Misgengi

Hrafnagjá

Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.
hjallamisgengi-21Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands.
Í Hjöllum í Heiðmörk eru mörg misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Hjallamisgengið er um 5 kílómetra langt og hæst er það um 65 metra hátt. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Annað mikilvægt misgengi er Helgadalsmisgengið sem klýfur Búrfell og sér til þess að Kaldá kemur upp á yfirborðið. Lóðrétt misgengi hefur orðið um margar þeirra þannig að norðvestur barmur sprungunnar rís hærra en suðvestur barmurinn, og þannig er það með sprunguna sem fer í gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur vel fram í Helgadal við suðurrætur Búrfells. Það nær langt í báðar áttir frá gígnum og sumum stöðum klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg.

Heimild:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/MISGENGI.HTM

Hrafnagjá

Hrafnagjá.