Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg er bjarg sem rís úr sjó í Krýsuvíkurhrauni á sunnanverðum Reykjanesskaga.
Bjargið er Krysuvikurbjarg-301langstærsta fuglabjarg skagans. Þar verpa um 60.000 fuglapör, mest rita en líka langvía, álka, stuttnefja og fýll, og eitthvað af lunda, toppskarf, silfurmáf og teistu. Áður fyrr var algengt að menn sigu í bjargið eftir eggjum og 1724 fórust þar þrír menn sem urðu fyrir grjóthruni. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965. Við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar, eins og þegar Steindór GK strandaði þar 1991 og Þorsteinn GK 1998. Í báðum þessum tilvikum varð mannbjörg.
„Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftíma gang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.
Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til Krysuvikurbjarg-405strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur. Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.
Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá. Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur. Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krysuvik-980Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og -fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. — Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið.
Efri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur. Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.“
Sv. Þ.

Heimild:
-wikipedia.org
-Vísir, Undir Krýsuvíkurbjargi, 24. janúar 1962, bls. 9 og 10.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurbjarg (h.m.) og -berg (v.m.) við fossinn af Eystri-Læk.