Miðdalskot (Borgarkot)
Gengið var um hið gamla bæjarstæði Miðdalskot sunnan við Hafravatn. Gæsaflug og mófuglasöngur gáfu lífvana tóftunum mikilvægt hlutverk í umhverfismyndinni. Grunur hefur verið um að hér sé reyndar um tóftir svonefnds Borgarkots að ræða.
Í Jarðabókinni 1703 er, auk Miðdals, á þessu svæði taldar upp jarðirnar Vilborgarkot, Helliskot og næst Miðdal bæirnir Borgarkot, Búrfell og Óskot. Líklega hefur Miðdalskot verið nefnt svo um tíma.Í örnefnalýsingu fyrir Miðdal segir m.a.: „Nokkru ofar við Seljadalsá er allstór bergdrangur er Krummaborg heitir. Verpti hrafn þar áður. Við Krummaborg rennur lækur út í Seljadalsá er Bæjarlækur heitir. Milli Bæjarlækjar og Seljadalsár er mjór tangi er Lækjartangi heitir. Spölkorn upp með Bæjarlæknum að vestan er Miðdalskot sem var hjáleiga frá Miðdal. Sést þar vel til allra húsa, þarna er fallegur grasi vaxinn hóll er Kotahóll heitir. Fyrir sunnan Miðdalskot er allstór mýri er Kotamýri heitir, aðskilur Bæjarlækur Kotamýri frá túninu í Miðdal. Vestur úr Kotamýri er mjó Kelda er Kotakelda heitir, en nokkru vestar er hringlaga mýri er Kotakrókur heitir. Fyrir sunnan Kotakrók og Keldu er Kotamýrarurð. Sunnan við Kotakeldu voru kvíaærnar bældar, þar er gróður og þurrlent og heitir Bólin.“
Þarna á hæðinni eru tóftir á þremur stöðum. Sú austasta er minnst, líklega útihús. Miðtóftin er stærst og greinilegust, líklegast kotið sjálft. Vestast virðist hafa verið útihús eða jafnvel fjárborgin síðarnefnda. Allar tóftirnar eru á kafi í þýfi og sinu þótt glöggt megi sjá móta fyrir rýmum. Ljóst er að býli þetta hefur farið í eyði fyrir alllöngu. Húsin hafa snúið göflum mót suðri, niður að svonefndri Kotamýri. Litlir gróningar eru um kring og fátt annað um grasnytjar en mýrarsvæði.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Miðdal: „Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúandinn Jón Jónsson. Hagar góðir. Engjatak erfitt. Kirkjuvegur erfiður og so hreppaflutningur. Vatnsból erfitt um vetur.“
Um Bogarkot segir: „Hjáleiga af Miðdal, nú í auðn og hefur nú yfir ár um kring í eyði legið, en var í fyrstu bygð í fornu fjárborgarstæði fyrir vel tuttugu árum. Hafði stundum hjáleigumaðurinn nokkurn reit af heimatúninu. Meina menn ei aftur byggjast kunni með sömu kostum, nema því meir að af heimajörðinni væri legt til.“
Um Búrfell segir að „lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið“. Um Óskot segir: „Forn eyðijörð og veit enginn maður hvað lengi hún hefur í auðn verið. Nú brúka ábúendur á Reynisvatni það land til beitar og líka fyr meir til torfskurðar, sem þar er nú eyddur“.
Frábært veður.