Leiðarendi IV
Leiðarendi er sá hellir á Reykjanesskaganum, sem einna styst er að frá þjóðvegi – og jafnframt einn sá margbreytilegasti á svæðinu, enda hefur umferð um hann síðustu misserin verið mikil – og fer vaxandi. Hellirinn er, líkt og aðrir hrauhellar á Íslandi, í einni af hinum fjölmörgu hraunbreiðum landsins er geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellunum er að finna einstakar jarðmyndanir, – dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Allt þetta hefur Leiðarendi í Stórabollahrauni enn upp á að bjóða, nú 16 árum eftir að hann var fyrst kannaður. Hellirinn er 750 m langur, greiðfær og aðgengilegur, aðeins 36 km frá Grindavík og að honum er einungis 150 m. gangur, í mosagrónu hrauni, út frá við Bláfjallavegi.
Snjór þakti jörð, svo rækilega að hann hafði slétttað sérhverja misfellu í hrauninu. Það tók því nokkra stund að moka sig niður og inn eftir hellisloftinu innan við meginopið. Að því búnu varð eftirleikurinn auðveldur. Hátt í eitt hundrað þátttakendur skriðu inn eftir snjórásinni og niður í hellinn.
Stórabollahraunið er u.þ.b. 2000 ára gamall og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Ástæða er enn og aftur til að brýna sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema ljósmyndir. Yfir hrauninu er m.a. Tvíbollahraun, sem rann um 950 e.Kr. Auðvelt er að sjá skilin því síðarnefnda hraunið er apalhraun á þessu svæði, en Stórabollahraun rann lengstum sem helluhraun, líkt og Hellnahraunin eldra og yngra, sem einnig áttu för um þessar slóðir á mismunandi tímum. Stórbollahraunið hefur runnið í Leiðarenda á tveimur stöðum. Hellnahraun yngra umlykur m.a. Skúlatún, þýfkenndan grasigróin hól í miðju hrauninu. Það kemur eins og
Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).
Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjörn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum. (Sjá meira undir Fróðleikur). (Reyndir hraunamenn geta nú orðið lesið aldursmörkin, þ.e. út frá því hvaða hraun rann á á undan hinu – með ákveðin viðmið að leiðarljósi).
Í stórvirki Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings, „Íslenskir hellar“, bls. 209, er m.a. fjallað um Leiðarenda. Þar segir t.a.m.: “ Stóri-Bolli er austastur bollanna við Grindasköðr og þeirra stærstur eins og nafnið bendir til. Stóri-Bolli er um 150 metrar í þvermál og opinn til noðurs en gígbarmarnir til beggja hliða eru um 50 metra háir. Hraunið hefur fallið til norðurs og þekur svæðið norður að Undirhlíðum og Helgafelli en er mjög hulið yngri hraunum. Erfitt er að áætla stærð hraunsins þar sem svo mikill hluti þess er hulinn yngri hraunum en það gæti þó verið allt að 20 ferkílómetrar að flatarmáli.“
Um Leiðarenda segir meistari Björn: „Leiðarendi er um 900 metra langur hellir og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring (eins og merkilegur uppdráttur í bókinni sýnir). Hellirinn kvíslast og hefur þak vestari rásarinnar brotnað niður. Nokkru neðan niðurfallsins sameinast kvíslarnar á ný og þaðan liggja mikil og falleg göng til norðurs. Það er mjög sérstakt að fara í hellaferð innúr niðurfalli og koma svo út klukustundum síðar hinum megin niðurfallsins. Hreint ævintýri fyrir þá sem eru að gera slíkt í fyrsta skipti.
Hellisgöngin eru víðast hvar lítt hrunin og hellirininn auðveldur yfirferðar þótt auðvitað þurfi aðeins að bogra á einstaka stað og klungrast á öðrum. Sérstaklega lækkar verulega til lofts nyrst í hellinum. Töluvert er um skraut, dropsteina, hraunstrá og storkuborð auk þess sem hraunið tekur á sig hinar ýmsu myndir. Á einum stað má til dæmis sjá fyrirbæri í lofti hellisins sem hellamenn kalla „Ljósakrónuna“ og svo mætti áfram telja. Þá er beinagrind af sauðkind innarlega í hellinum og má með ólíkindum telja hve langt kindin sú hefur ráfað inn dimman hellinn. Var hún e.tv. að forðast eitthvað?
Hellismunninn er skammt frá hraunjarðri Tvíbollahrauns sem raunar hefur runnið inn í Leiðarenda á tveimur stöðum syðst og vestast í hellinum enda liggur hann þar undir Tvíbollahraun. Tvíbollahraun rann á fyrstu árunum eftir landnám. Ef til vill kom kindin sú sem bar beinin í Leiðarenda til landsins með víkingaskipi. Og ef til vill gleymdi hún sér og lokaðist inni þegar Tvíbollahraun rann.
Þegar svo ógnarheitur hraunkanturinn nálgaðist hljóp kindin ef til vill inn í kaldan hellinn til að forðast lætin og hitann og þar bar hún beinin. Atburðarrás þessi verður raunar að teljast harla ólíkleg en verður þó ekki afsönnuð fyrr en beinin verða aldursgreind. Fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar. Leiðarendi var kortlagður í desember 1992 og júlí 1993″.
Innst í syðsta hluta Leiðarenda er stór „hrauntjörn“. Þar lækkar hellirinn, en hækka um leið því hrauntjörnin hefur brætt sig niður í undirstöðu(grann)bergið uns hluti hennar fann sér áframhald, sem varla verður rekjanlegt nema með mikilli fyrirhöfn. Það mætti þó vel reyna þegar betri tími gefst til.
Eitt af sérkennum Leiðarenda eru þunnar hraunflögur á kafla. Þær hafa fallið af veggjum og úr lofti. Þær gefa til kynna mismunandi hraunstrauma í gegnum rásina, hverja á fætur annarri. Má líkja þeim við endurteknar samfarir fullorðinnar hraunrásar við nýja strauma.
Ljósakrónan fyrrnefnda er í tengirás Leiðarenda við efri hellisrásina, sem flestir ættu að forðast. Komið hefur fyrir að þeir, sem þangað hafa fetað sporið og síðan haldið í gegnum hrun er rásin leiddi þá í gegnum, hafi ekki fundið leiðina til baka. Eftir hræðsluköst og formælingar hefur svolítil vonardagsskíma birst þeim úr annarri átt og þeir þá getað skriðið sér til lífs að jarðfallinu fyrrnefnda. Hins vegar má segja með sanni að einn heillegasti og fallegasti hluti Leiðarenda er í þessari rás, líkt og sjá má í bók Björns; „Íslenskir Hellar“ (fæst í öllum betri bókabúðum og er sérhverjum hellaáhugamanni og öðrum leitandi bráðnauðsynleg leiðsögn).
Við frásögnina af sauðkindinni, sem Björn lýsir og varð tilefni nafngiftarinnar, má bæta að öllum líkindum hefur sú arma mær verið að leita skjóls vegna einhvers, t.d. snjóa eða náttúruhamfara. Hafa ber í huga að mörg dýr geta gengið fram og til baka um niðmyrkra ranghala án ljóss. Það hefur hellaleitar-hundurinn Brá t.a.m. sannað margsinnis. Það hefur því verið eitthvað annað en eðlilegheitin, sem varð sauðkindinni að aldurtila, s.s. eiturgufur hraunkvikunnar er lagðist yfir hraunrásina umrætt sinn. Ef svo hefur verið má ætla að hér á landi hafi verið urmull sauðfjár – og það fyrir aðkomu norrænna landnámsmanna hingað í kringum 874 +/-02.
Einhverjir hafa þá verið hér fyrir (sem flestum er reyndar orðið ljóst – nema kannski starfsfólki Þjóðminjasafnsins.) Ef til vill munu órækar minjar Skúlatúns og minjar í Húshólma /Óbrinnishólma í Ögmundarhrauni hjálpa til að varpa ljósi á þá birtingarmynd?!
Taka verður undir með ákveðna og meðvitaða rödd Björns þar sem hann segir að; „fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar.“
Þótt Leiðarendi sé bæði aðgengilegur og áhugaverður þarf að gæta vel að því að skemma ekkert er getur haft þar varanlegt gildi fyrir komandi kynslóðir.
Frábært veður (að og frá hellinum). Ferðin tók 3 klst og 3 mín.