Krýsuvík – saga

Krýsuvík

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík“ frá árinu 2021 má m.a. lesa eftirfarandi um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan, Hnausar h.m. og leifar Krýsuvíkurbæjarins h.m. og ofan kirkjuna (bæjarhóllinn var sléttaður út með jarðýtu árið 1964).

„Elstu heimildir um Krýsuvík má finna í Hauksbók Landnámu, þar sagði að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Þarna er þó verið að tala um Gömlu-Krýsuvík sem líklega hefur staðið í Húshólma en þar má sjá fornar tóftir innan um hraunið sem hefur runnið yfir þær.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Ein kenningin er að eftir að Ögmundarhraun rann yfir Gömlu-Krýsuvík hafi bærinn verið fluttur þar sem Krýsuvíkurkirkja stendur enn í dag, inn á land Gestsstaða, sem var þá í eigu Krýsuvíkurkirkju. Við það hafi nytjar Gestsstaða rýrnað eftir því sem Krýsuvík þurfti meira land undir sinn búskap og Gestsstaðir á endanum lagst í eyði.

Sogasel

Sogasel – fyrrum sel frá Krýsuvík „millum oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land“.

Næst var minnst á Krýsuvík í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem er frá því um 1200, og sagt að kirkja hafi verið í Krýsuvík. Krýsuvík var einnig nefnd í máldögum Viðeyjarklausturs árin 1234 og 1284 í sambandi við hvalreka, ef hvalreka varð vart í Krýsuvík ætti að festa hvalinn þannig að hann ræki ekki aftur út og senda orð um rekan til Viðeyjar innan þriggja daga.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Í rekaskrá Strandakirkju 1275 var sagt: „fra mijgander grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa ger mældage æ herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skalhollte a halfann vidreka. allan annan enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land. Stadur j skalhollte og herdijsarvijk eigu iiij vættar huals og skal vega enu fiordu med brioske og beine: enn þridiung i öllum ef meire kiemur. Enn strandarmenn tuo hlute. Skalhollt oc krijsevijk æ halfann allann reka under fuglberge vi strandar land. Millum wogs og hellis ´strandur land iiij vætter en ef meire er þa æ skalhollt oc krijsevijk flordung j öllum hval. Enn firer austan wog til vindass æ stadur j skalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter enn ecke ellegar.“

Húshólmi

Húshólmi – gamla Krýsuvík – minjar í Ögmundarhrauni (rann 1151).

Svo sagði í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík: „Maríu kirja í Krýsuvík á heimaland allt. Herdísarvík. ix. mæla land á Þórkötlustöðum. Hálfan hvalreka í Raunnesi millum Rangagjögurs og marks við Bedstædinga [Bessastaðamenn] og eingja grasnautn með. Þrjá hluta hvals enn Viðeyingar fjórðung. Enn frá migandi gröf til kirkju fjöru eiga staðir í Skáholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn. Krýsuvík á allan reka á kirkjufjöru. Enn frá kirkjufjöru og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn. Enn í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viðar við Krýsuvík. Þriðjung hvalreka eigu staðir báðir saman til marks við Strandarmenn. Enn fjórðung hvals við Strandamenn til Vogs. Hálfan tólftung hvals á Krýsuvík í Strandar hluta. Ein messuklæði, kaleik, klukkur, ij bjöllur, ij glodarkier, altaraklæði, iij kross steindur, sacrarium, munnlaug, paxspjald, vij kýr, xvj ær og xx iij hross. Kúgildi viijc, j metfie, iij merkur vax, c vadmála, item iiij ær.“

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Í bréfi dagsettu 13. maí 1367, sem voru vitnisburðir Þorbjarnar Högnasonar um máldaga og eignir Strandarkirkju í Selvogi, var einnig talað um hvalreka sem var í eigu Krýsuvíkur og Skálholts. Og í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá sama ári var sagt að Maríukirkja í Krýsuvík ætti heima land allt „herdijsarvijk, ix mæaland á þorkotlustodum.“
1397 reiknaðist kirkjunnar góss í Krýsuvík „að auk fornra máldaga, vc, portio vmm, ij, är hälf, viiij alin.“ Einnig var sagt í máldaga Viðeyjarklausturs árið 1413 að staðurinn í Viðey ætti fjórðung í hvalreka í Krýsuvík.

Kvennagöngubásar

Hraunsnes (Raunsnes) – rekaítök Krýsuvíkurkirkju austan Ísólfsskála.

Í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík frá 1477 var sagt að kirkjan ætti heimaland allt Herdísarvík, ix mæla land á Þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Raunnesi milli Rangagjögurs og mark við Bessastaðamenn, svo voru eigur kirkjunnar taldar upp. Í bréfi frá 1479, sem var vitnisburður Arngerðar Halldórsdóttur um ítök upp í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, var sagt að kirkjan í Krýsuvík ætti þar j x hrundruð í jörðinni. 1487 var svo gerður vitnisburður um reka Viðeyjarklausturs á Krýsuvíkurfjörum og var hann svipaður og áður.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa frá 1491-1518 sagði að viðarhögg í Geldingasteini, fjöru í Keflavík að helmingi við Krýsuvíkurstað að öllum reka. Sauðhöfn í Krýsuvík og húsrúm manna í að geyma þar sauðfé.42 Biskup var svo fenginn til að meta kirkjuna í Krýsuvík árið 1496 og virtist honum kirkjan x hundruðir og staðin allan með hjáleiguhúsum innan garða xv hundruðir. Árið 1525 sagði Ögmundur biskup að Viðeyjarklaustur skyldi eignast þann part í Vatnsleysulandi sem Krýsuvíkurkirkja hafði átt. Í bréfabók Gizurar frá 1539 stóð að vitrir menn hafi sagt að sigla skyldi í suðvestur undan Krýsuvíkurbergi til að komast til Nýjalands. Ekki er víst hvaða land er átt við en ein kenning er að Nýjaland hafi verið partur af austurströnd Grænlands.

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa var sagt það sama og í máldaganum 1491-1518, og máldagi Maríukirkju í Krýsuvík var mjög svipaður máldaganum 1477. Árið 1563 var sóknarkirkjan í Krýsuvík lögð niður af hirðstjóra eftir beiðni Gísla biskups Jónssonar: „Það með kennumst ég Páll Stígsson kongleg Maiestatis Bidalningzmann yfir öllu Íslandi, að á Bessastöðum um haustið mánudaginn næstan fyrir Michaelsmessu, kom fyrir mig herra Gísli Jónsson Superintendes Skálholts Sticktis. Spurði mig ráða og tillagna hver nauðsyn mér þætti á þeirri kirkju sem haldin hafði verið í Krýsuvík. Þá tók ég með mér þessa heiðurs dánimenn Jón Bjarnason, Loft Narfason og Jón Loftsson prestmenn. Item Orm bónda Jónsson Gísla, Sveinsson og Níels skrifar Ólafsson. Þótti mér með þessum fyrrnefndum dánimönnum í fyrstu engin þörf eða nauðsyn vera eður verið hafa að í þessari nefndri Krýsuvík alkirkja væri. Því það má enginn sóknarkirkja kallast sem engin samkunda til liggur. Því leist oss svo best fara og sannlega staðfestum að þessi Krýsuvíkurkirkja aflagðist enn lægi til Strandar kirkju bæði tolla og tíundir og alla aðra rentu svo sem aðrir almenningsbæir skyldugir eru sínum sóknarkirkjum að veita.

Herforingjakort

Herforingjarðaskort 198 – Krýsuvík og nágrenni.

Enn umboðsmenn dómkirkjunnar í Skálholti skyldu Krýsuvík byggja til fulls landgildis og aftekta Skálholts dómkirkju vegna. Svo og líka Herdísarvík og annað það fleira sem þessum Krýsuvíkur stað hefur fylgt. Enn sökum þess að þessi oftnefnda Krýsuvík liggur nokkuð í fjarska að vegalengd til Strandarkirkju þá þótti oss vel fara þó í Krýsuvík stæði lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt: Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja svo að Guðs orðs þjénari mætti þar huld nætur saka hafa þá hann þar kæmi eða þyrfti að koma Guðlegrar hjarðar að vitja. Skyldi þetta vort álit og gjörningur óbregðanlega standa hér eftir.“

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

1627 áttu hin svokölluðu Tyrkjarán sér stað. Eiga þeir að hafa komið á land í Krýsuvík og sagt var frá því í Þjóðsögum Jóns Árnasonar hvernig séra Eiríkur í Vogósum, sem sagður var göldróttur, hrakti þá í burt: „Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðar heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi inn og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið þið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar sem þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).“

Selalda

Eyri, Krýsuvíkursel og nágrenni undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Eitt sel var skráð í suðaustur hlíðum Selöldunnar, ekki skal fullyrt um að Tyrkir hafi drepið þar matseljuna en þjóðsagan virðist staðfesta selið. Einnig stendur Eiríksvarða enn á Arnarfelli, þó hún hefur verið bætt á seinni tíð.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Krýsuvík sögð kirkjustaður og var hún annekteruð til Selvogsþinga. Jarðardýrleikinn var óviss og eigandinn dómkirkjan í Skálholti. Landskuldin var i hundraðir þrjátíu álnir og borgaðist með fiski ef hann var til, annars með peningum eða landaurum upp á danskan taxta. Ábúandi átti rekavið frjálsan til uppbóta á húsum nema ef um stór tré var að ræða, þá tók dómkirkjan í Skálholti helminginn. Þá sagði Jarðabókin einnig frá sex hjáleigum, Nýjabæ, Litla Nýjabæ, Norðurhjáleigu (seinna Norðurkot), Suðurhjáleigu (seinna Suðurkot) Austurhús og Vesturhús.

Krýsuvík

Seltún – hluti úr Herforingjaráðskorti 1908.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík á árunum 1752–1757 og sögðu að Krýsuvík væri kunn á Íslandi og meira að segja erlendis vegna brennisteinsins sem hafði verið safnað þar til útflutnings og gerðu þeir greinagóða lýsingu á hverasvæðinu í Seltúni.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Henry Holland.

Henry Holland kom til Krýsuvíkur árið 1810 og lýsti staðarhaldi þar sem heldur slæmri upplifun: „Til Krýsuvíkur komum við kl. 5. Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við ræturnar á stakri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja, 18 fet á lengd og 8 á breidd, en hæðin er 5 fet og 8 þumlungar undir bita. Við höfðum ráðgert að búa í kirkjunni, meðan við dveldumst í Krýsuvík, og í því skyni fengum við kirkjulykilinn léðan. En við höfðum naumast litið inn í hana, er við hurfum frá því ráði. Svo mátti heita, að þar kæmu saman öll þau ógeðugheit, sem framast væri að hugsa sér, skítur, myrkur og óþefur af fiski á öllum mögulegum herzlustigum o.s.frv. Gólfið var óslétt, að við hefðum naumast getað skorað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani.“

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1818 svaraði séra Jón Vestmann, prestur í Selvogi, bréfi konunglegu nefndarinnar, Commissionen for oldsagers opbevaring, sem hafði sent fyrirspurn um fornleifar í landinu. Þar skrifar hann um þær fornminjar sem hann þekkir en nefnir engar í núverandi landi Krýsuvíkur. Þó minnist hann á fornminjar í Ögmundarhrauni: „Húshólmi niður við sjóinn í hama hrauni; hefur þar verið mikil byggð áður en brann, sem sést af húsa tófta brotum, að hvar um hraunið gengið hefur, að norðan – vestan – sunnan, og næstum saman að austan-verðu; er þar 1t tóftarform 12 feta breitt, og 24 feta langt, innan niður fallinna veggja rústa; húsið hefur snúið líkt og kirkjur vorar, meinast gamalt goða-hof; fundið hafa menn þar nokkuð smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett túngarðs form með 20 faðma millibili, hvar nú er lyng mói; enn graslendi innan innri garðs, austanvert við hraunið.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna eftir íkveikju þann 2. janúar 2010 og í framhaldi á því fór fram fornleifarannsókn á kirkjugrunninum vegna undirbúnings fyrir nýju kirkjuna sem Iðnskólinn í Hafnarfirði smíðaði og stendur sú kirkja þar í dag.“

Krýsuvík

Krýsuvík – stíflugarðar. Bærinn Lækur fjær.

Því sem Jón Vestmann lýsir sem „tvísettum túngarði“ austan bæjar voru í raun stíflugarðar er mynduðu tjörn í Vestari-læk (leifar stíflu sést syðst). Í afrennsli hennar var mylla þannig að garðarnir þjónuðu a.m.k. tvíþættum tilgangi. Það kemur reyndar ekki fram í framangreindri fornleifaskráningu, sem ber reyndar sem slíka að taka með fyrirvara.

Heimildir:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík 2021.
-Landnámabók I-III. Hausbók. Sturlubók. Melabók, 1900, bls. 123-124.
-Brynjólfur Jónsson, 1903, bls. 50.
-Jón Árnason, 2003, bls. 562.
-Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1924, bls. 3-7.
-Eggert Ólafsson, 1981, bls. 178-179.
-Henry Holland, 1992, bls. 60.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.