Krýsuvík – Seltúnssel – Grjóthólsrétt (Gráhólsrétt) – Arnarfellsrétt
Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.
Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.
Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.
Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.
Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).