Kaldá

Ein sjö Helgafell eru til í landinu: 1. Suðaustur af Hafnarfirði, klettótt og bratt á flesta vegu. 2. Í Mosfellssveit, fjall og bær. 3. Á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan. Einnig samnefndur kirkjustaður. 4. Hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar. 5. Fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar. 6. Í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar. 7. Í Vestmannaeyjum.
Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
HvönninOrðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.
Í lýsingu er birtist í MBL 1980 segir m.a. um Helgafell og nágrenni: “Helgafell er algengt örnefni á Íslandi. Margt bendir til að þessi nafngift hafi upphaflega verið í tengslum við heiðinn átrúnað, smbr. sögnina um Helgafell á Snæfellsnesi, sem sagt er frá í Landnámabók og margir kannast við. Í nágrenni Reykjavíkur veit ég um tvö Helgafell. Annað fyrir norðan Reykjalund í Mosfellsbæ, en hitt er fyrir austan Hafnarfjörð. Þangað er förinni heitið að þessu sinni.
Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði beygjum við út af Reykjanesbraut og höldum í austurátt. Helgafellið blasir við og innan stundar erum við komin að Kaldárseli. Ágætt er að skilja bílinn eftir við fjárréttina, sem þar er. Kaldársel er fornt býli og var í ábúð fram til 1886. Nú er þar starfrækt barnaheimili á sumrin. Kaldársel skipar sess í bókmenntasögu okkar því þar var Sölvi látinn alast upp, en hann er aðalpersónan í samnefndri sögu eftir sr. Friðrik Friðriksson og margir hafa lesið. Framhjá íbúðarhúsinu rennur Kaldá, ein stysta á landsins, því hún hverfur í hraunið skammt fyrir vestan barnaheimilið. Segja sumir, að hún komi aftur upp í Straumsvík.

Móbergsmyndanir

Við göngum yfir ána á brú, sem er fyrir sunnan húsið og tökum síðan stefnuna á norðvesturhorn fellsins, sem nú gnæfir uppi yfir okkur, bratt og skriðurunnið. Helgafell er úr móbergi, hlaðið upp við gos undir ísaldarjöklinum og því með eldri jarðmyndunum hér um slóðir. Þegar við erum komin upp á hæðirnar fyrir austan Kaldársel, tekur við rennislétt helluhraun, sem liggur upp að fellinu að vestan. Hér er gott að ganga, því fast er undir fæti og ekki spillir það fyrir ánægjunni að víða verpa smáhellar og hraungjótur á vegi okkar, sem sjálfsagt er að kanna nánar og ekki síst, ef einhver af yngstu kynslóðinni er með í för. Við höldum suður með fellinu og beygjum fyrir suðvesturhorn þess. Þar opnast nýtt útsýni, því nú blasir fjallgarðurinn við, sem er framhald Bláfjallanna til
vesturs. Við greinum m.a. Grindaskörðin, en um þau lá aðalleiðin frá Hafnarfirði austur í Selvog og Ölfus fyrr á tímum þegar hesturinn var aðalfararskjóti þjóðarinnar. Nú fara fáir um þessar gömlu götur, en þær eru fyllilega þess virði að kynnast þeim nánar. En gangan milli þessara staða fram og til baka er stíf dagleið. Leiðin meðfram Helgafellinu að austanverðu er mjög greiðfær, gatan liggur þar milli hrauns og hlíðar og er fær bilum með drifi á öllum hjólum. Þegar komið er norður fyrir svonefndan Riddara (sjá kort), getur að líta gatklett einn mikinn hátt uppi í hlíðinni og er ekki úr vegi að skreppa þangað, ef tíminn er nægur.
Fyrir norðan Helgafell eru Valahnúkar, og er greiðfært skarð á milli þeirra og Helgafells. Við skulum lengja gönguna og skreppa norður fyrir hnúkana. Leiðin er eins greiðfær og fyrr. Við förum rólega og njótum augnabliksins. Innan skamms komum við að voldugri girðingu, sem gerð hefur verið um skjólgóðan hvamm norðan í hnúkunum. Þetta er Valaból, sem Farfuglar hafa helgað sér. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og og gróðursett tré. Enda eru þeir nú að taka við launum þessa erfiðis síns. En það er annað og meira að skoða hér. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Við komumst yfir girðinguna á göngustiga og sjálfsagt er að staldra þarna við og skoða staðinn nánar.
Í ValabóliFrá Valabóli höldum við svo í áttina að Kaldárseli. Leiðin liggur meðfram girðingunni sem umlykur Helgadalinn, en þar eru miklar lindir, Kaldárbotnar, sem Hafnfirðingar taka úr sitt neysluvatn og þurfa að vernda. Og þar eru upptök Kaldár. Nokkru áður en við komum að bílnum verður garðhleðsla á vegi okkar. Liggur hún frá þessum vatnsbólum og í áttina að Hafnarfirði. Þetta eru undirstöðurnar af gömlu vatnsleiðslu Hafnfirðinga. Í stað þess að leggja vatnið í lokuðum leiðslum til bæjarins, eins og nú er gert var vatnið leitt í lokuðum stokk yfir hraunið og vestur undir Sléttuhlíð. Þar rann það ofan í hraunið en skilaði sér aftur í Lækinn, sem rennur um Hafnarfjörð, en þá höfðu bæjarbúar nýtt lækinn að fullu. Tilraunin heppnaðist fullkomlega og dugði þetta viðbótarvatn Hafnfirðingum í rúmlega 30 ár eða fram að1950. Þá var lögð fullkomin vatnslögn ofan frá Kaldárseli sem dugar enn.
Við skulum fylgja stokknum út í hraunið, en höldum þaðan að bílnum sem bíður okkar við réttina.”
Þetta var nú bara svona almennt um Helgafellið framanvert – aðdragandann að fellinu – til að koma að fleiri myndum.
Gangan að þessu sinni hófst við Kaldárbotna. Ætlunin var að ganga að Helgafelli og síðan suður og austur fyrir það. Austan fellsins er gilmyndun. Efst í því er gatklettur. Að honum þræddum er stutt upp á brún.
Þegar gengið var að Helgafelli (340 m.y.s.) eru Kaldárhnúkarnir áberandi til beggja handa. Litli-Kaldárhnúkur er minnstur og þeirra lögulegastur, rétt innan vatnsverndargirðingarinnar. Hvönnin var falleg myndbæting, bæði við Kaldá og vatnstjarnir innan girðingarinnar. Þegar stefnan er tekin fyrirfram á fjöll eða fell annars vegar gleymist oft hið smærra, jurtir og smásteinar fyrir fótum, sem í raun segja þó engu minni sögu um ummyndun og þróun landsins frá öndverðu.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

“Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.  Vatnsveita Hafnarfjarðar sér nú um vatnsöflun og dreifingu neysluvatns í Hafnarfirði. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins. Sjálfrennsli vatns er í stærstum hluta bæjarins, þó er vatni dælt á Hvaleyrarholt og í efstu byggð í Hvömmunum og Setbergshverfi. Á tímabili skipulagsins er stefnt að því að leggja nýja aðveituæð ásamt því að byggja vatnstanka og dælustöðvar til þess að auka rekstraröryggi og hagkvæmni vatnsveitunnar. Á liðnum áratugum hafa verið boraðar fjölmargar rannsóknarholur í nágrenni Hafnarfjarðar. Fyrstu holurnar voru vegna jarðhitaleitar og voru allar grunnar, eða á bilinu 60-100 m. Hitastigull í nágrenni bæjarins reyndist vera á bilinu 5,7 til 7,2 gráður á 100 m. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi. Á síðastliðnum áratug lét Vatnsveita Hafnarfjarðar bora á sjötta tug rannsóknarhola til þess að kanna grunnvatn. Dýpstu holurnar eru tæplega 90 m djúpar. Holurnar eru dreifðar um svæðið frá Helgafelli að Straumsvík.

Grávíðir

Vatnið í Kaldárbotnum er tiltækt í miklu magni í 80 til 100 m hæð yfir sjó og næst því sjálfrennsli til bæjarins og um meirihluta dreifikerfisins. Gæði vatnsins eru með því besta sem gerist og vatnsbólin eru mjög vel staðsett með tilliti til mengunarhættu. Áðurnefndar rannsóknarholur leiddu í ljós fleiri möguleg vatnsvinnslusvæði sem lofa góðu, s.s. norðan Valahnúka en grunnvatn þar er í 114-116 m hæð yfir sjó og er sjálfrennsli vatns mögulegt þaðan. Möguleikar eru taldir á vatnsútflutningi vegna gæða vatnsins og nálægðar við hafnaraðstöðu.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum. Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns. Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918.
Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að  sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun. Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.Gatkletturinn
Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót ( sem við köllum héðan í frá hausagrjót )  kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er þekkt að Kaldá hefur stundum þornað upp. Þá varð Hafnarfjörður vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986. Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan. Á árunum 1965-1968 varð ljóst að ekki væri hægt að treysta á lindirnar sjálfar með fullu öryggi og nauðsynlegt væri að bora eftir vatni. Þessar borholur voru ágætar en börn síns tíma. Bæði voru þær of grunnar og of mjóar til þess að koma að fullu gagni. Þá voru dælur einnig of litlar. Dælurnar og frágangur þeirra gerðu að verkum að ekki var stöðugt flæði frá holunum en gert ráð fyrir að hægt væri að dæla þegar lindirnar þryti. Árið 1989 voru svo loks boraðar þrjár stórar vinnsluholur. Þessar borholur voru virkjaðar og dæling úr þeim varð möguleg eftir byggingu stjórnstöðvar 1994. Enn var þó treyst á lindina í steinþrónni. Árið 1997 fór svo fram lokaátakið í beislun vatns í Kaldárbotnum. þá voru boraðar tvær holur til viðbótar en í þessar holur voru ekki settar dælur. Þessar tvær holur voru hannaðar með tilliti til þess að úr þeim fengist nægt sjálfrennandi vatn þannig að ekki þyrfti dælingar við.”
GatiðHraunið umrædda, þunnfljótandi frá 12. öld. er nú undir fótum. Í raun er um að ræða hraunið, sem rann 1151 til 1180. Þegar komið er upp á næstu hæðarbrún má sjá litla gíga. “Gluggi” er á þeim nyrsta. Um er að ræða endastöð gígaraðarinnar er náði allt frá Ögmundarhrauni á suðurströnd Reykjanesskagans. Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.
Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.
Gvendarselsgígaröðin er þarna á hægri hönd. Framundan til suðurs er sléttir hraunhleifar. Þarna hefur þunnfljótandi hraunið safnast líkt og vatn saman í lágt dalverpi milli hnúkanna og Helgafells. Á einum stað má sjá hvar hraunið hefur náð að mynda afrennsli til norðurs, grunna hrauntröð, líkt og um akveg væri að ræða.
Svæðið norðan og vestan Helgafells er því bæði ljúft og greiðfært yfirferðar: Þegar komið var suður fyrir fellið hækkar landið svolítið, en með því að fylgja fæti þess er leiðin greið. Falleg móbergsskil eru í neðanverðri hlíðinni. Í skjóli þeirra kúra myrta, holurt og fleiri blómtegundir. Þessi hluti Helgafells hefur stundum verið nefndur Riddarinn, en hann er hins vegar móbergsstandur er stendur hæst upp úr fellinu að sunnanverðu.
Austan undir Helgafelli eru fjölmenningasamfélag jurta, s.s. hrútaberjalyng, mjaðurjurt, blágresi og jafnvel grávíðir og birki. Sunnar er Skúlatúnshraun, Tvíbollahraun og Stórabollahraun. Fleiri nöfn munu vera og á þessum hraunstraumum. Gullkistugjá liggur og þarna til suðurs frá suðausturhorni Helgafells.
Og þá var tekist á við gilskorninginn víða. Aldrei þessu vant heyrðist engin fuglahljóð. Við nánari aðgát sást hvar fýllinn lá á hreiðrum. Hrafn stóð hreyfingarlaus á steini skammt frá. Hvítborin kindabein lágu í gönguleiðinni. Sennilega biðu allir í eftirvæntingi eftir því hvernig til tækist?
BúrfellUppgangan er þægileg í fyrstu, en er á líður eykst brattinn. Þá er betra en ekki að halda sér sem næst móbergsstálinu hægra megin. Smám saman nálgaðist gatkletturinn ofanverður. Haldið var í gegnum hann með þversneiðingi – og áfram upp vinstra megin, alveg upp á brún. Bólstrabergið í móbergsstálinu reyndist hin besta handfesta. Þrátt fyrir lýsinguna eru í raun fáar hættur á leiðinni, nema kannski ef vera skyldi hugsanlegur fótaskortur. Mikið lofthræddir ættu þó bara að halda sig á undirlendinu.
Þegar upp á brún var komið tók við upplíðandi halli að efstu brún – sem betur fer. Riddarinn reis tignarlegur á vinstri hönd og veðurbarðar móbergsmyndanir á þá hægri. Hjartslátturinn sló í takt við álagið.
Efst á Helgafelli er vörðumynd utan um bólstrabergsvegg. Hjá er dagbókastandur. Þaðan í frá er útsýni bæði dýrlegt og tilkomumikið – yfir undirlendið áðurnefnda, sem og allt höfuðborgarsvæðið. Einnig til norðausturs, yfir að Búrfelli (sjá meira HÉR), Kringlóttugjá, Húsafelli og Húsafellsbruna, sem ekki hefur verið lýst hér að framan. (Sjá meira HÉR um Helgafell.)
Gengið var niður af Helgafelli að norðanverðu – líkt og hefð hefur skapast um.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefur hi.is
-Mbl. 10.júlí 1980.
-vatnsveita hafnarfjardar.is

Útsýnið