Litluborgir – skýrsla
Í skýrslu Umhverfisstofnunar; „Litluborgir – Hafnarfjarðarbær, Stjórnunar- og verndaráætlun“ frá árinu 1022 er fjallað um Litluborgir í Þríhnúkahrauni ofan Helgafells. Þar segir m.a.: „Leiðarljós fyrir stjórnun náttúruvættisins Litluborga er að standa vörð um sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.
Hið friðlýsta svæði
Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Mörk náttúruvættisins eru sýnd á korti í viðauka ll og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi. Stærð svæðisins er 10,6 ha.
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.
Tengsl við áhrifasvæði og aðkomuleiðir
Litluborgir eru innan Reykjanesfólkvangs. Svæðið er í næsta nágrenni við vinsælt útivistarsvæði við rætur Helgafells. Erfitt er fyrir ókunnuga að finna svæðið þar sem það lætur lítið fyrir sér fara í hrauninu og auðvelt að ganga fram hjá því. Hægt er að komast að því gangandi með því að fylgja línuvegi sem liggur við jaðar svæðisins. Við jaðar svæðisins er Búrfellslína 3b. Línan er innan afmarkaðs beltis fyrir háspennulínur í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.
Stjórnunar- og verndaráætlun
Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Litluborga hófst í nóvember 2020. Áætlunin er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er hún sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stjórnunar- og verndaráætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal sem lýsir framtíðarsýn og þeim grundvallarsjónarmiðum sem höfð eru til hliðsjónar um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins. Áætlunin er unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Eignarhald og umsjón
Litluborgir eru í upplandi Hafnarfjarðarbæjar og er sveitarfélagið landeigandi. Umsjón og rekstur náttúruvættisins er í höndum sveitarfélagsins Hafnarfjarðar samkvæmt samningi á milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem staðfestur var af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2015 og gildir til tíu ára, sjá samningur. Umsjón og rekstur felst m.a. í því að sveitarfélagið sér um að svæðið líti vel út, fjarlægir rusl, hefur eftirlit með því að verndargildi svæðisins rýrni ekki, bregst við raski o.s.frv. Málefnum sem upp kunna að koma og kalla á sérstakar ráðstafanir eða stjórnvaldsákvarðanir ber að vísa til Umhverfisstofnunar.
Lagalegur og stjórnsýslulegur rammi
Náttúruvættið Litluborgir er innan Reykjanesfólkvangs sem var friðlýstur árið 1975 með auglýsingu nr. 520/1975. Starfsmaður Umhverfisstofnunar er áheyrnarfulltrúi í stjórn fólkvangsins og upplýsir stjórnina um umsjón og rekstur náttúruvætta innan
Reykjanesfólkvangs.
Hluti svæðisins er grannsvæði vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bannaðar á grannsvæðinu sjá vatnsverndarsvæði og reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Verndargildi og verndarflokkur
Verndargildi Litluborga felst fyrst og fremst í sérstæðum jarðmyndunum. Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags, skal, skv. b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013,stefnt að því að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Eldhraun, gervigígar og hraunhellar njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. sömu laga. Þá eru dropsteinar í hellum landsins friðlýstir sérstaklega sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina nr. 120/1974. Verndun Litluborga stuðlar auk þess að verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sbr. 2. gr. laga um náttúruvernd.
Litluborgir flokkast sem náttúruvætti skv. 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 þar sem segir að friðlýsa megi einstakar náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Þetta geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.
Náttúruminjar; jarðminjar og lífríki
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar í Þríhnúkahrauni sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Í Litluborgum er að finna hella og skúta með viðkvæmum hraunmyndunum.
Megin vistgerð svæðisins er mosahraunavist og er mosategundin hraungambri ríkjandi en vistgerðin er fátæk af æðplöntum. Þeir fuglar sem algengt er að sjá í þeirri vistgerð eru heiðlóa, spói, þúfutittlingur, steindepill og rjúpa. Svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.
Menningarminjar
Engar skráðar menningarminjar eru innan friðlýsta svæðisins.
Ferðaþjónusta, útivist og fræðsla
Þar sem Litluborgir eru ekki mjög áberandi í hrauninu þá hafa fáir heimsótt þær í gegnum tíðina en það er að breytast með aukinni umferð útivistarfólks. Svæðið er hins vegar mjög viðkvæmt utan stíga.
Helstu ógnir
Svæðið hefur ekki verið mjög fjölfarið í gegnum tíðina enda lítið og úr alfaraleið. Engar skilgreindar gönguleiðir liggja um svæðið og því var ekki unnt að stýra umferð fólks frá viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir. Vísbendingar eru um að efni frá möstrum geti haft neikvæð áhrif á gróður en þess sér merki í mosa á svæði í námunda við náttúruvættið.
Sérstakar reglur um umferð og dvöl
Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í náttúruvættinu Litluborgum sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:
1. Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki raska jarðminjum, gróðri eða dýralífi innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og viðburðir eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimilt er að setja skilyrði um t.d. fjölda þeirra sem kom að viðburðinum, umgengni og aðstöðu þegar slík leyfi eru veitt.
2. Heimilt er að hjóla á skilgreindum hjólreiðastígum séu þeir til staðar.
3. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“
Ýmislegt í framangreindri skýrslu er annað hvort ekki rétt eða ranglega með farið. Ekkert er t.d. minnst á verksummerki akstursslóða girðingar- og rjúpnaveiðimanna við borgirnar, afmarkaða og nauðsynlega stígagerð áhugafólks að borgunum vegna áhugaleysis Umhverfisstofnunar og stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á upplandi bæjarins. Í skýrslunni kemur fram að ágangur á svæðið hafi aukist 2022 með tilheyrandi mosaskemmdum. Það er rangt, líkt og svo margt annað, sem ekki verður farið nánar út í hér. Svo virðist að fæst það fólk er kom að skýrslugerðinni hafi haft hið minnsta vit á viðfangsefninu! Verður það að þykja miður…
Heimild:
-Litluborgir, Hafnarfjarðarbær – Stjórnunar- og verndaráætlun, desember 2022, Umhverfisstofnun.





















