Krýsuvík – á móti sólu; Helga Stefánsdóttir
Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, „Krýsuvík – á móti sólu„, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:
„Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.
Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.
Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.
Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.
Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.
Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.
Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.
Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.
Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.
Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.
Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).
Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.“
Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.