Klofningahraun – Dringull – Hróabásar
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir m.a. um svæðið í Klofningahrauni: „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun).“
Einnig segir: „Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“
Ætlunin var að skoða fyrrnefndar mannvistarleifar í Hrófabásum og leita Dringuls í Klofningahrauni. Eins og sjá má hér að framan er rithátturinn „Hróabásar“ í örnefnalýsingu, en „Hrófabásar“ á landakortum.
Í gossannálum segir m.a.: 1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, (Klofningahraun), Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Þetta á var Viðeyjarklaustur stofnað (Ágústínusarregla). Það varð vellauðugt og eignaðist áður en lauk meginþorra jarða á Suðurnesjum.“
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.
Í Matsskýrslu Náttúruverndar-samtaka Íslands vegna háspennulínulagnar um þetta svæði segir m.a.: „Hér er um svæði með sérstöðu á heimsmælikvarða í jarðfræðilegu tilliti. Samt var enginn jarðfræðingur fenginn til þess að skoða áhrifasvæðið og gaumgæfa umhverfisáhrifin. Umfjöllun skýrslunnar er ekki fullnægjandi hvað þetta varðar einkum m.t.t. sérstöðu jarðfræði svæðisins. Ekki kemur t.d. fram að línan fari þvert yfir Tjaldstaðagjárhraun áður en hún fer inn á Yngra Stampahraun. Tjaldstaðgjárhraun rann í sömu goshrynu og Eldra Stampahraun fyrir um 1500 – 1800 árum. Það getur verið mjög sérstök upplifun að ganga í 1600 ára gömlu hrauni, síðan í 800 ára gömlu hrauni og vita til þess að þarna megi í sjálfu sér búast við gosi á hverri stundu í jarðfræðilegum tímaskala.
Í matsskýrslu segir eftirfarandi (bls 6): „Hraun sem runnið hefur úr Stampagígum er einkennandi fyrir svæðið, úfið en töluvert sandorpið og gróðurlaust að mestu. Hraunið nefnist Stampahraun.“ Þarna er gefið í skyn að hraunin séu minna virði vegna þess að þau séu gróðurlaus og sandorpin. Þetta er mikill misskilningur. Verðmæti hrauna fer ekki eftir því hvort þau eru þakin gróðri eða ekki. Verðmæti hrauna fer fyrst og fremst eftir berggerð þeirra og þeim jarðmyndunum sem í hrauninu eru. Hraunin á utanverðu Reykjanesi, eru mjög merkileg á landsvísu vegna þess hve sérstakar jarðmyndanir þau eru. Stampagígaröðin er einstæð í sinni röð og saman mynda öll hraunin á svæðinu landslagsmynd sem er hrikaleg, ljóðræn og fögur.“
Gengið var bæði á Dringul og um Hófarbása. Fyrrnefndi staðurinn er líklegur smalamótastaður Grindvíkinga og Hafnarmanna, enda nálægt landamarkalínunni á Sýrfelli, en „flórinn“ á síðarnefnda staðnum virðist vera frá náttúrunnar hendi gjörður. Líklega er fyrrnefnd fullyrðing sett inn í örnefnalýsinguna eftir að einhver hafi sagt að þarna væri „líkt og flóruð vör“, en bæði eru lendingaraðstæður þarna óraunhæfar sem og uppsátur (sker og háar klappir). Engin vísbending er þarna um lendingu fyrrrum, hvorki í fjörunni né ofan hennar.
Dringull er 2.7 km NV við Mölvík. Hann er hæstur gjallgíga í röð slíkra að hluta til undir yngra Stampahrauni. Hraunbrúnin er skammt ofar. Gígaröðin er hluti af Tjaldstaðagjárhrauni austan Sýrfells.
Magnús Á Sigurðgeirsson skrifar grein um svæðið í Náttúrufræðinginn 1994-1995. Þar segir m.a.: „Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fímmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum. Eldra-Stampahraunið og Tjaldstaðagjárhraun runnu fyrir 1500-1800 árum, í sömu eldum eða goshrinu. Gígaraðirnar sem hraunin runnu frá liggja í framhaldi hvor af annarri, lítillega hliðraðar.
Við norðanverðan Kerlingarbás þar sem Eldri-Stampagígaröðin teygðist til sjávar hlóðst upp gjóskugígur í sjó skammt undan landi. Sjást þess merki að austurjaðar hans hafi legið við núverandi ströndu og að gjóskan hafí gengið yfír syðsta hluta gígaraðarinnar. Gjóskulagið má rekja um vestanverðan Reykjanesskaga.
Skýrasta dæmið um eldgos af þessu tagi er Yngra-Stampagosið á 13. öld, síðustu eldsumbrot á Reykjanesi. Í gosinu rann hraun frá gígaröð á landi og gjóskugos urðu undan og við ströndina þar sem gossprungan náði út í sjó. Hlóðust þar upp tveir gjóskugígar. Hlutar af gígrimum þeirra eru varðveittir á ströndinni gegnt dranginum Karli.
Mikilvægasta og best þekkta gjóskulagið í sniðinu er landnámslagið (LNL). Það myndaðist í miklum eldsumbrotum á Veiðivatnasvæðinu um 900 e.Kr. og nær útbreiðsla þess til meginhluta landsins (Guðrún Larsen 1984). Þetta gjóskulag má finna um allan Reykjanesskaga, ljósgulleitt á vestanverðum skaganum en tvílitt á honum austanverðum, með dökkan efri hluta og ljósari neðri hluta.
Til Reykjaneselda hafa verið heimfærð fjögur hraun auk Yngra-Stampahraunsins, sem eru: Klofningshraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun, talin frá vestri til austurs (Haukur Jóhannesson 1989, Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson 1989).“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Náttúrverndarsamtök Íslands – Greinargerð með athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna mats á umhverfisáhrifum háspennulínu á utanverðu Reykjanesi.
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, Náttúrufræðingurinn 64. árg. 1995-1995, bls. 211-214.