Kolviðarhóll I
Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um „Kolviðarhól undir Hellisskarði„. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni „Kolviðarhóll II“ hér á vefsíðunni.
„Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.
„Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.
Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina.
Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.
Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.
Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).
Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; „skal þá vel við því taka,“ sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá „hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju“. Búi var „ákaflega vígmóður og nokkuð sár“, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.
Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“
Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.
Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: „Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.
Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.
Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.
Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð.
Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.
Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til „drengilegra samskota“. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður.
Ebeneser var „veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki“. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól „til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina“. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“.
Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.
Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.