Krýsa og Herdís – saga
Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.
Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.
Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.
Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.
Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.
Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.
-Jón Árnason I 459.