Ketilsstígur – Hrauntungustígur

Ketilsstígur

Gengið var um Ketilsstíg frá Seltúni, yfir Sveifluháls með norðanverðu Arnarvatni, niður Ketilinn, eftir Móhálsadal, austur fyrir Hrútafell, niður í Hrúthólma ofan við Mávahlíðar, austur fyrir Mávahlíðahnúka, um Sauðabrekkur vestan Hrútargjárdyngju og niður í Brunntorfur þar sem endað var við gamalt fjárskjól frá Þorbjarnastöðum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur ofan Mosa.

Í leiðinni var komið við í hraunæð vestan Hrútargjár og kíkt á gömul bein, sem þar eru, litið á skjól í gíg ofan við Sauðabrekkur og skoðuð gömul refabyrgi ofan við Hafurbjarnarholt.
Seltúnið er talin vera gömul selstaða frá Krýsuvík. Einu minjarnar er lítil tóft á stórum grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti einnig verið minjar frá brennisteinsvinnslunni, sem þarna var stunduð um tvær aldir.
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal frá því um 1755.

Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík um 1880.

Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.
Einu minjar námuvinnslunnar, sem enn sjást, er hluti af einni stíflunni neðan þjóðvegarins.
Þegar komið er upp á Sveifluháls er Arnarvatn á vinstri hönd og Arnarnýpa á þá hægri. Fallegt útsýni er er norður eftir hálsinum. Ofan við Ketilinn er varða. Stígurinn liggur í sveigum niður bratta hlíðina, niður á slétt helluhraunið fyrir neðan og stefnir á Hrútafellið. Gatan er bæði bein og slétt. Norðan Hrútafellsins beygir gatan meira til austurs, áleiðis að Hrúthólma. Alla þá leið er hún vel greinileg. Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni).

Hrúthólmi

Hrúthólmastígur – Hrúthólmi framundan.

Hrúthólmi er allgróinn. Mávahlíðar er norðvestan við hann og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells..

Gatan stefnir austur fyrir hnúkinn með stefnu á Sauðabrekkur. Á leiðinni var litið á hraunæðar vestan við Hrútagjá, en í henni eru gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar „dýri“ beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ofan við Sauðabrekkugjár eru tvær gígaraðir. Í vestari röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún var fjarlægð birti verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er lítil varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Líklega er þarna um að ræða byrgi þau er getið er um og eiga að vera austur af Hafurbjarnarholti, svonefnd Stórholtsgreni, en Gamlaþúfa er þarna skammt vestar.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Gengið var áleiðis norður í Brunntorfur með viðkomu í fjárskjóli í skútum. Hlaðinn er tvískiptur gangur fyrir framan opin, en inni eru rúmgóð skjól.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

-Heimild um brennisteinsvinnsluna:
(Sveinn Þórðarson, 1998) af http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Ketilsstígur

Ketilsstígur h.m.