Lúpína

Efirfarandi fróðleikur um lækningajurtir og galdraplöntur birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:

Gros-1“PLÖNTUR hafa fylgt manninum frá upphafi vega. Þær hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sögu hans og menningu. Land-búnaðarbyltingin grundvallaðist á því að menn fóru að rækta korn og eftir það hófst myndun borga og nútímamenning varð til.
Í indversku spekiritunum Rig Veda segir að maðurinn hafi lært að þekkja ætar plöntur frá eitruðum með því að fylgjast með fæðuvali grasbíta. Síðan hefur hann lært að rækta og kynbæta plöntur til að fullnægja þörfum sínum. Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasalæknum og þær voru ræktaðar í klausturgörðum. Munkar og grasalæknar sáu um að lfkna sjúkum og græða sár með jurtalyfjum og smyrslum.
Í seinni tíð hefur vegur grasalækninga vaxið mikið, og oftar en ekki í samfloti við svo nefnda nýaldarhyggju. Svo virðist sem vesturlandabúar leiti æ oftar til grasalækna í von um að þeir geti bætt mein sem læknavísindin standa ráðþrota frammi fyrir. Grasalækningar hafa í grófum dráttum þróast frá göldrum, þar sem seiðmenn ráku út illa anda með hjálp plantna, yfir í að vera vísindi. Í þessu ferli hafa komið fram allskyns hugmyndir um lækningarmát plantana. Á tímabili var því trúað að plöntur sem bæru blöð sem væru í laginu eins og lifur, væru góðar gegn lifrarsýkingum og að plöntur sem líktust kynfærum á einhvern hátt ykju kyngetuna.
Í einni athugun Osp-1kom í ljós að af 119 mikilvægustu plöntunum sem notaðar eru til lyfjagerðar eru 88 af tegundir þekktar meðal frumstæðra þjóðflokka sem lækningar-jurtir. Jurtalyf hafa ekki eingöngu verið notuð til lækninga, þau geta líka verið sterk eitur, og á tímum Grikkja og Rómverja voru þau mikið notuð til að ryðja pólitískum keppinautum úr vegi. Frú Lacusta eitursérfræðingur Neró keisara var einstaklega lagin við það og aðstoðaði hún hann í valdabaráttunni með því að eitra fyrir andstæðingum hans.
Náttúruþjóðir lifa að stórum hluta á jurtum. Þær eru notaðar til að komast í samband við guðina og til þess að fara sálförum yfir í andaheiminn. Einstaka trjátegundir voru og eru dýrkaðar sem guðir væru. Drúítar álitu að eikin væri tákn styrkleika og veitti vernd. Sedrusviðurinn naut á sínum tíma átrúnaðar kristinna manna, gyðinga og múslíma, þótt hver hefði sína ástæðu. Fíkjutré eru álitin heilög af búddhistum vegna þess að Siddharta Gautama öðlaðist nirvana undir einu slíku. Hindúar trúa því að guðinn Brahna hafi breyst í fíkjutré. Helgileikir í tengslum við árstíðir og uppskeru eru oft tengdir hlutum úr tré, þekkt dæmi um þetta eru jólatré og maístöngin. Fyrir tíma kristninnar þekktist það í Norður-Evrópu að unglingar færu út í skóg og kæmu til baka með skreyttar trjágreinar, reðurstákn – tákn frjósemi sem síðan var dansað kringum. Í kristni eru plöntur notaðar sem tákn og Jesú notaði þær oft í dæmisögum sínum. Fífillinn sem er bitur á bragðið og táknar pínu Krists og krossfestinguna. Samkvæmt helgisögninni var krossinn smíðaður úr ösp og þess vegna skjálfa lauf asparinnar án afláts. Rósir eru tákn Krists og María guðsmóðir var kölluð rós án þyrna vegna þess að hún var talinn syndlaus. En kristnir menn hafa ekki alltaf verið jafn sáttir við rósir. Rómverjar litu á hana sem merki um sigur og hún var tákn ástargyðjunnar Venusar. Rósin var eftirlætisblóm keisarans í Róm og heiðins háaðals og hafði táknrænt gildi.
Forn-Grikkir töldu að Adonis hefði fæðst af mytrustré og að börkur þess hafi rifnað eftir tíu mánaða meðgöngu. Alexander mikli á að hafa komið að talandi tré í einni herferð sinni, tréð ávítaði hann fyrir valdagræðgi og spáði fyrir um dauða hans í ókunnu landi.
AsBirki-2kurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Óðinn hékk níu nætur í tré til að öðlast visku og Adam og Eva borðuðu af skilningstrénu og voru rekin úr paradís fyrir vikið. Í norrænni goðafræði eru dæmi þess að menn hafi blótað tré og lundi í tengslum við Freysdýrkun.
Alþýðleg þekking á nýtingu plantna hélst við hér á landi fram undir síðustu aldamót en hefur nú að mestu fallið í gleymsku. Breyttir búskaparhættir og ör þróun læknavísinda ruddi henni til hliðar og gerði hana að mestu óþarfa. Nokkuð er um forn goðaheiti á íslenskum plöntum þó þau séu fá, þau eru m.a. baldursbrá, friggjargras og lokasjóður. Á hinum Norðurlöndunum eru allmargar tegundir plantna kenndar við Jesú Krist en ekkert hér á landi. Nokkur gömul íslensk plöntunöfn eru kennd við Maríu mey t.d. Maríugras og Maríuskór. Talsvert ber á því í sögum þar sem plöntur eru taldar til að ekki er getið um tegundarheiti, plantan er nefnd til sögunar án þess að vera kjarni hennar. Í Allrahanda samkvæmt Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum eru tvær jurtir sem eru þeirri náttúru gæddar að geta opnað skrár og lása þ.e.a.s. tungljurt (Botrycium lunaria) og fjórlaufasmári
(Paris quadrifolia). „Hefir það vafalaust verið trú hér eins og í Noregi að lásar hrykkju opnir, ef tungljurt var borin að þeim.” Og „hér á landi var mikil trú á töframætti ferlaufasmárans, talið var, að ef hann væri borin að læsingum, hvort heldur á húsum eða hirslum, hrykkju þær upp. Af því verða til nöfnin lásagras, skráagras, þjófagras og þjófarót.

Vallhumall-1

Nafnið lausnargras, [… ], gæti bent til trúar á, að plantan greiddi konum fæðing, sbr. lausnasteinn.” Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna eftirfarandi sögu um þjófagras. „Þjófarót er gras eitt með hvítleitu blómi. Er það mælt að hún sé vaxin upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin upp af náfroðu upp úr honum. En aðrir segja að hún sé sprottin upp af þjófadysinni. Rót gras þessa er mjög angótt. Þegar þjófarót er tekin verður að grafa út fyrir alla angana á henni án þess að skerða nokkurn þeirra nokkurstaðar nema miðangann eða meginrótina sem gengur beint í jörð niður, hana verður að slíta. En sú náttúra fylgir þeim anganum að sérhvert kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hann slitnar liggur þegar dautt. Þeir sem grafa þjófarót binda því flóka um eyru sér. En til þess að þeir sé því ugglausari að þeir heyri alls ekkert hafa þeir þó varúð við að þeir binda um rótina og hinum endanum við hund sem þeir hafa með sér. Þegar þeir eru búnir að undirbúa allt hlaupa þeir frá greftrinum og þegar þeir þykjast komnir nógu langt burt kalla þeir á hundinn. Slitnar þá anginn við það að hundurinn gegnir og ætlar að hlaupa til mannsins, en hundurinn drepst þegar í stað er hann heyrir slithvell rótarinnar. Síðan er rótin tekin og geymd vandlega. Gras þetta hefur þá náttúru að það dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðamús dregur fé úr sjó. En þó verður fyrst að stela undir hana peningi frá bláfátækri ekkju milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. En ekki dregur rótin aðra peninga en þá sem samkyns eru þeim er undir hana var stolið í fyrstu [… ].

Reynitre-1

Ekkert vandlæti hef ég heyrt að sé á því að geyma eða verða af með rót þessa: því fleygja má henni hvar og hvenær sem vill að ósekju. Þess má geta að í Evrópu er þekkt galdrajurt með kræklótta rót sem nefnist gaddepli (Datura stramonium). Þar er því trúað að hún spretti upp af sæði þjófs sem hefur verið hengdur og eru aðferðirnar við að ná rót hennar þær sömu.

Vallhumall þykir hin besta lækningarjurt og er sögð brúkleg gegn ýmsum kvillum, jurtin er mýkjandi, blóðleysandi og styrkjandi. Sé rótin þurrkuð og mulin er hún talinn góð gegn ígerð og tannpínu. Seyði jurtarinnar er talið gott gegn kvefi, hrukkum og fílapenslum í andliti þvoi menn andlit sitt með því fyrir svefninn.

Á Íslandi naut reyniviðurinn sérstakrar helgi, eins og sjá má á eftir farandi sögu. „Hér hafði í fyrndinni verið tígulegt, einstakt tré, talsvert hátt, með beinum og auk þess ílöngum blöðum og glæsilegum ávöxtum. Er það ætlun mín, að það hafi að vísu verið lárviður, sem þarna hafi verið gróðursettur af einhverjum dýrkanda forns átrúnaðar vegna þess, hvað staðurinn var hentugur, eða þá að hann hafi vaxið upp fyrir einstaka velgjörð Guðs, því að löngu fyrir vora daga flykktist almenningur að tré þessu með gjöfum, ljósum og ýmiss konar þjónustu, sem var öldungis runnin af rótum páfatrúar og hjáguðadýrkunar, þar til óhjákvæmilegt var að eyðileggja það, til þess að taka fyrir hjátrúna.

einir-21

En nú hefur það aftur blóðgat með blöðum og ávöxtum og er orðið hið yndislegasta að nýju. Þess vegna er nágrönnunum það óhæfa að skemma það.” Þótt Gísli tali hér um lárvið þá er auðséð á lýsingunni að um reynivið er að ræða. Tréð er hátt með beinum greinum, ílöngum blöðum og glæsilegum ávóxtum. Allt þetta á við reynivið og svo ber þess að gæta að á tímum Gísla Oddssonar voru einungis tvær trjátegundir á Íslandi sem náðu einhverri hæð. Annað var birki og hitt reynir, allir sem eitthvað þekkja til trjáa sjá strax að lýsingin á ekki við birki en kemur vel saman við útlit reyniviðar. Þess má til gamans geta að talsverð hjátrú loðir við reyninn og var það trú manna að hann hefði níu náttúrur vondar og níu góðar og var það talið ógæfumerki að fella hann.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur m.a. þetta um reynivið. „Af viðartegundum hafa einna mestar sögur farið að reyniviðnum enda hefur verið allmikil trú á honum bæði að fornu og nýju og jafnvel allt fram á okkar daga. Hann hefur haft einhvers konar helgi á sér og merkilegt er það að hann skyldi verða Ásaþór til lífs er hann óð yfir ána Vilmur til Geirröðargarða og er því reynir síðan kallaður sjálfsagt í heiðurs skyni „björg Þórs” sem Edda segir.

Aetihvonn-1

Þó er það enn helgara og háleitnara sem stendur um hann í Sturlungu þar sem Geirmundur heljarskinn sá ávallt ljósið yfir reynilundi sem vaxinn var í hvammi einum er Skarðskirkja á Skarðsstönd var síðan byggð í. Af því að hann var heiðinn maður var honum ljós þetta ekki að skapi, en svo voldugur og ríkur höfðingi sem Geirmundur var dirfðist harm allt um það ekki að uppræta reynirunninn, en óskaði sér þess aðeins að hann væri horfinn burt úr landareign sinni og fékk ekki við gjört að heldur og hýddi smalamann sinn harðlega fyrir það að hann lamdi fé Geirmundar með reyniviðarhríslu.
Seinna á öldum hefur hann þótt einhver óbrigðulasti sakleysisvottur þegar hann hefur sprottið á leiðum þeirra manna sem sökum hafa verið bornir og af teknir án þess að hafa getað sannað sýknun sína í lifanda lífi og eru um það sögur.”
Í lokin má svo geta þess að nokkur bæjarnöfn eru kennd við reynivið, eins og Reynistaðir og Reynivellir og svo er auðvitað til mannsnafnið Reynir.

Sortulyng eða mulningur var notað til að drýgja tóbak (þetta er reyndar einnig þekkt meðal Sioux indíána Norður-Ameríku) og til að búa til blek, það var einnig notað sem litarefni. Í galdrabók frá 15. öld er það sagt gott til að fæla burt drauga. Nafnið lúsamulningar er einnig þekkt, en það stafar af því að menn töldu sig verða lúsuga af því að borða sortulyng.

sortulyng-1Birki er ein af þessum plöntum sem Íslendingar hugsa til í hálfgerðri lotningu, talað er um endurheimt birkiskóganna og skuldina við landið. Fyrirtæki og einstaklingar keppast við að koma nafni sínu á blað í tengslum við skógrækt. Seyði úr birkiberki þótti afar gott gegn niðurgangi og til að verja barnarassa sviða. Þá þótti einnig gott að brugga vín, svo nefnt birkivatn, úr birki.

Skarfakál, kálgresi, síonsjurt eða skyrbjúgsjurt er gömul lækningarjurt og mjög Cvítamínrík, henni var safnað á vorin og þótti hún hin besta lækning við skyrbjúg eins og eitt af nöfnum hennar gefur til kynna. Skarfakál var talið örva tíðir og þótti gott að leggja hana í mat til að varna rotnun.

Ætihvönn hefur alla tíð verið mikils metin hér á landi og reyndar víðar. Á latínu heitir hún Archangelca sem þýðir erkiengilsjurt. Síra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal talar um það í Grasnytjum sínum að hvönnin lækni milli 10 og 20 sjúkleika og Oddur Hjaltalín segir Í bók sinni íslenzk grasafræði. „Urtin hefir styrkjandi, vindeyðandi, svitaeyðandi, ormdrepandi, uppleysandi, forrotnum mótstandandi og blóðhreinsandi krapt. Hún er því góð ímót matarólyst, vindum í þörmum, innvortis tökum, gulu, hósta, skyrbjúgi, stöðnuðu tíðablóði, og mótstendr drepsóttum [… ].
Til manneldis má rótina brúka, er hún munntöm fæða með fiski og nýu smjöri; hún er og bezta sælgæti bSmari-1ituð og selltuð með sykri.” Það er ekki ólíklegt að hvönn hafi verið ræktuð hér á landi allt frá landnámi, hún var að minnsta kosti mikið ræktuð í Noregi, og í fornsögum er minnst á hvannagarða. Hvannir hafa þótt hin mesta búbót og hafa mörg bæjarnöfn og örnefni hvönn sem hluta af nafni sínu, s.s. Hvanneyri, Hvanná, Hvannavellir og Hvanndalir. Nafngiftir að þessu tagi eru ómetanleg heimild um gróðurfar og plöntunytjar, hvönnin hefur sett svip á landið og verið mikilvæg nytjaplanta.

Göngum við í kringum einiberjarunn er þýðing á dönskum texta sem á frummálinu heitir Sá går vi rundt om en Enebærbusk. Flestir Íslendingar þekkja textann vel og syngja hann þegar þeir ganga kringum jólatré. Barr einis er einkar gott við aflleysi og tíðarteppu og það þykir hið hollasta reykelsi. Áður fyrr voru einiber brennd og reykurinn látinn leika um sængurkonur til að halda djöflinum í skefjum. Þess má einnig geta að það eru einiber sem gefa sénever og gini sitt sérstaka bragð

Grasafræðin er tvíþætt, annars vegar sá þáttur sem snýr að líffræði jurta og hinsvegar sá sem snýr að nýtingu þeirra og sögu. Hér að framan hafa verið tíndar til nokkrar þjóðsögur og sagnir um notkun plantna á Íslandi. Dæmin sýna tengsl þeirra við lækningar eða galdur.”

Heimildaskrá:
-Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot og undur Íslands. Akureyri, Þorsteinn M; Jónsson.
-Jón Árnason. 1980. íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Reykjavík, Þjóðsaga.
-Jón Norðmann. 1946. Allrahanda. Reykjavík, Leiftur.
-Oddur Hjaltalín. 1830. Íslenzk grasafræði. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka Bókmenntafélag.
-Ólafur Davíðsson. 1940-1943. Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík, Sögufélagið.
-Steindór Steindórsson. 1978. Íslensk plöntunöfn. Reykjavík, Menningarsjóður.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Vilmundur Hansen, “Lækningajurtir og galdraplöntur”, 26. ágúst 2000, bls. 4-5.

Vetrarblóm

Vetrarblóm.