Krýsuvík – Magnús Ólafsson; minningarorð
Í Morgunblaðinu 1950 eru minningarorð Ólafs Þorvaldssonar um Magnús Ólafsson, síðasta ábúandans í Krýsuvík er lést 10. okt. sama ár:
„Í dag verður jarðsunginn frá þjóðkirkju Hafnarfjarðar, Magnús Ólafsson í Krýsuvík, en svo var hann oftast nefndur.
Fæddur var Magnús 9. sept. 1872, að Óttarsstöðum í Garðahreppi. Foreldrar hans voru Guðný Jónsdóttir frá Lambhaga í Mosfellssveit og Ólafur Magnússon frá Eyðikoti í Garðahreppi.
Þegar Magnús var 3 ára, varð faðir hans fyrir slysaskoti úr byssu og dró það skot hann til dauða eftir tæp tvö ár. Var Ólafur þá farinn að búa að Lónakoti. Þegar hann dó eftir 20 mánaða veikindi, voru efnin gengin til þurrðar, en fjögur börn í ómegð.
Á þeim tímum lá ekki nema eitt fyrir heimilum, sem svona var ástatt um, þau voru „tekin upp“, börnunum tvístrað til vandalausra — og þegar best ljet, væri móðirin hraust, gat hún máski einhvers staðar komið sjer niður með eitt barn. Þannig varð saga Lónakotsheimilisins, við fráfall Ólafs.
Magnúsi, sem þá var fimm ára, var komið fyrir í Hafnarfirði, hjá hjónunum Kolfinnu og Sigurði Halldórssyni í Kolfinnubæ, og mátti Magnús víst teljast heppinn með fósturforeldrana, þrátt fyrir fátækt þeirra. Með þessum hjónum ólst Magnús upp til 15 ára aldurs. Þá fór hann til Krýsuvíkur, og var þar í vinnu mennsku í 26 ár, nokkur ár í Stóra-Nýjabæ, en flest árin á heimajörðinni, þ.á.m. hjá Árna sýslumanni Gíslasyni.
Öll þessi ár hafði Magnús fjárgæslu á hendi, og varð brátt orðlagður fjármaður. Á sumrin, meðan fje gekk frjálst, stundaði hann venjuleg heimilisstörf, og var heyskapurinn þar fyriferðarmestur, enda var hann heyskaparmaður í besta lagi, svo og húsagerð og smíðar, því að hagur var hann vel.
Magnús giftist 1917, eftirlifandi konu sinni, Þóru Þorvarðardóttur, bónda að Jófríðarstöðum, hinni ágætustu konu. Þeim varð 5 barna auðið, og eru 4 þeirra á lífi, öll hin mannvænlegustu, eitt barn þeirra dó í æsku. Eitt barn átti Magnús áður en hann giftist, og er það nú gift kona í Hafnarfirði.
Eftir giftinguna hóf Magnús búskap að Suðurkoti í Krýsuvík, þótt til húsa væri á heimajörðinni, þar eð Suðurkotið var þá húsalaust. Þannig bjó Magnús í 28 ár, eða þar til að hann var fluttur veikur frá Krýsuvík í nóv. 1945. Tíu síðustu árin var hann aleinn í Krýsuvíkurhverfinu, utan þann tíma, sem kona hans og börn voru tíma og tíma hjá honum á sumrin, og svo það, sem synir hans, einkum sá elsti, Ólafur, fór til hans við og við á veturna. Þótt atvikin höguðu því svo, að ekki gætu þau hjónin ávallt notið samvistar, var hjónaband þeirra hið ástúðlegasta.
Eftir að börnin komust á skólaaldur, var ekki um annað að gera en að konan færi með þau þangað, sem skólavist var að fá, og lá því leið móðurinnar með börnin til Hafnarfjarðar. Annað var það og, sem gerði veru þar upp frá, fyrir konu með ungbörn, óbærilega, en það voru hin ljelegu og síhrörnandi húsakynni, sem enginn fjekkst til að bæta úr, þar eð jörðin var þá í höndum manna ýmist innlendra eða erlendra, sem ekkert vildu fyrir hana nje ábúendurna gera. Mjer er það kunnugt, að sársaukalaus var ekki þessi flutningur Þóru og barnanna, frá ástríkum föður og maka. Einkum var þeim vera Magnúsar þar upp frá mikið áhyggjuefni, eftir að þau voru flutt þaðan og hann orðinn einn eftir.
Jeg hygg að Magnús hafi oft hugsað eins og segir í þjóðsögunni: ,Mjer er um og ó‘. Hann átti konu og börn við sjó, sem hann hefði helst kosið að vera „.
Já, — en hann átti líka börn á landi, það voru skepnur hans, einkum þó kindurnar. Þetta voru líka börn hans, því að dýravinur var hann mikill. Svo er annað, sem vert er að minnast, það var hin órofa tryggð, sem hann var fyrir löngu búinn að taka við Krýsuvíkina, svo að honum fannst hann ekki geta, meðan kraftar entust, lifað annars staðar, nema verða sjer og sinum til angurs og byrði, og til þess gat hann ekki hugsað.
Hjer var það vandamál, sem fjöldinn ekki skildi, hann varð því einn að ráða fram úr því. Í Krýsuvík gat hann lifað og starfað fyrir konu og börn, betur en á nokkrum öðrum stað. Um líðan sjálfs sín hugsaði hann minna.
Líf hans var helgað konu og börnum þótt í fjarlægð væru. — Tvo síðustu áratugina hefur atvinna við sjó og búnaðarhættir til sveita breyst svo, að segja má, að sá umbreytingatími gangi Krýsuvíkina af sjer á fáum árum. Þar þótti ekki lengur lífvænlegt, og allir flúðu þaðan, nema Magnús, hann sat á meðan sætt var — og næstum því lengur.
Allir, sem þekktu Magnús, vissu að hann var góður fjármaður, og mikill vinnumaður, — en hann var meira. Hann var greindur í besta lagi, lesinn og fróður, meira en margan grunaði, enda átti hann nokkuð góðra bóka, þótt ekki lægju þær á glámbekk daglega. Hann gat verið skemmtinn og gamansamur í hæfilegum fjelagsskap, einkum þó við börn og unglinga. Svo prúður var hann í orðum, að ekki minnist jeg þess að hafa heyrt blótsyrði hrjóta honum af vörum. —
Þannig var hann í allri umgengni alltaf sami rólegi og æðrulausi maðurinn, afskiftalaus um annarra hagi, og talaði ógjarnam um sína. Slíkum mönnum er gott að kynnast.
Magnús dó á Hafnarfjarðarspítala 10. okt. síðastliðinn, eftir tveggja mánaða dvöl þar, en hafði hinn tímann (frá því í nóv. 1945) legið heima.
Um ævi Magnúsar, þótt fábreytt virtist fljótt á litið, mætti margt segja. Saga hans verður ekki sögð hjer í þessari stuttu kveðju.

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.
Árni Óla rithöfundur segir frá Magnúsi í bók sinni, „Landið er fagurt og frítt“, í kafla, sem hann nefnir: „Einbúi í Krýsuvík“. Segir þar meðal annars orðrjett: „Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt urn 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.“ Þannig skrifar Árni Óla 1941. Karlinn „Einbúi í Krýsuvík“ sýnir, að Árni hefur skilið Magnús betur en margur annar, og er þetta betur skrifað en óskrifað.
Ekki er ólíklegt að mikil einurð um áratugi, t.d. við fjárgæslu og yfirstöðu, um eða yfir 50 vetur, svo og margra ára einlífi mestan hluta ársins mörg hin síðustu ár hans í Krýsuvík, hafi orðið til þess, að nokkur skel hafi myndast um lund hans og líf, sem að fjöldanum sneri, — en undir sló glatt og trútt hjarta, stór og viðkvæm lund, en drengileg. — Tilfinningum hans, ást og umhyggju fyrir elskaðri konu hans og börnum reyni jeg ekki að lýsa hjer. Það er öllum kunnugt, sem þar til þekktu nokkuð.
Fleiri voru það en hans nánustu, sem vissu um hans höfðings lund og heiðarleik. Jeg, sem þessar línur skrifa, var lengi búinn að þekkja Magnús, og vissi fyrir löngu hver maður hann vár, en best fann jeg það í handtaki hans jegar jeg kvaddi hann síðasta sinn heilbrigðan á Krýsuvíkurhlaði, sá það í augum hans og heyrði á rödd hans.
Við hjónin vorum þá að leggja heim úr sumarfríi, því þriðja, sem við höfðum eytt undir þaki Magnúsar í Krýsuvík, sem við ávallt minnumst með hlýju og þökk.
Magnús gerði sjer aldrei far um að sýnast, hvorki fyrir mjer nje öðrum. Fyndist Magnúsi, sem einhver hefði sjer greiða gert, var hann ekki í rónni fyrr en hann hafði á einhvern hátt yfirborgað þann greiðá. Hann gat engan látið eiga hjá sjer, jafnvel ekki þótt vinur hans væri. Hjer máttu engin mótmæli, ef hin stóra og viðkvæma sál hans skyldi ósærð. —
Gestrisni hans við gesti og gangandi er svo kímin, að ekki þarf hjer um að ræða, enda of langt mál fyrir stutta blaðagr., en þess mun margur minnast nú, þegar fráfall hans berst þeim til eyrna.
— Á fjárlögum 1945 veitti Alþingi, eftir einróma samþykkt fjárveitinganefndar, eitt þúsund krónur sem viðurkenningu fyrir aðhlynningu og hjálpsemi við gesti, sem til Krýsuvíkur komu, — en þá hafði hann, eins og segir í brjefi til fjárveitinganefndar, „verið aleinn í hinni fornu Krýsuvíkursókn í 10 ár, og haft þar opinn bæ, á þessum afskekkta, en oft heimsótta stað af innlendu og erlendu fólki.“
Nú hefur þú, vinur, gengið hina síðustu göngu hjerna megin elfunnar miklu. Ferjumaðurinn hefur sótt þig að bakkanum, þar sem þú varst búinn að bíða örþreyttur en æðrulaus í 5 ár.
Hvað þú hefur hugsað öll þessi ár, er okkur að mestu hulið, en þegar kunnugir komu til þín og töluðu við þig, duldist þeim ekki að löngum muni hugur þinn hafa dvalið í Krýsuvík, og þá einkum við þau verk, sem þjer voru hugleiknust alla ævi, fjárgæsluna. —
Þrátt fyrir ástúðlegustu umönnun konu og barna, skyldi engan undra þótt sú bið hafi verið orðin þjer ærið löng; en þú varst eftir því, sem jeg best veit, sami rólyndi maðurinn, sem þú ávallt varst, meðan þú gekkst heill til skógar.
Á einverustundum orna mjer enn minningar frá okkar fyrri fundum, hvort heldur þeir urðu á heimíli þínu, eða þegar fundum bar saman, þá við hagræddum fje okkar í vetrarharðindum í högum úti. Ekki gafst þá alltaf mikið tóm til samræðna, þar eð báðir áttum langt heim að sækja, — annar í austur, hinn í vestur.
Oft gekkst þú á veg með mjer, þegar leið mín lá um Krýsuvík, og spjölluðum við þá um okkar hugðarefni. Í dag fylgi jeg þjer hljóður, úr þínu hlaði, síðasta spölinn, og þakka þjer fyrir alla samveruna.
Jeg tel að nú sje genginn síðasti Krýsvíkingurinn, þ.e.a.s. sá maðurinn, sem nú um langan aldur mun hafa dvalið þár lengst, og yfirgaf síðastur staðinn.
Góða ferð yfir til fyrirheitna landsins; þar munu bíða þín verkefni trúverðugrar sálar.“ – Ólafur Þorvaldsson frá Herdísarvík.
Heimild:
-Morgunblaðið 21.10.1950, Magnús Ólafsson, minning, bls. 10.





















