Magnús Hafliðason á Hrauni – Gatan mín…
Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.
Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilað útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
Ég fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á Járngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.
Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“
Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.