Flókaklöpp

Eftirfarandi skrif um “Flókaklöppina” á Hvaleyri er eftir Sveinbjörn Rafnsson og birtist í “Árbók Hins íslenska fornleifafélags“, 71. árg., 1974, bls. 75-93 – “Bergristur á Hvaleyri“:

Um fyrri rannsóknir Hvaleyrarrista.

Flókasteinn

Flókasteinn á Hvaleyri

Margir hafa ritað um og rannsakað Hvaleyrarristurnar og mun þess nú getið að nokkru. Jónas Hallgrímsson skáld mun líklega fyrstur manna hafa rannsakað steinana fornfræðilega í júní 1841. Frásögn Jónasar einkennist af sannri gleði uppgötvarans og kveðst hann hafa fundið „paa en af disse Blokke, den regelmæssigste og smukkeste, flere gamle Runer”, í skýrslu sinni til Finns Magnússonar. Þegar Jónas frétti fyrst af ristum þessum fór tvennum sögum af þeim; sögðu sumir þarna vera rúnir en sumir farmannanöfn.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Taldi Jónas farmannanöfnin höggvin með latínustöfum ofan í rúnateiknin á steininum með flestar risturnar, Slær hann þeirri hugdettu fram, þó með nokkrum hálfkæringi, að Hrafna-Flóki og skipshöfn hans hafi rist nöfn sín rúnaletri á steininn. Jónas virðist einkum hafa gert sér grillur út af þremur atriðum, öllum vandmeðförnum og villandi, þegar hann slær þessu fram.
Jónas virðist álíta að unnt sé að lesa með vissu úr fangamörkum steinsins eiginleg nöfn eigenda þeirra. Jónas hefur á veglegri teikningu af Flókasteini sínum sleppt ýmsu, bæði ártölum og skrauti, eins og hann getur um með þessum orðum: „De mange nyere Navne, som blot tjente til að vansire og forvirre Tegningen, er med Flid udeladte.”Nú víkur sögunni suður til Kaupmannahafnar.
Ljóst að Finnur hefur haldið Flókasteinshugmynd Jónasar að fleiri vinum sínum í Höfn. Hefur Thorsen skrifað á minnismiða hjá sér eftirfarandi: „En Sten siges at være fundet paa Isl. 1841 om landnám.” Árni Helgason í Görðum er hinn næsti sem getur Hvaleyrarrista Segist hann í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842 hafa skoðað þær; „mörg nöfn gat ég þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýzkra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helzt meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn ; sumstaðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er að þeir sem betur eru læsir geti þar fundið rúnir.” Hér er orðrómurinn um farmannaristur kominn enn á ný enda skammt milli lýsinga. Líklegt er að beint eða óbeint samband sé milli lýsinga þeirra Árna og Jónasar. Magnús Grímsson var nemandi í Bessastaðaskóla árið 1845. Var þá þegar farinn að vakna með honum áhugi á forn- og þjóðfræði og „dirfist” hann í februar sama ár til að skrifa Finni Magnússyni og spyrjast fyrir um rúnir. Var það upphaf nokkurra bréfaskipta.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Síðar á sama ári skrifar Magnús Finni aftur og segir þar m. a.: „Á Hvaleyri við Hafnarfjörð er steinn mikill sem Jónas sál. kvað hafa skoðað. Á honum eru bandrúnir margar, og hef ég tíðum reynt mig á að lesa úr þeim.” Enn segir Magnús: „sýnist mér ei ólíkt að hér væru nöfn Herjólfs og Þórólfs smjörs, sem getið er í Landn. 3. kap.
Kristian Kálund getur Hvaleyrar í drögum að staðsögulýsingu Íslands. Segir hann að þar séu á nokkrum flötum klöppum „endel latinske forbogstaver og árstallene 1628 og 1777, samt nogle binderuner og lignende.” Segir Kálund að almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar. Er Kálund hinn fyrsti sem talar berum orðum um og tilfærir á prenti ártöl á Hvaleyrarsteinum.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Sigurður Skúlason minnist á tvo fyrri rannsakendur, þá Jónas Hallgrímsson og Árna Helgason. Telur Sigurður réttilega tilgátur Jónasar um aldur og uppruna markanna á hæsta steininum mjög fjarri sanni. Þó hafi Jónas haft rétt fyrir sér í því að rúnateiknin séu eldri en bókstafirnir og ártölin á steininum. Fremur er Sigurði í nöp við notkun Árna Helgasonar á orðinu „nöfn” um fangamörk á steininum. Rétt er í því sambandi að minnast þess að fangamörk voru áður fyrr notuð í stað nafnsundirskriftar, ekki síst af lítt læsum eða pennavönum mönnum, svo að orðalag séra Árna þarf ekki að vera mjög undarlegt. Þá telur Sigurður það „vafalaust” að útlendingar, sjómenn og kaupsýslumenn, hafi gert sumar risturnar, en ekkert sé því til fyrirstöðu að íslendingar hafi gert einhverjar þeirra. Er þó sönnu nær að ekkert er vafalaust í þessu efni. Loks álítur Sigurður rétt að tímasetja risturnar til 17. og 18. aldar og ef til vill til 16. aldar.

Flókaklöpp

Flókaklöppin 2021.

Anders Bæksted ritar um Hvaleyrarristur í verk sitt um íslenskar rúnaristur. Fremur lítið er á lýsingu hans að græða þótt ágæt ritaskrá fylgi. Telur hann risturnar vera frá 17. og 18. öld. Með Jónasi Hallgrímssyni hefjast rannsóknir Hvaleyrarrista árið 1841. Áhuginn er þá einkum bundinn við teikn lík rúnum, að öðrum ristum er lítt hugað. Blendingur sagna úr samtíðinni, heit þjóðernisrómantísk trú á fornritin ásamt frjóu ímyndunarafli móta einkum viðhorfin fram eftir 19. öldinni. Með Kálund á síðari hluta aldarinnar er ártölunum á steinunum loks veitt nokkur athygli og striki slegið yfir fyrri grillur um risturnar. Þegar Sigurður Skúlason ritar lýsingu sína á Hvaleyrarsteinum beinist öll athyglin að ártölum ristanna, að öðrum ristum er lítt hugað. Sigurður álítur risturnar einkum frá 17. og 18. öld.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Ártöl steinanna eru hin mikilvægustu til tímasetningar á ristunum, ef þau eru ófölsuð. Helstu líkur til þess að ártölin séu frá þeim tíma sem þau nefna eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er staðsetning ristanna á hæsta steininum. Þar eru teiknin og ártölin svo óreglulega staðsett að ekki eru líkur til að þau hafi verið sett á sama tíma. Óregluleg dreifing í rúmi bendir til óreglulegrar dreifingar í tíma; slíkt kemur heim við hin mismunandi ártöl og mælir þannig gegn fölsun. Í öðru lagi hafa menn á dögum Jónasar Hallgrímssonar (1841) ekki verið sammála um uppruna ristanna; yngsta ártalið á steinunum er 1781 og eru þá sextíu ár milli þess og sagnanna sem Jónas hefur, en það er nógur tími til þess að velkja munnlega sögu svo að mörg verði afbrigði hennar. Þá eru ýmis auðkenni ristanna, einkum þó að ártölin umlykja fangamörk sem eru gerðþróunarlega mismunandi en gerðir þeirra sýna nokkra fylgni við ártölin.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Það er kunn fornfræði að mismunandi gerðir hluta og teikna benda til mismunandi tíma (typologi). Hér á eftir verður drepið á nokkur atriði varðandi þróun marka og fangamarka á Íslandi og stöðu Hvaleyrarrista í þeirri þróun. Þróun íslenskra marka og fangamarka er menningarsögulegt efni sem að vissu leyti er tengt innsiglafræði og fornbréfafræði. Einnig er það tengt réttarsögu með fornum lagagreinum um mörk og einkunnir. Breytingar á gerð og notkun marka og fangamarka eru háðar víðtækum samfélagslegum breytingum og um efnið verður því ekki fjallað nema mjög yfirborðskennt í grein sem þessari. Áður en lengra er haldið er rétt að minnast ögn á nokkur orð og merkingar þeirra. Orðið fangamark má skýra með orðum Jóns Sigurðssonar þótt merking þess sé ef til vill nokkru víðtækari en hann segir: „Þesskonar mark, sem vottar um eign einstaks manns á hlutnum eða einræði yfir honum er kallað fángamark.”

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Samanburðarefni við Hvaleyrarheimildina er sennilega mikið að vöxtum þótt enn sé það lítið rannsakað. Heimildin um þróun íslenskra fangamarka á Hvaleyri mun eiga sér margar hliðstæður til samanburðar á Íslandi. Þá hefur verið drepið á söfnun og skrif um mörk, fangamörk og búmerki á Íslandi og annars staðar. „Búmerki” hafa sennilega borist til Íslands með fyrstu mannabyggð. Fornar lagagreinar benda til mikilvægi marka á Íslandi. Stuðst hefur verið við ritgerð Jóns Sigurðssonar „Um mark, fángamark (búmerki) á Íslandi” og komist að þeirri niðurstöðu að hið takmarkaða fangamarkasafn á Hvaleyri komi vel heim og saman við frásögn Jóns af gerð fangamarka í innsiglum. Þá hefur þeirri tilgátu verið varpað fram að þverrandi notkun búmerkja standi í einhverju sambandi við vaxandi lestrar- og skriftarkunnáttu almennings og lagakröfur um skriflega jarðaleigusamninga í byrjun 18. aldar.

Heimild:
-Tímarit    Árbók Hins íslenzka fornleifafélags    71. árg., 1974, bls. 75-93 – Bergristur á Hvaleyri, höfundur Sveinbjörn Rafnsson (1944).
Hvaleyri