Nýjaland

Enn og aftur var haldið inn á Krýsuvíkursvæðið í leit að seljatóftum, sem tilgreindar hafa verið í gömlum heimildum. Að þessu sinni var haldið í Hvamma undir Hverahlíð, en svæðið, sem er sunnan við Kleifarvatn, er á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hitaveitu Suðurnesja. Í örnefnalýsingum má ætla að Hvammahryggur hafi verið hæðargarðurinn austan við Hvamma, en öllu sennilegra er hann melhryggurinn vestan við þá. Hæðarhryggurinn austan við Hvammana hefur jafnan verið nefndur Ásar og ná þeir til suðurs utan (suðaustan) við Austur-Engjar.
Í raun var um tímamóta FERLIRsferð að ræða því hér birtist 1000. ferðalýsingin. Alls hafa verið farnar 1269 FERLIRsferðir frá upphafi svo aðrar óinnfærðar lýsingar bíða betri tíma.
StekkurÍ Hvömmum hefur vestari hlutinn einnig verið nefndur Nýjabæjarhvammur, en sá austari Selhvammur. Þar eru nú “hnakkageymslur” hestamanna. Grasbalar þar hafa verið sléttaðir og litlum húsum komið þar fyrir. Hafi verið tóftir í hvamminum eru þær horfnar. Um hvamminn rennur Sellækur. Vestan við Nýjabæjarhvamm er Nýjaland sbr. eftirfarandi:
“Svo sem mörgum er kunnugt, liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan að vatninu, virðist sem fjöll þessi nái saman, við norðurenda vatnsins. [Þar heitir Vatnsskarð.] Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.
Sá hluti af Krýsuvíkurveginum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið innra og fremra). Misvöxtur vatsnins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og frema, og kallast tangi sá Rif.

Gerði eða rétt ofan við Nýjaland

Vestan við fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vestur-Engjum og í Seltúnshverunum, en smálindir koma þó í hann að Austur-Engi, úr Hvömmunum og Lambafellum.
Svo er landslagi háttað, að Fremralandið er miklu lengur slægt en hið Innra og nemur sá tími einatt nokkrum sumrum og eins og áður er lauslega vikið að, má í góðu grasári heyja um 600 hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið er svo þorrið, að unnt er að slá þau bæði. ekki er það fátítt að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnar há, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarlagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.
Hverir eru í vatninu og sést hvar reyki nokkura leggur upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
“Þegar lítið er í vatninu” var jafnan farið með því, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar áður fyrr, liggur sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls. Var sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðum”, enda liggur bílvegurinn þar nú.”

Hugsanlegt sel í Nýjabæjarhvammi

Gengið var út með “Hvammahrygg” og stefnan tekin upp á hálsinn er skilur undirlendið frá Austur-Engjunum austan og suðaustan Stóra-Lambafells. Þegar yfir hálsinn var komið er þar Seljamýrin eða Nýjabæjarengi, stundum nefnt Þrætuengi. Leitað var minja á svæðinu. Ekki fundust þar hús, en hleðsla allnokkur (ferhyrnd), sennilega leifar stekks, eru þar á hæð. Húsin hefðu þá átt að vera neðar og sunnar, en Austurengjalækurinn (Grófarlækurinn) hefur brotið allnokkuð af landinu. Líklegra má ætla að hús hefðu verið austar og við ferskvatnslæk, en hafi svo verið, munu moldir úr hlíðunum hafa fært þau í kaf. Þá má jafnvel áætla að engin varanleg hús hafi verið þarna því bæði er stutt til bæja (u.þ.b. 40 mín. gangur) og enn styttra yfir í selið á Seltúni (u.þ.b. 10 mín gangur). (Sjá meira HÉR).
Gengið var niður með Stóra-Lambafelli til norðurs og vesturs. Þegar niður var komið blasti þar við ferhyrnt gerði. Sennilega hefur það verið gerði eða rétt, torfhlaðið að hluta, frá 19. öld eða byrjun 20. aldar. Gerðið er við fjölfarna götu frá Vestur-Engjum inn í Hvammana.
Lóan og spóinn léku við hvern sinn fót.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Ósinn (Seltúnslækur)