Kolhólsleið – Gjáarrétt

Gjáarrétt

Hér er úrdráttur af lýsingu Kolhólsleiðar í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins: „Við ríðum út úr hesthúsahverfi hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og stefnum ti austurs. Farinn er slóði. sem Tóftmyndast hefur á síðustu árum norðanvert í Hnoðraholti. Liggur hann að tveimur sérkennilegm hólum, nyrst og austast í Hnoðraholti. Hólar þessir heita Hádegishólar og eru gamalt eyktarmark frá Fífuhvammi.
Bærinn í Fífuhvammi blasti við af leiðinni að Hádegishólum. Hús voru þar að falli komin og voru rifin um mitt sumar 1982. Í Fífuhvammi hafði ekki verið búið frá því 1953. Þar var fyrrum allstórt kúabú. Voru þar tólf kýr í fjósi, sem þótti mikið. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammslandið. Áður hét bærinn Hvammkot.
Nokkru fyrir sunnan og vestan Fífuhvamm, en neðan og til norðurs við Hádegishóla, voru gömul fjárhús, sem voru rifin sumarið 1983.
Farið er um Leirdal. Að austan og norðaustan takmarkast dalurinn af miklum hálsi, sem heitir Selhryggur. Um hann voru landamörk milli býlanna Breiðholts og Fífuhvamms.
Ef vel er að gáð má sjá Fífuhvammsseltóftir nokkuð uppi í hlíðinni á hægri hönd. Þetta eru gamlar fjár- og beitarhúsatóftir frá Fífuhvammi. Þar var síðast haft fé í tíð Þorláks Guðmundssonar (1834-1906). Fyrir miðjum Selhrygg að austanverðu og í landi Breiðholts hétu Selvellir. Þar var vatn og trúlega selstaða. Ekki er okkur kunnugt um hverjir hafa haft þar í seli. Í Jarðabók 1703 er hvorki talað um selstöðu í landi Hvammkots, nú Fífuhvamms, né í landi Breiðholts. Svæði þetta er komið undir byggð og verður því tæpast kannað héðan af.
Í Efri-Leirdal, í vesturtagli Vatnsendahvarfs, er Markasteinn. Í hann eru klappaðir verklegir járnkengir. Girðingarvír hefur verið strengdur í þessa kengi. Kengina festu að öllum líkindum í steininn þeir bræður í Fífuhvammi, Kristján og Guðmundur, skömmu fyrir 1940. Sáttargerð fá 1923 bendir til þess að Vífilsstaðir eigi land að steininum eða jafnvel norður fyrir hann.
StrípurVið ríðum upp á Flóttamannaveg og yfir hann til suðurs, norðaustanvert við Kjóavelli. Þaðan er fylgt ruddum bílevgi til austurs, norðan í Vatnsendahlíð og framhjá nokkrum sumarbústöðum, sem þar eru. Haldið er áfram þar til kemur á vegm sem liggur meðfram Elliðavatni vestanverðu. Vesturströnd vatnsins, norðanvert við Vatnsendahlíð, heitir Laxatangi. Áður en stífla var sett við Elliðavatn 1924-1925 vegna virkjunarframkvæmda í Ellðaánum, en þá hækkaði vatnsborðið að meðaltali um rúmlega einn metra, var þarna lítill tangi út í vatnið.
Á Hjallabrún er komið á Hjallaleið á stuttum kafla. Þegar komið er upp á Hjallabraut, sem er akvegur um þvera Heiðmörk, er Strípshtraun framundan til suðurs. Fremst í Strípshrauni austanverðu, mjög nærri bílveginum og til austurs við okkur, rís einstakur hraundrangur eða klettur, sem nefnist Strípur. Tekur hraunið nafn af honum. Um Stríp voru landamerki milli Vatnsenda og Elliðavatns.
GarðaflatirRiðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs.
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. Heimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu. Austanvert við flatirnar er mjög skammt í girðingu á vesturmörkum Heiðmerkur. Ólafur Þorvaldsson getur um útisamkomur á Garðaflötum.
Þá er haldið í Búrfellsgjá að Gjáarrétt.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.Búrfell