Lambagjá – Helgadalur – Valaból
Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.
Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.
Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.
Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.
Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.
Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.