Litli Meitill – flugvélaflak

Litli-Meitill

Þann 14. ágúst 1964 var forsíðufrétt MBL um litla flugvél, Cessna 140, sem saknað var á leið frá Eyjum. Einn maður var sagður hafa verið í vélinni. Víðtækri leit var haldið uppi, jafnt nótt sem dag. Flugvélin bar einkennisstafina TF-AIH.
MeitillFlugmaðurinn fór frá Vestmannaeyjum kl. 14:55 daginn áður (þann 13. ágúst), en þegar hún skilaði sér ekki á áætluðum lendingartíma í Reykjavík kl. 15:50 var þegar farið að grennslast fyrir um vélina. Gott veður var í Eyjum, en á leiðinni lenti flugvélin í þoku, radíósambandið slitnaði við vélina og spurðist ekkert til hennar eftir það. Síðast urðu menn varir við flugvélina skammt frá Þrengslaveginum, um kl. 16:00 þennan dag.
Um miðnætti var búið að leita allt leitarsvæðið eins og hægt var, en vegna slæmra skilyrða var leit erfið og ónákvæm. Skyggni var ekki nema um 20 metrar.
Tveir vegavinnubílstjórar höfðu heyrt í flugvélinni. Annar sagði að hann og félagar hans „höfðu setið á mosaþembu og voru að drekka síðdegiskaffið sitt og bifreiðar ekki í gangi. Sáu þeir þá greinilega ljósa háþekju og einn mann í henni og flaug hún yfir veginum og hefir að líkindum séð ljós frá bifreiðum sem þar voru á ferð í þokunni, en hún hafði verið svo þétt að aldrei sá til fjalla allan þann tíma sem vegavinnumennirnir voru þar efra eða frá kl. 9 í gærmorgun. Lá þokan fyrst og fremst yfir Þrengslaskarðinu.“
Meitill Hann sagðist „telja sig greinilega hafa heyrt vélina snúa við og halda austur aftur og stendur það heima að örskömmu síðar heyrir vélskóflumaður frá Vegagerðinni í henni, er hann var á gangi rétt hjá veginum. Segir hann að „skyndilega hafi hún aukið við vélarkraftinn og síðar hafi hann heyrt allmikinn hávaða en síðan ekkert hljóð. Hann var þá staddur á veginum nokkuð sunnar við sjálft Þrengslaskarðið og virtist honum hávaðinn sem hann heyrði síðast koma sem úr suðri eða úr hlíðum Lambafellsins. Þess vegna var haldið þangað fyrst til leitar.“
Í MBL daginn eftir eða þann 15. ágúst (bls. 8) er sagt frá „Slysstað í hlíðum Litla-Meitils“. Fréttir höfðu borist um um fund flugvélarinnar. Fréttamaður (vig) fór á vettvang og lýsti aðkomunni. Hann gekk ásamt björgunarmönnum „hratt norður yfir Eldborgarhraunið og með hlíðunum sem vita veggbrattar til austurs… Er ofar kom sá ég móta fyrir flakinu. Ljósar málmþynnur, rifnar og tættar, heillegt stélið. Er nær kom sá ég að í miðju var þetta að mestu brunarústir. Þögulll hópur stóð yfir banabeði ungs manns.“
Þyrla frá Varnarliðinu kom á vettvang, lenti á fjallinu og flutti lík flugmannsins á brott. „Þokan grúði yfir okkur eins og kirkjuhvelfing. Stórbrotið landslag og niðri undir bröttum hlíðunum grillti í Eldborgarhraunið eins og flosteppi, munstrað með hraunnibbum upp úr mjúkum mosanum. Þetta var undurfögur, en hrikafengin og nokkuð harðhnjóskuleg kirkja íslenskrar náttúru, þar sem vélarkrafturinn þagnar við minnstu snertingu.“ Ljósmyndir með fréttinni voru m.a. teknar af Sveini Þormóðssyni, fréttaljósmyndara. Þær munu hafa verið þær fyrstu er hann tók á löngum ferli, sem á eftir fylgdi.

Heimild:
-Morgunblaðið 14. og 15. ágúst 1964.