Hafnarfjörður – minnismerki

Haukar

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, tók saman upplýsingar um minnisvarða í Hafnarfirði. Þar kemur eftirfarandi fram, auk annars:

Sörli

Sörli

Sörli.

Hestamannafélagið Sörli var stofnað 7. febrúar 1944. Félagsaðstaða og reiðhöll Sörla er að Sörlastöðum við Sörlaskeið 13a í Hafnarfirði. Minnismerki um stofnuna er á hestasteini er norðan við reiðhöllina.

Vatnshlíðarlundur –
Hjálmar R. Bárðarson

Vatnshlíð

Minnismerki – Vatnshlíð.

Í Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns er minningarlundur. Lundurinn er til minningar um hjónin Hjálmar Rögnvald Bárðarson siglingamálastjóra og Else Sörensen Bárðarson.
„Þau gáfu hluta eigna sinna til landgræðsluskógræktar, þar sem áður var lítt gróið bersvæði.
Með virðingu og þökk,
Landgræðslusjóður 2012.“

Lundurinn er í hlíðinni vestan Hvaleyrarvatns.

Mirai no Mori – Klifsholti – Íslensk-japanka félagið

Klifsholt

 Mira No Mori.

Árið 2001 hófu félagar í Íslensk-Japanska félaginu gróðursetningu trjáa í landnemaspildu í Klifsholti, norðan við Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Skógurinn ber heitið Mirai-no-mori, þ.e. skógur framtíðar. Tíðkast hefur ár hvert að fara að reitnum og gróðursetja tré.

Reiturinn er við reiðstíg er liggur frá Sléttuhlíð að Búrfellsgjá, norðan Smalaskálaholts. Í reitnum er tré-/járnsúla með áletrunni Mirai-no-mori (未来の森).

Trjálundur Alþjóðasamataka Lions

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Alþjóðasamtaka Lions er ofan/austan Sléttuhlíðar, skammt frá Kaldárselsvegi. Við reitinn er steinstöpull. Á honum er skjöldur með áletrunni:
„Fundur Alþjóðastjórnar Lions haldinn á Íslandi 2019 – Guðrún Yngvarsdóttir, alþjóðaforseti Lions 2018-2019“.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar er rétt norðvestan við Smalaskálahvamm norðan Kaldárselsvegar. Í honum er stuðlabergssteinn. Á hann er letrað: „Stofnaður 14. apríl 1956. Til minningar um láta félaga“.

Trjálundur Rotary

Hafnarfjörður

Rotary.

Trjálundur Rótarý er skammt norðan trjálunds Lions, norðan Smalaskálahvamms. Við lundinn er bekkur. Á honum er m.a. skjöldur með áletrun: „Rotary – Til minningar um Rótarýfélaga.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2002.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2000.
Jón Vignir karlsson f. 1946 – d. 2017.“

Guðlaug Lára Björgvinsdóttir (1946-2021)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Guðlaug B.

Við gangstíg gegnt Eskivöllum 21 er bekkur, gefinn íbúum Hafnarfjarðar af Braga Brynjólfssyni. Á bekknum er skilti: „Til minningar um Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur (Lóa), 14.04.1946-11.01.2021“.

Bragi var innfæddur Hafnfirðingur, fæddist, að eigin sögn, „hálfur inni í Hellisgerði“. Staðreyndin er sú að foreldrar Braga bjuggu í húsi er skagaði fyrrum inn í Hellisgerði, en sjálfur fæddist drengurinn á St. Jósepsspítala, en dvaldi í uppvaxtarárunum í viðbyggingu nefnds húss.
Bragi giftist Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur árið 1968 og hófu þau búskap í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu alla tíð, lengi á Hjallabraut 92 og síðustu árin á Eskivöllum 21a.

Bragi Brynjólfsson lést 12. mars 2024. Nauðsynlegt er að bæta við minningarskilti um eiginmanninn Braga á bekkinn þann at’arna.

Hjartarsteinn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Björgvin Halldórsson.

Hjartasteinn til heiðurs tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni var afhjúpaður framan Bæjarbíós við Strandgötu 6 í Hafnarfirði 2018. Um var að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar Hjarta Hafnarfjarðar. Hátíðin er haldin í Bæjarbíói.

Hjartasteinn til heiðurs leikaranum, söngvaranum, tónskáldinu, skemmtikraftinum og Hafnfirðingnum Þórhalli Sigurðssyni, best þekktum sem Ladda, var lagður fyrir framan Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar 2022. Hjartasteininn hlaut Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært öllum aldurshópum um árabil.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Þórhallur Sigurðsson.

Hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur var lagður í hjarta Hafnarfjarðar fyrir framan Bæjarbíó 30. apríl 2022. Hugmynd að fallegum virðingarvotti og minnisvarða kviknaði fyrst í samtali við höfundinn sjálfan í kjölfar þess að hún var heiðruð í Hafnarfirði fyrir ritverk hennar og framlag til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna 2018. Guðrúnu og fjölskyldu leist vel á hugmyndina og nú hefur hjartasteinn til minningar um einn ástsælasta og vinsælasta rithöfund okkar tíma verið afhjúpaður. Guðrún kvaddi þann 23. mars.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Guðrún Helgadóttir.

Eins og áður sagði er Magnús sá fjórði sem nýtur þess heiðurs að hljóta Hjartasteininn í Hjarta Hafnarfjarðar. Fyrir eru hjartasteinar til heiðurs Björgvini Halldórssyni, tónlistarmanni og bæjarlistarmanni Hafnarfjarðar, Þórhalli Sigurðssyni, Ladda leikara og tónlistarmanni, og þá er hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar, sem lést 23. mars 2022.

Tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson er fjórði listamaðurinn sem fær Hjartastein sér til heiðurs við Bæjarbíó í Hafnarfirði.

HMB

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Þann 12.11.2015 spann eins hreyfils kennsluflugvél af gerðinni Tecnam P2002JF til jarðar í Hafnarfjarðarhrauni með þeim afleiðingum að báðir flugmennirnir létust. Þeir voru báðir flugkennarar við Flugskóla Íslands.

Mennirnir hétu Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson. Hjalti Már var búsettur í Hafnarfirði og Haukur Freyr var búsettur í Garðabæ.

Hjalti Már og Haukur Freyr störfuðu sem flugkennarar hjá Flugskóla Íslands.

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Haukur fæddist 17. júlí 1990. Hjalti Már fæddist 9. febrúar 1980.

Skömmu eftir slysið komu ættingjar Hjalta fyrir hvítmálum trékrossi á slyssstaðnum. Á krossinum var spjald með áletruninni „HMB“.

Minnismerkið er staðsett skammt vestan Neðri Straumsselshella ofan Straumsels, í svonefndum Almenningi.

Minningarbekkur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Reykjavíkurvegur.

Við göngustíg vestan Reykjavíkurvegar skammt sunnan Hjallabrautar er bekkur. Á bekknum er skjöldur: „Minningarbekkur – Um hjónin Stefán G. Sigurðsson, kaupmann, og Laufeyju Jakobsdóttur. Brúkum bekki í Hafnarfirði. Öldungaráð Hafnarfjarðar, Félag sjúkraþjálfara, Félag eldri borgara í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbær“.
Fleiri „Minningarbekkir“ eru víðs vegar í Hafnarfirði.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjókurbú Hafnarfjarðar.

Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1934. Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjólkurbú Hanarfjarðar.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.

Minnismerkið, þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli, stendur nú þar sem Mjólkurvinnslustöðin, Lækjargata 22, stóð á suðausturhorni Öldugötu og Lækjargötu. Á skilti undir brúsunum stendur: „Hér stóð Mjólkurbú Hafnarfjarðar, stofnað 17. ágúst 1934“.

Örn Arnarson (1884 – 1942)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Nyrst við Austurgötu stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.

Í Þjóðviljanum 9. ágúst 1973 mátti lesa, bls. 12: „Minnismerki um Örn Arnarson – Nýlega hefur verið komið upp minnismerki um Örn Arnarson í Hafnarfirði, en þar bjó hann síðari hluta ævi sinnar, lengst af í Hótel Hafnarfirði. Stóð það þar sem minnismerkið er nú“.

Í gamla hússtæðinu er minnismerkið; Ankeri umlukið lábörðu grjóti umleikis. Undir ankerinu er láréttur stuðlabergssteinn. Á hann ofanverðan er letrað: „Örn Arnarson átti heima hér“. Á norðurhliðina er letrað: „Með hendur á hlunni og orfi, vann hugurinn ríki og lönd“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Örn Arnarson (dulnefni Magnúsar Stefánssonar) (12. desember 1884 – 25. júlí 1942) var íslenskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir ljóðabók sína Illgresi sem kom út árið 1924. Þekktustu ljóð hans eru til dæmis: Þá var ég ungur, Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en það ljóð varð síðan innblásturinn að nafni Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesströnd í Norður-Múlasýslu. Þar bjuggu foreldrar hans Ingveldur Sigurðardóttir og Stefán Árnason.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarsson.

Á harðindaárunum eftir 1880 svarf svo að þeim að þau brugðu búi vorið 1887 og réðust vinnuhjú að Miðfirði.

 Magnús stundaði nám við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1907 – 08, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi. Kennaraprófi lauk hann frá Kennaraskólanum þar sem hann var við nám veturinn 1908 – 09.

Þegar Magnús lét af sýsluskriftunum, fluttist hann til Hafnarfjarðar og átti þar heima lengstum síðan. Fékkst hann þá einkum við afgreiðslu og skrifstofustörf, en hvarf oft að einhvers konar útivinnu á sumrin eins og til dæmis síldar- og vegavinnu. Hann kom nokkuð að sögu íþróttamála í Hafnarfirði og var m.a. formaður Knattspyrnufélagsins Framtíðarinnar.

Hrafna-Flóki

Á skilti við „Flókavörðuna“ ofan við Hvaleyri má lesa eftirfarandi:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hansakaupmenn í Hafnarfirði

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Minnismerki var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar.
Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Dr. Johannes Rau, forseti Þýskalands, flutti stutt ávarp við afhjúpunina.

Vinabærinn Cuxhaven

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – afhjúpun Cuxhaven-minnismerkisins.

25. nóvember 2013 var afhjúpað minnismerki um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven í Þýskalandi. Á upplýsingaskilti við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
“Borgin Cuxhaven í Þýskalandi og Hafnarfjörður stofnuðu formlega til vinarbæjarsamstarfs á haustmánuðum 1988 og hefur það vinabæjarsamband verið mjög virkt á margan hátt æ síðan.

Söguskiltið er staðsett við „Kugelbake“ á strandstígnum við höfnina en í tilefni af 25 ára afmæli vinabæjarsamstarfsins árið 2013.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – merki Hafnarfjarðar og Cuxhaven.

Þýska borgin gaf Hafnarfjarðarbæ fjögurra metra háa eftirgerð af 30 metra háu siglingarmerki sem reist var árið 1703 við ströndina nyrst í Neðra Saxlandi þar sem áin Saxelfur (Elbe) rennur í Norðursjóinn.

Kugelbake er borgarmerki Cuxhaven líkt og vitinn er merki Hafnarfjarðar og tilvalið þótti að staðsetja söguskiltið við siglingamerkið til þess að útskýra betur tilurð þess.

Sem dæmi um frekari afrakstur vinabæjarsamstarfsins má nefna að árið 1993 var vígt nýtt torg í miðborg Cuxhaven sem hlaut nafnið „Hafnarfjördurplatz“ og á Óseyrarsvæðinu í Hafnarfirði fékk við sama tækifæri ný gata nafnið „Cuxhavengata“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki og söguskilti.

Strax við stofnun vinabæjarsamstarfsins árið 1988 var auk þess tekin ákvörðun um að stofna til svokallaðs „Cuxhavenlundar“ við Hvaleyrarvatn og hefur sú hefð skapast að þegar sendinefndir frá Cuxhaven koma hingað í heimsóknir gróðursetji fulltrúar þeirra hér tré þegar færi gefst enda hefur lundurinn stækkað mikið og gróið upp á undanförnum árum.

Í tilkynningu frá Hafnarfjaraðrbæ segir að auk þessa hafi samstarfið verið mikið og gefandi í æskulýðs- og íþróttamálum, mennta- og menningarmálum, á stjórnmálasviðinu og að ógleymdu viðskiptalífinu.
Cuxhavenborg hefur árlega fært Hafnfirðingum að gjöf jólatré sem lýst hefur upp á aðventunni, fyrst á suðurhöfninni en hin síðari ár í Jólaþorpinu á Thorsplani.”

Minnismerkið er vestan Strandgögu gegnt Dröfn.

Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 

Hvaleyri

Hafnarfjörður – Bein þriggja manna; minnismerki.

Árið 1922 tók Magnús bóndi Benjamínsson, sem þar á heima í Hjörtskoti á Hvaleyri, höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði þar úr bakkanum og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó. Haustið 1924 varð hann var fleiri beina þar yzt í bakkanum og sumra í fjörunni. Gróf hann þá dálítið til og tók enn úr bakkanum 2 höfuðkúpur og mörg bein önnur, úr tveim mönnum. Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, var gert við vart og fór jeg að skoða beinin.
Höfuðkúpurnar voru heillegar og mátti sjá af tönnunum, að önnur væri af öldruðum manni, en hin af miðaldra. Bein þessi munu, að hans áliti, hafa verið frá síðari öldum og þótti honum ekki ástæða til að varðveita þau í Þjóðminjasafninu. Þau voru talin sennilega kristinna manna leifar og voru flutt í kirkjugarð Hafnarfjarðar. Kirkjugarður var á Hvaleyri, í einungis hundrað metra fjarlægð frá fundarstaðnum.

Minningarplatti er suðaustast við jaðar Hvaleyrartúns þar sem beinin fundust á honum stendur: „Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926“.

Altari sjómannsins

Altari sjómannsins

Minnismerki – Altari sjómannsins við Víðistaðakirkju.

Til minningar um horfna sjómenn.

Minnisvarðann gerði Erlingur Jónsson árið 1993 og stendur hann framan við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.

Minning um drukknaða fiskimenn
Við Kaplakrika Hafnarfjörður
Minnisvarði í Kaplakrika í Hafnarfirði.
In memoriam – Minning um drukknaða fiskimenn.

Eiríkur Jónsson, f. 2.6.1857, d. 18.4.1922 og synir hans
Benjamín Franklín, f. 12.3.1892, d. 28.2.1910
Bjarni, f. 24.9.1896, d. 8.2.1925
Jón Ágúst, f. 17.8.1902, d. 18.4.1922

Kaplakriki

Minnismerki – Kaplakriki.

Drottinn drangan blessi
góðir menn hann verndi.

Reistur af Guðbjörgu Jónsdóttur og Birni Eiríkssyni, Sjónarhóli, Hafnarfirði 2.6.1957.
Stendur við íþróttahúsið í Kaplakrika, Hafnarfirði.
Minnisvarðinn var endurgerður árið 2016.
Platan er samhljóða því sem stendur á dranganum og er fest á vegginn aftan við hann.

Sigling
Minnisvarði um sjómenn

Tæpum tuttugu árum eftir að hafin var fjársöfnun til að reisa „minnismerki um drukknaða hafnfirzka sjómenn“ var „heiðursmerki sjómanna“ vígt við Strandgötu í Hafnarfirði. Verkið heitir „Sigling“ og er eftir Þorkel G. Guðmundsson, auk nafns verks og höfundar er áletrunin: „Heiðursvarði hafnfirzkra sjómanna. Reistur 1974 af Hafnarfjarðarbæ.“ Í stað þagnar sem oft fylgir afhjúpun minnismerkja um samfélagsleg áföll var hrópað ferfalt húrra við afhjúpunina, fyrir hafnfirskri sjómannastétt.

Minnisvarðinn stendur framan við Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði.

Knattspyrnufélagið Haukar

„Stofnfundur Knattspyrnufélagsins Haukar
(endurritun úr fundargerðarbók.)

1. fundur.
Sunnudaginn 12. apríl 1931 komu nokkrir drengir saman í húsi KFUM til þess að stofna íþróttafélag er eigi að standa á grunndvelli KFUM.

Haukar

Minnismerki – Haukahúsið.

Þeir sem eru stofnendur félagsins eru þessir:
Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Nikolaj Grímsson, og Geir Jóelsson.

Á fundi gerðist sem hér segir:
Sigurgeir Guðmundsson sagði frá för sem hann og tveir aðrir drengir fóru til þess að tala við Jóel Ingvarsson um stofnun þessa félags.
Í stjórn félagsins voru þessir kosnir. Karl Auðunsson formaður, Sigurgeir Guðmundsson gjaldkeri. Hallgrímur Steingrímsson ritari.
Varamenn voru kosnir Bjarni Sveinsson varaformaður en Nikolaj Grímsson vararitari.
Fleira var ekki lagt fyrir fundinn og honum því slitið.
Hallgrímur Steingrímsson ritari.“                                                                                                                                                                                                                              Minnismerkið er við inngang húss nr. 15 við Hverfisgötu, fyrrum húss KFUM og K.

Víðistaðir

Víðistaðir

Minnismerki – Víðistaðir.

Til minningar um
Bjarna Erlendsson, 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur, 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka.
Minnisvarðinn sendur í Víðistaðatúni í Hafnarfirði.

Hellisgerði
Bjarni Sivertsen (1763-1833)

Faðir Hafnarfjarðar. Brjóstmyndin gerð af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara.
Minnisvarðinn stendur í Hellisgerði.

Friðrik Bjarnason (1880-1962)
Fæddist á Stokkseyri 27. nóvember 1908.
Fluttist til Hafnarfjarðar árið 1908.

Friðrik Bjarnason

Minnismerki – Friðrik Bjarnason.

Organisti við Hafnarfjarðarkirkju í 36 ár.
Kennari, tónskáld og kórstjóri.
Stofnaði Karlakórinn Þresti árið 1912.
Hann lést 28. maí 1962.

Karlakórinn Þrestir gekkst fyrir afhjúpun minnismerkisins í tilefni af 100 ára afmæli kórsins 19. febrúar 2012.
Verkefnið var styrkt af Hafnarfjarðarbæ.
Minnisvarðinn stendur við Hafnarfjarðarkirkju

Guðmundur Einarsson (1883-1968)
Frumkvöðull að vernd og ræktun Hellisgerðis 1923.

Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem er á klettavegg við Fjarðarhelli í Hellisgerði.

Brjóstmyndin var afhjúpuð 5. október 1963.

Guðmundur Einarsson

Minnismerki – Guðmundur Einarsson.

Í tilefni af fjörutíu ára afmæli Hellisgerðis var 5. október 1963 afhjúpaður minnisvarði af Guðmundi Einarssyni (1883-1968), trésmíðameistara og framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs, en hann átti frumkvæðið að stofnun garðsins, ræktun hans og vernd. Þá hélt Guðmundur framsögu á fundi í Málfundafélagi Magna 15. mars 1922, þar sem hann benti á hvílík áhrif það gæti haft til bóta fyrir bæinn ef félagið kæmi upp blóma- og skemmtigarði þar sem sérkenni landsins, hraunborgirnar og gjárnar, fengju að halda sér og njóta sín óspillt, jafnframt því að hlúa að gróðrinum. Fullyrti Guðmundur að slíkur garður myndi vera félaginu til sóma og bænum til prýði. Árið eftir hófust fyrstu framkvæmdir í garðinum en myndin af Guðmundi er felld inn í hraunvegg, rétt við hellinn í gerðinu.

Hellisgerði

Minnismerki – Bjarni Sívertsen.

,,Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar og liggur vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Nafnið tengist Fjarðarhelli fyrir miðju garðsins sem var upphaflega fjárskjól. Hellisgerði var afhent Málfundafélaginu Magna í sumarbyrjun 1923 og hófst ræktun sumarið eftir. Sumarið 1927 var Hellisgerði opnað almenningi á sunnudögum og nokkrum árum seinna var það opið alla daga eftir hádegi yfir sumarmánuðina. Núna er Hellisgerði almenningsgarður sem er öllum opinn. Þó svo að Hellisgerði sé formlega talið vera níutíu ára gamalt má rekja upphafið til ræktunartilrauna athafnamannsins Bjarna Sívertsens.”

Guðmundur Gissurarson (1902-1968)

Fyrsti forstjóri Sólvangs og formaður byggingarnefndar Sólvangs.
Gjöf Félags ungra jafnaðarmanna til Sólvangs.
Gestur Þorgrímsson gerði verkið 1966.

Verkið stendur við Hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)
Reykdalsstífla 1906

Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal við Reykdalsstíflu.

Jóhannes J. Reykdal var stórhuga brautryðjandi og athafnamaður sem reisti m.a. þrjár vatnsaflsvirkjanir í Læknum í Hafnarfirði. Sú hin fyrsta var gangsett þann 12. des. 1904 og markaði sá viðburður upphaf rafvæðingar Íslands. Þá voru kölduljós kveikt í 15 húsum í bænum auk fjögurra götuljósa. Hörðuvallavirkjun, nokkru ofar í Læknum, var svo gangsett haustið 1906. Afl hennar, 37 kW, fullnægði þörf bæjarins fyrir rafmagn. Kallast hún nú Reykdalsvirkjun. Sú þriðja, enn ofar, var gangsett árið 1917.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

Rétt sunnan golfvallarins í Setbergi er þessi minnisvarði um Jóhannes Reykdal og fjölskyldu hans. Þau voru grafin í heimagrafreit þar sem nú er minnisvarðinn.

“Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn)”.

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

“Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.”

Þau sem þarna er minnst eru Reykdalshjónin og fimm af börnum þeirra:

Jóhannes J. Reykdal,
f. 18.1.1874 – d. 1.8.1946
Þórunn B. Reykdal,
f. 21.10.1883 – d. 3.1.1964

Ásgeir Reykdal,
f. 25.7.1906 – d. 24.6.1933
Böðvar Reykdal,
f. 23.6.1907 – d. 2.1.1931

Helgafell

Minnismerki – Óskar Páll Daníelsson.

Jóhannes Reykdal,
f. 3.11.1908 – d. 30.12.1942
Friðþjófur Reykdal,
f. 28.7.1911 – d. 26.2.1934
Lovísa Reykdal,
f. 18.11.1918 – d. 20.4.1931

Óskar Páll Daníelsson (1979-2012)

f. 18. október 1979, d. 12. janúar 2012

Frá Dýrð til Dýrðar

Þetta skilti er vestan í klettabelti Helgafells við Hafnarfjörð en Óskar Páll hrapaði þar.

Stefánshöfði

Stefánshöfði

Minnismerki – Stefánshöfði.

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við veginn.

Þórður Edilonsson (1875-1941)

Þórður Edilonsson fæddist 16. september 1875 og lést 14. september 1941. Hann var stúdent frá MR 1895 og lauk prófi frá læknaskóla í Reykjavík 1899. Vann á sjúrahúsum erlendis 1899-1900, en varð staðgengill héraðslæknis í Keflavík sumarið 1899.

Sólvangur

Minnismerki – Þórður Edilonsson.

Settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1900-1903, aðstoðarlæknir í Reykjavík með aðsetur í Hafnarfirði. Aftur settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1903-1908. Settur Héraðslæknir í Hafnarfirði 1908 til æviloka 1941.
Þórður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Hafnarfirði, m.a. í bæjarstjórn, fræðslustjórn, stjórn sparisjóðs Hafnarfjarðar o.fl. Hann sat einnig í stjórn Læknafélagsins.

Kona hans var Helga Benediktsdóttir skálds Sveinbjarnarsonar Gröndal. Þau áttu tvo syni.

Minnisvarðinn stendur við Sólvang í Hafnarfirði og er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Brautryðjendur
Til minningar um brautryðjendurna, Þorvald Árnason, Jón Gest Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld, sr. Garðar Þorsteinsson sem unnu óeigingjarnt starf við skógrækt í Hafnarfirði.

Brautryðjendur

Minnismerki – Brautryðjendur.

Aðalheiður Magnúsdóttir (1914-1994) – Andrés Gunnarsson (1904-2003).

Í minningu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Andrésar Gunnarssonar.

Minnisvarðinn stendur í Andrésarlundi við Hvaleyrarvatn.

“Á skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar sem haldinn var við Hvaleyrarvatn um miðjan júlí var Björnslundur vígður í minningu Björns Árnasonar, bæjarverkfræðings og skógarbónda. Afhjúpuðu börn Björns minningarskjöld í Seldal [undir Stórhöfða].
Í fimmtu og síðustu skógargöngu Skógræktarfélags Hafnafjarðar 9. ágúst s.l. var afhjúpaður minnisvarði í Gráhelluhrauni um fjóra menn sem lögðu sitt af mörkum til að efla skógræktarstarf í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Það voru Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld og sér Garðar Þorsteinsson sem áttu allir setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um langa hríð.”

Guðmundur Þórarinsson

Minnismerki – Guðmundur Þórarinsson.

Í Gráhelluhrauni er auk þess minningarskjöldur um Guðmund Þórarinsson, skógræktarmann og kennara. Í Húshöfða ofan við Hvaleyrarvatn er minningaskjöldur um Kristmundsbörn annars vegar og Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda, hins vegar.
Björn Árnason var lengi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði. Hann átti drjúgan þátt í vega- og stígagerð á skógræktarsvæðunum ofan við bæinn. Þegar erfiðlega gekk að fá fjárveitingar til slíkra framkvæmda brá hann á það ráð að jafna kostnaðinum yfir á “Ytri-höfnina”, athugasemdalaust. Í dag vildu fáir vera án þessara stíga er gerir þeim kleift að ganga um skógræktarsvæðin með auðveldum hætti. Og Ytri-höfnin er fyrir löngu komin í gagnið.

Björn Árnason (1928-2007)
Björnslundur

Björn Árnason

Minnismerki – Björn Árnason.

Til minningar um Björn Árnason bæjarverkfræðing og skógarbónda

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975)
Guðmundarlundur

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975) kennari gróðursetti furulundinn.
Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og er þar nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum sem hann plantaði út.

Minnisvarðinn er i Gráhelluhrauni.

Hólmfríður Finnbogadóttir (1931-2019) – Reynir Jóhannsson (1927-2012)

Hólmfríður Finnbogadóttir

Minnismerki – Hólmfríður Finnbogadóttir.

Hólmfríður hóf störf hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar 1980, sat í stjórn og var formaður og síðan framkvæmdastjóri til 2013.

Afhjúpað á sjötíu ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2016.

Minnisvarðinn stendur við Kaldárselsveg í Hafnarfirði.

Hólmfríður Finnbogadóttir
Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson hófu skógrækt hér 1980.

Ingvar Gunnarsson (1886-1961)

Ingvar Gunnarsson

Minnismerki – Ingvar Gunnarsson.

Til minningar um Ingvar Gunnarsson fyrsta formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

,,Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við

Skólalundur

Í Skólalundi.

Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.” [Undirhlíðar]

Minnisvarðinn stendur í Skólalundi í Undirhlíðum

Jónas Guðlaugsson (1929-2009)

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson.

Vinabæjarfélagið Cuxhaven – Hafnarfjörður.

Jónas Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 21. apríl 1929 og lést 30. júlí 2009. Jónas var ekki nema 13 ára þegar hann setti upp vindmyllu við heimili sitt sem var tengd rafgeymi og lagði rafmagn í bæinn. Það kom engum á óvart þegar hann hóf nám í rafvirkjun á Selfossi og seinna í Reykjavík. Hann hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi til að læra rafmagnstæknifræði og lauk prófi árið 1959. Á Þýskalandsárunum kynntist hann Dórótheu Stefánsdóttur frá Siglufirði og gengu þau í hjónaband og eignuðust fjögur börn.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson í Cuxhavenlundi.

Jónas starfaði við raflagnateikningar eftir að hann sneri aftur heim til Íslands og var verkstjóri á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur í eitt ár en kenndi einnig við Iðnskólann á Selfossi áður en hann réðst sem tæknifræðingur til Rafveitu Hafnarfjarðar árið 1962. Þar gat hann sér gott orð og var gerður að rafveitutstjóra árið 1969. Hann var rafveitustjóri til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.

Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn.

Cuxhavenlundur

Afhjúpun minningarreitsins í Cuxhavenlundi.

Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins. Síðan héldu allir viðstaddir í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins, þar sem bornar voru fram veitingar.

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996)
Ólafslundur

Ólafslundur

Minnismerki – Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996) var einn af stofnendum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hann var kjörinn í varastjórn á stofnfundinum og starfaði með félaginu alla tíð. Hann tók við formennsku árið 1965 og gegndi þeirri stöðu lengst allra eða í 24 ár. Hann var vakinn og sofinn í starfinu og fáir einstaklingar hafa lagt eins mikið af mörkum við ræktunarstarfið og hann. Ólafur var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991, en tveimur árum fyrr hafði hann látið af formennskunni eftir áratuga farsælt starf. Á ýmsu gekk í formannstíð Ólafs og félagið varð fyrir nokkrum áföllum. Með þrautseigju sinni, æðruleysi og dugnaði tókst Óla Villa að færa alla hluti til betri vegar. Til að minnast þessa mæta forystumanns var útbúinn fjölbreyttur skógarreitur í suðausturhlíðum Húshöfða, sem nefndur er Ólafslundur. Þar stendur minningarsteinn Ólafs Tryggva Vilhjálmssonar.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Rolf Peters.

Ólafur fæddist í Hafnarfirði 17. desember 1915 í Illugahúsi (Kóngsgerði) í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var lengst af starfsævinni leigubílstjóri og bjó ásamt fjölskyldu sinni að Bólstað í Garðabæ. Ólafur var einn helsti hvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Garðabæjar.

Rolf Peters
Jónas Guðlaugsson og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu Stefánsdóttur.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003. (Cuxhaven-lundur)

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Systkinalundur

Systkinalundur

Minnismerki – Systkinalundur.

Systkinalundur Gunnlaugs Kristmundssonar, Ingibjargar Kristmundsdóttur og Guðmundar Kristmundssonar.

Þau systkinin voru fædd á Haugi í Núpsdal í Miðfirði en fluttust síðar öll til Hafnarfjarðar. Hélt Ingibjörg heimili með Gunnlaugi þar í bæ en síðar með Guðmundi í Sveinskoti á Hvaleyri. Sandgræsluvörður var Gunnlaugur skipaður árið 1907 og gegndi síðan því starfi í 40 ár, en sandgræðslustjóraembættið var ekki formlega stofnað fyrr en 1942.

Minnisvarðinn var afhjúpaður árið 1989 og stendur hann í skógarlundi við Hvaleyrarvatn, sem við þau systkinin er kenndur og kallaður Systkinalundur.
Minnisvarði um Gunnlaug Kristmundsson er einnig í Gunnarsholti.

Skátalundur

Skátalundur

Minnismerki – Látnir skátar.

Við skátaskála Gildisskáta við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er minnismerki um látna skáta. Þótt sérhverra þeirra sé ekki getið á minningarskildinum ber að taka viljan fyrir verkið.

Ofangreind minnismerki má finna í landi Hafnarfjarðar. Líklega eru minnismerkin mun fleiri, ef allt er talið, s.s. minnismerki, vatnshjólið, um fyrstu rafvæðinguna við Lækinn sem og hin ýmsu minningarmörk víðs vegar um bæinn.

Þannig má segja að hinir ýmsu „merkimiðar“ á einstökum stöðum, s.s. á Arnarklettum við Arnarhraun, og hin mörgu upplýsingaskilti á tilteknum sögustöðum bæjarins bæti verulega um betur í þeim efnum.

Heimild m.a.:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/hafnarfjordur-minn/Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Sigling.