Lambafellsklofi – Trölladyngja
Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.
Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.
Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.
Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.
Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.
Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.