Magnús Hafliðason á Hrauni

Hraun

Magnús Hafliðason, útvegsbóndi frá Hrauni í Grindavík, lézt 17. desember 1983, 92 ára að aldri.
Magnús var fæddur á Hrauni 21. nóvember 1891. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Jónsdóttur og Magnus HaflidasonHafliða Magnússonar og ólst upp í stórum systkinahópi, aðallega við sjósókn. Fyrri kona hans var Katrín Gísladóttir frá Urriðafossi í Flóa og eignuðust þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son. Soninn misstu þau er hann var um tvítugt, en dætur þeirra eru enn á lífi. Árið 1948 giftist hann öðru sinni, Önnu Þórdísi Guðmundsdóttir frá Kálfárvöllum í Staðarsveit á Snæfellsnesi, eftir að hafa misst fyrri konu sína. Magnúsi og Önnu varð ekki barna auðið. Magnús var þekktur, bæði í heimsveit sinni og víðar, fyrir sjómennsku, björgunarstörf og fleira. Sjóinn sótti hann allt fram á efri ár, er heilsa hans brast og hann og Anna Þórdís fluttust á Elli- og vistheimilið Grund í Reykjavík.

Í Morgunblaðinu 6. júní 1982 birtist eftirfarandi viðtal við Magnús.
„Mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum“, – segir Magnús Hafliðason sem reri frá Grindavík í byrjun aldarinnar. Þeir eru ekki margir í dag sem þekkja af eigin raun sjósóknina á opnu „skipunum“ um aldamótin. Einn þeirra, Magnús Hafliðason, hittum við að máli á Minni-Grund við Blómvallagötuna. Þar býr hann nú ásamt síðari konu sinni, Önnu Guðmundsdóttur, kominn á tíræðisaldur. Þegar blaðamann ber að, býður Magnús til sætis og leggur frá sér bókina Menn og minningar eftir Gylfa Gröndal.
„Já, ég uni mér nú helst við lestur, því fæturnir eru hálf ónýtir að verða. Ég komst lítið á þeim um tíma en er nú farinn að hugsa mér til hreyfings aftur. Annars er best að tala varlega. Þið magnus haflidason-2blaðamennirnir hafið nefnilega orð á ykkur fyrir að ýkja, svona eitthvað smávegis að minnsta kosti,“ segir Magnús og glettnin skín úr augum hans.
Magnús Hafliðason fæddist á Hrauni í Grindavík árið 1891 og bjó þar óslitið fram til ársins 1977 þegar hann, 85 ára gamall, fluttist að Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.
„Hérna er allt gert fyrir okkur og okkur líður alveg prýðilega. Við erum heppin að fá að vera hér. Þetta er besti staðurinn sem við gátum lent á fyrst við þurftum að hrökklast frá Hrauni. Mig langaði ekkert að fara frá Hrauni. Ég hefði viljað vera þar lengur, en hún Anna mín veiktist og þá var ekki um annað að ræða.“

magnus haflidason-3

Við báðum Magnús að segja okkur frá því umhverfi og þeim aðstæðum sem hann óx upp við. „Pabbi var útgerðarbóndi sem gerði út frá Hrauni. Heiman frá okkur var um hálftíma gangur í lendinguna. Það var oft napurt að ganga um hraunið í nóttinni með línuna á bakinu. Þetta var óttaleg vegleysa. Ég var yngstur sjö systkina, en eitt hafði dáið á fjórða ári. Þó að við fólkið á Hrauni værum vel bjargálna, þættum við líklegast fátæk í dag. Við höfðum bæði kindur og kýr en lifðum aðallega á sjónum, því það er engin hagbeit þarna í kring. Ég ólst upp við það að allir færu á sjó og það þótti sjálfsagt að menn gerðu það. Á þessum tíma voru öngvir skólar, aðeins einn kennari sem kenndi öllum hópnum á staðnum sex mánuði á ári.“
—  Getur þú rifjað upp fyrstu sjóferðina?
„Það get ég já, þó heldur væri það nú lítil sjóferð. Ég var sjö ára og pabbi reri með okkur rétt út fyrir vörina, þar sem ég dró þrjá þyrsklinga. Upp frá þessu fór ég að smáróa með færi og þetta ágerðist alltaf. Í þá daga voru allt áraskip, mestallt áttæringar, tírónir með ellefu manna áhöfn. Það var jafnan lagt upp mjög snemma og lent að kveldi. Lending þarna var vond og oft mjög brimasöm, þannig að í dag þættu þetta varla viðunandi aðstæður. Það var ekkert skjól því skipin voru alfarið opin og öngva hlýju að hafa nema af árinni. Og ekki var nú heldur langt róið, enda fiskurinn nærri. Við byrjuðum ævinlega að leggja línu strax á morgnana og sátum venjulega yfir í klukkustund eða svo, og sat þá hvur við sína ár.“
—  Hvernig var skipseign og aflaskiptingu háttað?
magnus haflidason-5„Sumir áttu skipin einir og aðrir í félagi. Pabbi gerði alltaf út sjálfur með sitt eigið skip, en síðan tókum við Gísli bróðir við af honum. Með okkur reru sveitamenn og aðrir aðkomumenn, en það var mjög algengt að á hvurju skipi væru aðeins tveir eða þrír heimamenn og síðan aðkomumenn. Fyrst reru þeir bara upp á hlut sem þeir verkuðu sjálfir, en síðan komu til sögunnar svokallaðir útgerðarmenn, sem í þá daga var notað um menn sem reru á vertíð upp á ákveðna peningaupphæð sem var alfarið óháð því hvurnig aflaðist. Ógæfu okkar í dag má rekja til þeirrar tilhögunar sem þarna hófst. Nú fara menn bara ekki til fiskjar nema þeir fái ákveðið verð fyrir, óháð öllum aðstæðum, og stofna sífellt til verkfalla. Ég held nú að okkur sé hollara að selja á því verði sem markaðurinn gefur fyrir fiskinn, þó oft sé bölvaður tröppugangur á honum blessuðum.
Þegar ég var að byrja til sjós sem ungur maður, var siður að lesa sjóferðabæn fyrir róður þegar komið var á flot. Þessu var hætt þegar vélarnar komu í skipin. Þá þurfti víst ekki að biðja fyrir sér Hraun 1924-2lengur því vélarnar þóttu svo traustar. Áður var ekki siður að róa á sunnudögum, en sá siður lagðist líka niður með tilkomu vélarinnar.
Þessi breyting varð um svipað leyti og ég kvæntist fyrri konu minni, Katrínu Gísladóttur, en hún lést árið 1945 eftir 25 ára hjónaband. Þetta var á árunum í kringum 1920 og ég mun hafa verið tæplega þrítugur að aldri. Við fengum frekar seint vél í okkar bát, eða ekki fyrr en 1928. Það voru allir svo hræddir við þetta vegna skrúfunnar og hjá okkur var vélin varhugaverðari sökum lendingarinnar sem var óvenju brimasöm. Vélarnar komu fyrr þar sem lendingin var góð.
Ég hef ekkert nema af góðum félagsskap að segja í sjómennskunni á þessum árum. En menn höfðu metnað til að koma skip um sínum sem fyrst á flot, það vantaði ekki. Okkur þótti nú karlmannlegra að vera með fyrri skipum, en svo komu einhver lög sem sögðu fyrir um hvunær mætti róa og hvunær ekki. Það var nú sosum prýðilegt að fá þau lög.“
— Margur á þínu reki hefur komist í’ann krappan um dagana.
Hraun-21„Uss, við lentum aldrei í neinu — aldrei ég. Ég hef ekki enn komist í’ann krappan. Það varð oft strekkingur og stormur. Ég minnist þess að í mars 1916 fóru 4 skip og 38 menn björguðust. Hann rauk bara upp úr hvítalogni á norðan. Þann dag þurftum við að lenda annarstaðar en vant var og sumstaðar drukknuðu menn víst. En ég hef haft mjög gaman af sjónum um dagana og mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum með samheldnum og góðum mannskap. Sjórinn var alltaf við túngarðinn og gekk oft upp í tún hjá okkur í brimaveðri, en hann var alltaf fallegur, sjórinn.“
— Hvernig líst þér á sjómennskuna í dag?

Hraun-loftmynd

„Þetta er ekkert líkt því sem var, væni minn, en samt verða slysin ekkert síður. Þau eru voðaleg, þessi slys. Ég reri einar fimmtíu vertíðir án þess að nokkuð sérstakt kæmi upp, svona sem blaðamatur, sjáðu. Það þurfti líka alltaf aðgæslu og það tíökaðist ekki að fjasa útaf smáslettum. Ég er ekki frá því að það sé einhver óstjórn á hlutunum í dag. Þeir skemmdu alveg vertíðina í vetur með einhverju banni og svo gefa þeir þá skýringu að sjórinn sé kaldur. Nú, hann hefur varla kólnað svo mjög frá því sem hann var á minni tíð. Og svo fjölga þeir bara skipunum þó þau séu alltof mörg og ráðherrann ræður ekki við neitt, enda hafa ráðherrarnir fæstir á sjó komið og vita ekki hvurnig þessu hagar til. Ég held þeir ættu frekar að reyna að nota eitthvað þessa fiskifræðinga okkar.“
— Gerir þú þér einhvern dagamun á sjómannadaginn?
„Nei, ég fer ekkert. Ég er bíllaus og kemst ekkert gangandi. Ég dúsa bara heima, enda er ég ekki lengur neinn sjómaður. Það lifir enginn upp aftur það sem hann er búinn að lifa. Mér þótti gaman á sjónum og langar alltaf aftur í huganum, en svona valtur á fótunum er ég engum til gagns. Annars er ekkert að mér nema þessi fótafúi.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. júní 1982, bls. 36-37.
-Morgunblaðið 24. desember 1983, bls. 3.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.