Í “Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði” árið 2019 segir m.a.:
Saga
Elstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.
Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.
Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.
Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi ekki þurft að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu, en þau voru grafin í kirkjugarð Hafnarfjarðar.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.
Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.
Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.
Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.
Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.
Flókasteinn
Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.
Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir “Bergristur á Hvaleyri” eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.
Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.
Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.
Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.
Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.
Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði
Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.
Halldórskot
Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.
Skotbyrgi
Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.
Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.