er nafnið of gamallt til þess að þessi skemmtilega tilgáta fæst staðist.
En nú hefur mér nýlega komið í hug ný skýring, sem eins og annað nýfengið er nú í uppáhaldi hjá mér. Ég var að spjala við Sigrúnu forstöðukonu byggðasafnsins um hentugar hafnir fyrir víkingaskip hér í nágrenninu. Þó að Keflavík hefði þótt skásta legan hérna austan megin á Rosmhvalanesinu þá væri Njarðvík hentugri höfn fyrir víkingaskip. Þar er nokkuð skjól og þar ætti að vera tiltölulega auðvelt að draga skip á land. Þá væri engin furða að hún væri kennd við sjálft siglingagoðið Njörð.
En svo datt mér í hug að það mætti draga skip upp Grófina, eftir lækjarfarveginum, sem þar var. Sigrún sagði þá að þar kynnu þessi kefli að hafa komið við sögu. Mikið rétt. Keflin gætu hafa verið stokkar eða hlunnar, sem skip voru dregin yfir upp Grófina, upp yfir flóðmörk. Það hefði skipið verið öruggt fyrir sjó að vetrarlagi og haft nokkuð skjól fyrir vindi af Berginu ef ekki hreinlega var reist yfir það bátahús eða naust. Keflavík væri þá víkin þar sem keflin til að draga skip á eru.”
Rétt er að geta þess að a.m.k. þrjár Keflavíkur eru á Reykjanesskaganum; vestan við Hlein í (Þorláks-)Hafnarbergi, neðan Klofninga í Krýsuvíkurhrauni og vestan Grófarinnar við Stakksfjörð.
Í Keflavík.Á Vísindavef Háskóla Íslands fjallar Svavar Sigmundsson um örnefnið „Keflavík. Þar segir:
„Nafnið Keflavík er vafalítið dregið af orðinu kefli í merkingunni ‚rekaviðarbútur‘.
Allir kannast við Keflavík sem nafn á þéttbýli á Reykjanesi en Keflavíkur eru víðar á landinu, ein á Hellissandi á Snæfellsnesi, önnur vestan við Rauðasand í Vestur-Barðastrandarsýslu, þriðja við Galtarvita í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sú fjórða í Fjörðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Alls staðar er uppruninn hinn sami“.
-Ægir Karl Ægisson – safnvörður við Byggðasafn Reykjanesbæjar.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=51096