Keflavík

Árið 1845 eru eftirtaldir kaupmenn með verslun í Keflavík: Martinus Smith, Sveinbjörn Ólavsen, W. Ch. H. Fischer og Gros Knutsen.

Duus

Duus-brunnur.

Árið 1848 kaupir Peter Duus Keflavíkurverslunina, sem var norðan Stokkavarar og verslaði hann til 1864 að sonur hans, Hans Peter Duus tók við henni og verslaði hann til dauðadags, en hann lést 23. júlí 1884, aðeins 55 ára að aldri. Ekkja hans, Kristjana Duus, dóttir Sveinbjarnar kaupmanns í Keflavík, hélt áfram verslunarrekstrinum ásamt allri útgerð og umfangi, sem Duus hafði verið með áður, og var bróðir hennar, Ólafur, verslunarstjóri. Þessi verslun og útgerð var rekin til 1918 að Matthías Þórðarson kaupir hana. Matthías var frá Móum á Kjalarnesi.

Duus

Gamla búð er stakstætt bindingshús, kjallari, hæð og portbyggt ris. Það stendur á opnu svæði sunnan við Duus hús. Gamla búð var byggð árið 1870 af Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun á neðri hæð en kaupmaðurinn bjó á efri hæðinni. Húsið er einkum merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð. Grunnflötur hússins er ca. 80 m2, tvær hæðir og lítill kjallari. Hugmyndir um framtíðarnotkun hússins tengjast menningarlífi bæjarins. Húsið skemmdist í eldsvoða á 7. áratug 20. aldar.

H.P. Duus lét reisa nýja búð árið 1870-’71. Var það tveggja hæða hús er stendur enn á gatnamótum Vesturbrautar og Duusgötu. Í dag er það nefnt “Gamla búðin” og er aðeins eitt hús hér í Keflavík talið eldra, en það er Þorvarðarhús – Vallargata 28 – sem mun vera byggt árið 1870. Þá lét Duus einnig byggja árið 1876-77 stórt og mikið pakkhús upp á tvær hæðir og ris, sem stendur við Duusgötu. Var það strax nefnt “Bryggjuhús”, og var Duusbryggjan fram af því miðju.

Um eða fyrir síðustu aldamót hafði Duusverslunin keypt upp verslanirnar af Knutsen og Fischer og var þar með orðin eigandi að allri Keflavíkinni með mikil umsvif.

Við endurgerð Duushúsanna við gömlu Keflavík kom í ljós letursteinn með stöfunum HPD, sem enginn virtist veita sérstaka athygli. Maður, með athyglina í lagi, tók steininn til handargangs og hefur varðveitt hann æ síðan. Um er að ræða merkilega fornleif.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum (Hans Peter Duus) – stoðsteinn og jafnframt hornsteinn Bryggjuhússins. Steinninn er í einkaeigu.

Um aldamótin 1900 var miðhhúsið notað sem bíósalur, sem mun hafa verið sá fyrsti hérlendis.

Sjá meira HÉR.

-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.

Duushús

Bryggjuhúsið er elsta húsið í Duushúsalengjunni utan búðarinnar (1871). Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, forstjóra Duusverslunar. Húsið var mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls tvær hæðir og ris. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Húsið var byggt sem pakkhús eða lagerhús fyrir verslunina og var bryggja (Duusbryggja) byggð við húsið sem þá stóð á sjávarkambinum. Enn má sjá merki um þessa gömlu sögu í húsinu, m.a. er þar forn vatnsbrunnur, og í risi stór vöruvinda sem notuð var til að hífa varning milli hæða.