Lágafellsheiði – flugvélaflak

Lágafell

Í marsmánuði árið 1944 nauðlenti B-24H Liberator flugvél frá ameríska flughernum á Lágafellsheiði ofan við Járngerðarstaði í Grindavík. Mannbjörg varð, en vélin varð ónýt á eftir. Hermenn sáu síðan um að hluta hana í sundur og færa bútana upp á Keflavíkurflugvöll, líkt og gert var við B-17 flugvél, sem nauðlenti þarna nokkur vestar í Eldvarpahrauni skammt norðan Sundvörðuhrauns tæplega ári áður.

Lágafell

Flakið í Lágafelli.

Skammt þarna vestan við slysstaðinn reistu Bandaríkjamenn síðar loftnetsstöð, sem þeir reka enn. Afgirt svæði þeirrar stöðvar er, því miður, þvert á Skipsstíginn ofan við Títublaðavörðu, skammt ofan Járngerðarstaða.
Myndin hér til hliðar er frá vettvangi óhappsins við Grindavík og sýnir B-24H Liberatorvélina. Húsin í baksýn eru í Grindavík, ef vel er að gáð.
Erling Einarsson, innfæddur og af góðum Grindavíkurættum, bæði vestlægum og austlægum, skoðaði myndina og sá strax aðvettvangurinn væri á „svæði sem kallað var uppi í Leynum Eyjabyggðin er þarna núna, norð-austur af Silfru. Hægt er að sjá hús á myndinni sem ber í þennan með kaskeitið, það er Krosshús, næst því til vinstri er Hvoll, þá háreyst hús er nefnist Hamraborg (læknishúsið), það ber reyndar saman við Borgargarð og Kirkjuna, þar neðan undir er langt hús sem var hænsnabú þá Eystri Krosshúsum, Þorvaldsstaðir (prestssetrið), Baldurshagi, Sólheimar, Hellur, Holt, Pálshús, Brimnes, Efri-Baldurshagi, Ásgarður, Blómsturvellir, Þrúðvangur og reyndar sést slysavarnaskúrinn og Múli sem ber í hólinn.“
Það var varla hægt að fá nákvæmari staðarákvörðun. En þótt hægt sé að rekja flestar staðsetningar flugslysa og -óhappa til ummerkja á vettvangi, verður það ekki hægt í þessu tilviki. Brak og aðrar leifar hafa þurft að víkja fyrir nýrri byggð – á Lágafellsheiði.
Einhverjir hinna öldruðu Grindvíkinga hefði á þeirra ungdómsárum ekki órað fyrir að heiðin myndi nokkur sinni byggjast, hvað þá jafnvel upp að Kúadal, en staðreyndin er nú samt orðin önnur – einungis tæpum mannsaldri síðar.
Bandaríski herinn reisti einnig loftnetsstöð ofan við Hraunssand, undir Húsafjalli/Fiskidalsfjalli, en ummerki eftir hana eru nú að mestu horfin – einungis steypt ankeri mastursfestinganna sjást þar enn í malargryfjum Hraunsmanna.
Sá algengi misskilningur hefur jafnan verið landlægur á Suðurnesjum að brak úr flugvél Andrews, yfirmanns Evrópuherafla Bandaríkjamanna, sé að finna í Þorbjarnarfelli, skammt frá Lágafelli. Hugsanlega gæti fyrrnefnd nauðlending hafa skapað þann misskilning. Brak úr flugvél þeirri er hann var í, ásamt fleirum, má sjá í Kastinu vestan undir Fagradalsfjalli. Einn maður slapp lifandi úr því flugslysi.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Erling Einarsson.
-Friðþór Eydal.

Lágafell

Lágafell – loftmynd.