Landnámið II

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á „venjulegum“ minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.