Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Háibjalli

Háibjalli.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði einnig mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Háibjalli

Háibjalli – tóft.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.
Með „landrekskenningunni” er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin” og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin”.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.
Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.
FlekaskilSvo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.

Háibjalli

Háibjalli – skilti.

Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.