Kirkjuvogssel
Gengið var upp í Hafnaheiðina. Ætlunin var að skoða svæðið betur í kringum Kirkjuvogssel ofan.
Frést hefur af gömlum hleðslum norðvestan við selið. Þar gætu verið leifarnar af Gamla Kaupstað, sem var gamall áningastaður á milli Grindavíkur og Hafna. Þar á og að vera Hestavegurinn svonefndi.
Selssvæðið er vel varið varúðarskiltum frá verndurum vorum, en þarna mun hafa verið æfingasvæði hersins um tíma. Klæðst var sprengiheldum skóm og stikklað af stað. Selið sást framundan, vel gróið undir hraunhól, mót norðvestri. Talsverar tóftir eru í selinu, m.a. stór stekkur vestan við þær, kví og önnur mannvirki. Ekki var brunn eða vatnsstæði að sjá, enda búið að vera mjög þurrt, en norðan við tóftirnar mótar fyrir reglulegu hringlaga gerði. Talsvert jarðvegsrof er þarna, en svo virðist sem hringurinn hafi verið grunnmynd af torfhlöðnu gerði eða fjárborg.
Ofan við hraunhólinn er tóftir sem og mannvirki eftir verndarana þar sem þeir hafa verið við æfingar. Varða er á klapparhrygg í norðvestri, í línu að „nýja“ Kirkjuvogi og Kotvogi.
Ekki gafst tími til að leita þarna að hugsanlegum ummerkjum eftir Gamla Kaupstað eða Hestaveginn að þessu sinni, en það verður gert við tækifæri.
Ágætisveður var á svæðinu. Gangan tók 59 mínútur.