Kjalarnesvætti
Á Kjalarnesi má finna ýmsa álagabletti, staði sem tengjast álfum, huldufólki, dvergum, vættum og draugum.
Má t.d. nefna álagablett á Klébergi fyrir neðan Klébergsskóla, Helguhól utan við bæinn Gil (draugasaga), álagablett við Lykkju, huldufólk við Arnarholt og Borg sunnan Brautarholts, draugasaga í Strýthólum, dvergasögur tengdar Dvergasteini vestan við Bakka, Árnesi og Ártúnsgljúfri, álagablett (haugur Andriðar) í Andriðsey (Andrésey), dys í gilinu neðan við Saurbæ, vætti við Miðloku, huldufólk við Tíðarskarð, álagbletti við Óskiptu (land vestan Mela og Norðurkots) og loks draugasögu tengda við Tindstaði Innri.
Um Helguhólsdrauginn segir m.a.: „Helguhóll er grjóthóll upp með Bergvíkurlæk vestan við Vallárgrundir. Hann er eitt af landamerkjum milli jarðanna Hofs og Vallár, ásamt Hrafnaklettum, tveimur einstökum klettum upp í miðri Esjuhlíð og grjótvörðu á Klébergi sem ekki finnst lengur. Vestan við Helguhól er Aurinn. Þar var Aurbrú, gamall snidduhlaðinn vegur sem náði frá fjalli og niður á Grundarholt. Við Helguhól er sögn um lífseigan draug, Helguhólsdraug og var það trú manna að hann gæti tekið upp á því að villa um fyrir mönnum, er áttu leið um Aurbrú. (Kjalnesingar. Hof. 1998 Þorsteinn Jónsson, Byggðir og bú.)
Í Krosshól[um] á að búa huldufólk. Í Kjalnesingasögu er getið um komu Auðar djúpuðgu er hún kom á leið sinni til og um landið við hjá bróður sínum, Helga bjólu, er bjó að Hofi. Helgi vildi bjóða henni og helmingi skipshafnarinnar húsaskjól og mat (hafa ber í huga að á sérhverju skipi voru a.m.k. 64 manna áhöfn), en Auði fannst bróður sinn helst til og nýskur á kostina svo hún ákvað að halda ferð sinni áfram uns Hvammsfirði norðvestra var náð. Þar er nú eitt örnefnið; Krosshólar, fyrir ofan tófta bæjar Auðar. Ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst stuttri viðdvöl hennar í Hofi á Kjalarnesi. Í dag er Hof sunnan við Brautarholt, millum þess og Esjubergs. Þar eru fáar minjar er gefa tilefni til fyrrum fornaldarbæjar. Bæjarnöfn hafa jafnan haft tilhneigingu til að færast til með tíð og tíma.
Austan við núverandi Brautarholtsbæinn (og kirkjuna) er allálitlegar tóftir; vel gróinn bæjarhóll. Í honum eru leifar tiltölulega ungs bæjar; m.a. baðstofu, eldhús, fjós og hlöðu. Skammt vestar má sjá leifar fjárhúsa. Líklegt er að þessi bær hafi farið í eyði öðru hvoru megin við árið 1900. Krosshól[a] má sjá skammt norðaustan við bæjarstæðið. Augljóst er að þarna hafi fyrrum staðið eldri bær eða bæir um langt skeið. Staðurinn er kjörinn til fornleifauppgraftar, og þá með þeim formerkjum að verða grafinn upp í heilu lagi. Ekki er grunlaust um að ýmislegt forvitnilegt kynni að koma þar upp úr sverðinum.
Haugur Andriðar, föður Búa (skv. Kjalnesingasögu) er í Andriðaey. Ætlunin er að skoða hann við fyrsta tækifæri. Við hauginn á að vera stór steinn, uppréttur, sagður legsteinn landnámsmannsins í Brautarholti, þess er sonur Helga bjólu drap á gamalsaldri til að jafna sig á því að hafa ekki náð að drepa son hans, Búa. (Samkvæmt sögunni virðist þetta hafa verið bilað lið.)
Þegar komið var að Saurbæ var þar fyrir sérkennileg kerling á gamals aldri. Aðspurð um „Dysina“ sagðist hún vita hvar hún væri, en það mætti alls ekki grafa í hana, a.m.k. ekki meðan hún væri á lífi. Nú væri dysin nánast orðin jarðlæg og ekki fyrir óreynda að staðsetja hana. Sagði hún fornmann vera þarna grafinn og sá átrúnaður væri á honum að á meðan hann fengi að vera óáreittur myndu „hey í Saurbæ ekki bresta“.
Af þeim sökum hefði verið séð til þess að gengið væri um dysina með tilhlýðilegri virðingu. Þessa stundina stóð þannig á að sú gamla í Saurbæ var ekki ferðafær og baðst undan því að fara á staðinn að svo komnu máli. Skrásetjari fékk á tilfinninguna að sú at tharna vissi minna en hún vildi vera láta. Á korti um minjar og sögustaði á Kjalarnesi er dysin staðsett í gljúfrinu norðan og neðan við kirkjuna.
Í örnefnalýsingu Mela segir m.a.: „Rétt neðan við Melabæinn er kvos í gilinu. Þar er brekka, sem heitir Álagabrekka. Hana má ekki slá, því þá ferst bezti gripurinn í fjósinu.“ Þegar hús var tekið á Guðna Ársæli Indriðasyni í Laufabrekku austan Mela var ólíku saman að jafna og í Saurbæ. Móttökurnar voru hinar vinsamlegustu. Hann sagði nefnda Álagabrekku vera ofan Álagahvamms í landi Mela. Norðurkot væri ofan og sunnan við hvamminn.
Faðir hans hefði jafnan haft á orði að Álagahvamm mætti ekki slá. Hann hefði ekki tekið mark á sögninni tvö sumur og ákveðið að slá hvamminn, enda væri hann sérstaklega grösugur. Nú væri búið að gróðursetja þar nokkur grenitré. Þá hefði borið svo við að tvær bestu mjókurkýrnar á bænum hefðu drepist – og tengdi hann það hvammssláttunni.
Guðni sagði þrjár grónar þúfur eiga að vera í Óskiptu (óskiptu landi Melabæjanna). Þær hafi ekki mátt slá með svipuðum formerkjum og í Álagahvammi. Faðir hans taldi sig vita hverjar þessar þúfur væru, en nú væri erfitt að staðsetja þær af nokkurri nákvæmni.
Efstu bæirnir á Kjalarnesi í austri eru Tindstaðir Ytri og Innri. Handan þeirra taka Kjósarbæirnir við; Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur.
Á Tindstöðum Innri var draugurinn „Tindastaðaflyksa“. Þetta var hundtík flegin aftur fyrir miðju, sem send var Halldóri bónda á Tindstöðum í Kjós seint á 18. öld. Um tíkina þá verður fjallað nánar um síðar.
Brautarholt er sagnastaður er fyrr greinir. Í örnefnalýsingu segir: „Sagt er, að í Krosshól hafi verið huldufólk. Eitt sinn þurfti að sækja yfirsetukonu til konu í Mýrarholti. Þegar hún kom, var búið að skilja á milli, en konan vissi ekki sjálf um, hvernig það gerðist. Þetta var um 1880.“ Hamrarnir sunnan Borgar suðvestan Brautarholts geymir og sagnir um huldufólk, sem fyrr er lýst.
Við Bakka er Dvergasteinn. Húsfreyjan á bænum, þrátt fyrir annir við mjaltir, gaf sér brosandi tíma til að útskýra tilurð örnefnisins. „Ég var hér í sveit fyrrum. Þá lá fyrir vitneskja um steininn. Hann var alltaf nefndur „Dvergasteinn“. Hann er þarna í túninu og hefur ávallt verið látinn í friði þrátt fyrir túnasléttur og aðrar framkvæmdir. Steinninn, sem nú virðist lítill, hefur áður verið mun hærri. Sagt er að sonur bóndans á Bakka hafi eitt sinn bjargað sér upp á steininn til að forðast mannýkt naut er sótti að honum. Ég veit ekki hvaðan sagan er komin eða hversu gömul hún er, en þarna er steinninn og þess hefur ávallt verið gætt að láta hann í friði“.
Heimildir m.a.:
-kjalarnes.is.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Guðni Ársæll Indriðason frá Laufbrekku á Kjalarnesi.
-Úrill kona í Saurbæ á Kjalarnesi.