Krýsuvíkurkirkja brennd til grunna
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola í nótt [02.01.2010]. Slökkvilið Grindavíkur var kallað út laust eftir klukkan tvö í nótt.
Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði að útkallið hafi komið frá Neyðarlínunni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið sendur á vettvang. Leiðin úr Grindavík í Krýsuvík er ekki auðfarin á þessum árstíma og var slökkviliðið um hálftíma að Krýsuvíkurkirkju.
Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var kirkjan fallin og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Fenginn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði.
Ekkert rafmagn er á staðnum og ekki er vitað um eldsupptök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mannleg mistök. Lögreglan mun rannsaka eldsupptökin í dag.
Altaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
„Þetta er skelfilegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli. „Það var dýrgripur sem var þarna í Krýsuvík, einstök kirkja og gríðarlega mikið heimsótt.“
Í kirkjunni var gestabók og þúsundir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkjunni var hún alltaf setin til þrengsla og fjöldi fólks utandyra, að sögn Þórhalls. Hann sagði marga hafa borið vinarhug til gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Missir hennar sé því mikið áfall.
Þórhallur sagði að altaristafla Sveins Björnssonar, sem hann málaði sérstaklega fyrir kirkjuna, hafi bjargast. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju í lok september ár hvert. Eftir þá messu var altaristaflan tekin niður og geymd ásamt öðrum lausum kirkjugripum í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857, fyrir 153 árum, og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Kirkjan var í vörslu þjóðminjavarðar.
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964.
Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.
150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.
„Menn eru í áfalli vegna þess að við upplifum þetta sem árás á varnarlaust lítið barn,“ segir Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði um Krýsuvíkurkirkju sem brann í nótt. Kirkjan heyrði undir Hafnarfjarðar-prestkall og segir Þórhallur hafa messað þar tvisvar á ári. Kirkjan var fjölsótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þórhallur segist hafa talað við slökkvilið og lögreglu um brunann.“
Um eldsupptök er ekki vitað. Sumir telja að þau megi rekja til þess að skemmtanahald meðal álfa hafi farið úr böndunum á nýársnótt, en að sögn lögreglunnar er líklegt að kviknað hafi út frá kerti eða kertum. Sjónarvottur, sem kom í kirkjuna daginn áður, tók eftir tveimur kertum á altarinu. Þar var og gestabókin.
Líklegt má telja að einhver eða einhverjir, sem komu í kirkjuna á nýársdag eða nýársdagkvöld, hafi kveikt á kertunum, hugsanlega til að skrifa í gestabókina, og síðan farið óviljandi án þess að slökkva logana. Eldsupptökin virðast hafa orðið austast í kirkjunni þar sem altarið var.
Þjóðminjavarslan mun án efa íhuga að láta af endurbyggingu kirkjunnar á þessum stað. Með því getur hún sparað einhverja aura. Aðrir vilja að kirkja verði byggð að nýju í Krýsuvík og mun það væntanlega ganga eftir.
Heimild:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/02/krysuvikurkirkja_brann_i_nott/
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319188/
http://www.dv.is/frettir/2010/1/2/kirkjubruninn-menn-eru-i-afalli/