Kútter Esther

 Eftirfarandi frásögn um mannbjörgina miklu 24. mars 1916 birtist í Ægi árið 1933:
Gudbjartur olafsson-2“Lengi hef ég nuddað við hafnsögumann Guðbjart Ólafsson í Reykjavík um að láta í té skýrslu um hina miklu björgun, er hann og skipverjar hans, framkvæmdu hinn 24. marz 1916 og sem var slík, að stjórn Fiskifélags Íslands fann sig knúða tíl að veita Guðbjarti, sem þá var skipstjóri á Esther, verðlaun fyrir hið mikla mannúðarverk, sem undir forustu hans var unnið og afhenda skipshöfninni skrautritað þakkarávarp. Það var gert að kveldi kl. 18, hinn 25. apríl 1916. Sjá »Ægir« bls. 59, 1916.
Nú vill svo vel til, að listmálari Arreboe Clausen hefur nýlega lokið við mynd af kútter Esther og datt mér þá í hug að herða á Guðbjarti Ólafssyni að láta af hendi skýrslu um björgunina, svo hún geti fylgt mynd þeirri af skipinu.sem er í þessu blaði. Nú er skýrslan komin og er á þessa leið: Hinn 23. marzmánaðar 1916 var ég á handfæraveiðum á kútter Esther á hinum alþekkta Selvogsbanka. Undanfarna daga var blæja logn og eins mikill fiskur og hægt var að taka á móti. Þennan dag kl. 4 siðd. voru komnir á þilfar á Esther 4000 fiskar og áleit ég, að ekki væri mögulegt að koma meiri fiski í lestina að eins vél til þess að komast heim til að láta fiskinn á land. Andvari var af vestri. Var nú öllum seglum tjaldað og haldið áleiðis til Reykjavíkur. Það var seinlegt verk að koma fiskinum fyrir í lestinni, og var því ekki lokið fyrr en kl. 9 árd. þann 24. Var þá skipið út af Sandgerði. Sama blíðviðrið var allan þennan tíma frá því lagt var af stað. En allt í einu sést við vestur hafsbrún svart ský, sem smáfærðist norður eftir, þar til það staðnæmdist í hánorðri og eftir 5 mínútur skellur yfir kafaldsbylur með norðanroki og hörkufrosti. Nú þurfti að láta hendurstanda fram úr ermum við að fækka seglum, og tví og þrírifa stórsegl, aftursegl og fokku. Þegar því var lokið, voru ekki tök til að sigla lengra áfram. Var þvi siglt undan vindi suður að Reykjanesi og sá ekki út fyrir borðið fyrir kafaldsbyl. Þegar komið var móts við Reykjanes var hælt að sigla og skipið látið reka austur með. Kl. 3 1/2 var fyrirsjáanlegt, að áframhaldandi norðanstormur myndi verða og ákvað ég því að sigla lengra austur eftir til þess að komast í smærri sjó. Þegar við höfðum siglt um 10 minútur, segir einn skipverja: »Hvað er þarna að fjúka á sjónum fyrir norðan okkur?«
Kutter Esther-2Ég náði í sjónauka og sá þegar að þarna var opinn bátur, sem sigldi með smá þríhyrnu og hélt hann í áttina til Esther. Samstundis var hætt að sigla og beðið eftir, að báturinn kæmi til okkar, ef ske kynni að hægt væri að ná einhverju af mönnunum, þó það sýndist vart framkvæmanlegt fyrir roki og sjógangi, þar sem við vorum 3 sjómílur út af Reykjanesi. Eftir stuttan tíma tókst að koma línu til bátsins og höfðum við hann aftan í Esther meðan verið var að athuga á hvern hátt hægast mundi vera að ná mönnunum. En ekki leið á löngu þar til öllum var bjargað um borð í Esther og báturinn settur aftan í. Þegar ég hafðí talað við bátsverja, upplýstist það, að báturinn var úr Grindavík, og töldu þeir víst, að fleiri bátar væru.sem ekki hefðu náð landi.
Ég fór þá aftur að sigla nær landi og meðfram athuga, hvort fleiri bátar væru, sem þyrftu hjálpar með. Eftir stutta stund sáum við einn bát, sem hélt undan veðrinu í áttina til okkar, og náðum við mönnunum úr þessum bát á sama hátt og úr þeim fyrri. Aðferð sú er höfð var til að innbyrða mennina var þessi: Bátarnir voru hafðir til kuls og tveir menn tóku á móti hverjum einstökum er öldur lyftu bátnum upp. Að hafa þá á hléborða var ógerningur sökum þess, að bátarnir hefðu mölbrotnað af veltingi skips ins, áður en þeim hefði verið náð fram á síðuna. Skömmu eftir að við höfðum lokið við að ná mönnunum úr þessum bát og festa hann aftan í, sást til tveggja báta enn, sem stefndu til okkar. Fór mér nú ekki að lítast á, að hægt væri að koma öllum þessum mönnum undir þiljur, þar sem 27 manna skipshöfn var fyrir á skipinu. En sjálfsagt var að gera það sem hægt var. Komu nú þessir tveir bátar á svipuðum tíma til okkar, og tókst okkur að ná mönnunum úr þeim, öllum ómeiddum. Allir bátarnir voru settir aftan í Esther, hver aftan í annan, og var nú Esther gamla hægfara með alla þessa trossu i eftirdragi. Það var nú orðið fjölmennt umborð. 38 menn voru alls á þess um 4 bátum og þarf ég ekki aðlýsa hvernig umhorfs var fyrir þeim, sem þekkja til íbúða í kútteruni. 25 menn voru í káetunni og 40 í lúkar.
Rodur-21Ég sá þegar að eini möguleikinn til að missa ekki bátana var að ná sér upp á vikina sunnan við Reykjanesið og leggjast þar fyrir akkerum, en það var hægara sagt en gert.- Byrjaði. ég nú að slaga uppundir, en um kl. 9 um kvöldið bilaði mezaninn og varð að taka hann niður, en meðan verið var að laga hann, rakskipið undan sjó og vindi,. svo þegar allt var komið í lag aftur, virtist öll von úti um það, að hægt væri að ná sér undir land, bví enn hafði hert veðrið að mun. Var nú lagt til drifs, þó að það væri neyðarúrræði þvi skipið var svo hlaðið að það var ekki fært til að mæta stórsjó og roki úti á hafi. Allt sem upp úr stóð var margfalt af klaka, einkum reiðinn og seglin. Það kom fljótt í ljós. þegar lengra dró frá landi — sem ég hafði álitið, að skipið væri of hlaðið og minnist ég ekki þeirra tíma, sem ég var á skútum, að hafa séð skip liggja eins djúpt eins og Esther í þetta sinn. Það var auðvitað, að alltaf stækkaði sjórinn, eftir því sem lengra dró frá landi og sýnilegt hvaða enda það myndi hafa, ef ekkert væri að gert. Við létum þorsklifur í nokkra poka og bundum þá á kulborða, en það reyndist ekki fullnæjandi. Það sem næst lá fyrir, var að létta skipið, en það var enginn hægðarleikur, og ég fullyrði það, að hefði ég ekki haft eins valið lið, er óvíst hvernig farið hefði. En allir voru samtaka og enginn hlýfði sér og eftir tveggja stunda vinnuvarbú seglfestinni, þrátt fyrir, þótt yrði að taka það allt upp um káetukappann og sækja það niður undir lestargólfið. Nú hafði Esther létzt talsvert og átti hægara með að lyfta sér á öldunum og verjast áföllum.
Þegar farið var að líta eflir bátunum, kom í ljós að þeir voru allir slitnaðir aftan úr og var það mikið tjón fyrir þá, sem þá áttu, en við því var ekki hægt að gera, og heyrði ég engan bátverja fást um það, því þeir vissu hvernig veðrið var og öll aðstaða. Alla nóttina dreif austur eftir og næsta dag. Það var fyrst að morgni þess 26., að hægt var að byrja að sigla, og var skipið þá 20 sjómílur VNV af Vestmannaeyjum, hvassviðri var enn af norðri. Það var verið að að sigla allan daginn og um kvöldið kl. 8 vorum við komnir upp undir Krýsuvíkurberg og haldið sér við þar um nóttina, því enn var of hvasst til að koma mönnunum á land í Grindavík. Um hádegi hinn 27. var svo siglt vestur á móts við Járngerðarstaðahverfi með flagg við hún og eftir stutta stund kom stórt skip út til okkar, og varð nu mikill fagnaðarfundur, eftir þriggja sólarhringa óvissu um hvort allir þessir menn væri lífs eða liðnir. Kvöddu nú bátverjar okkur með þakklæti fyrir samveruna og óskuðu okkur alls hins bezta. — Þannig er skýrsla skipstjóra.
Verðlaun þau er Fiskifélagið afhenti skipstjóra Guðbjarti Ólafssyni, var silfurbikar og á hann letrað: »Til Guðbjartar ólafssonar skipstjóra. Viðurkenning fyrir björgun 38 manna úr sjávarháska 24. marz 1916. Frá Fiskifélagi Íslands. Auk þess afhenti stjórn Fiskifélagsins um leið skrautrituð ávörp til skipstjóra og skipshafnar á »Esther«.
Grindvíkingar afhentu einnig skrautritað þakkarávarp til skipshafnar. Gullúr og keðju færðu þeir skipstjóra og á það var letrað: »Með þakklæti fyrir björgun og móttökur. Formenn og hásetar í Grindavík. Frá því opinbera kom engin viðurkenning, því eitthvað viðeigandi vantaði, eins og vant er.
Árið 1922 bjargaði Guðbjartur Ólafsson botnvörpuskipinu »Bona Dea« frá Grimsby, er það í roki var að þvi komið að reka upp í Þrídranga við Vestmannaeyjar; voru á því 14 menn, sem telja má víst, að allir hefðu farist. Hann var þá skipstjóri á botnvörpungnum »Ingólfi Arnarsyni« (aðeins þá einu ferð). Ofsarok var er hann náði i »Bona Dea«, en heppnaðist þó að koma dráttartaug til skipsins, sem hann síðan dró til Reykjavíkur. Fyrir þessa björgun voru greiddar kr. 52.000, en skipstjóri og skipshöfn fengu 1/3 af þeirri uppbæð, sem skiptist milli allra á skipinu — eins og lög mæla fyrir. Enga opinbera viðurkenningu fékk skipshöfn.
Síðan þetta bar til eru nú liðin 17 ár, en skeð getur þó, að einhverjum,- sem kom þessi björgun við, þyki gaman að sjá mynd af skipinu og manninum, sem gekk fram sem hetja til að bjarga meðbræðrum sínum og samkvæmt útreikningi nú má áætla, að hann og skipshöfn hans, hafi. svift sjóinn bráð, sem virða má á tvær milljónir sex hundruð og sextíu þúsund krónur, hinn 24 marz 1916.

Reykjavík, 24. marz 1933.
Sveinbjörn Egilson.”

Heimild:
-Ægir, 26. árg. 1933, 3. tbl. bls. 91-95.

Kutter Frida

Kutter Fríða í Saltfiskssetrinu.