Mjói vegurinn – mesta umferðaræð Íslands II
Björn Þorsteinsson sagnfræðingur skrifaði um „Mjóa veginn – mestu umferðaræð Íslands“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, árið 1962, en vegurinn sá var Hafnarfjarðarvegur þeirra daga.
„Síðastliðið ár ferðuðust með strætisvögnum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur rúmlega 900 þúsundir manna. (Áætluð tala eftir farmiðum: 915.829.) Sama ár fóru um 10 þúsund bifreiðir til jafnaðar á dag yfir brúna á Fossvogslæk.
Mest umferð var um verzlunarmannahelgina í byrjun ágúst, en þá fóru um 15.600 bifreiðir á dag yfir lækinn. Um þann hluta vegarins hafa því farið rúmlega hálffjórða milljón ökutækja á árinu eða a. m. k. rúmlega 7 milljónir manna, ef gert er ráð fyrir, að hvert farartæki hafi a. m. k. tvo menn innanborðs, ekil og farþega, en það mun vera allt of lág tala. Strætisvagnarnir fara 50 ferðir fram og aftur alla virka daga, en þar við bætast aukavagnar kvölds og morgna. Þeir munu því fara um 100 einstakar ferðir milli borganna á hverjum sólarhring. Samkvæmt farmiðasölunni ættu að vera um 25 menn í hverjum vagni til jafnaðar. Þeir, sem fara um Fossvogsbrúna, eru auðvitað ekki nærri allir einungis á ferðalagi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Leið margra liggur í Kópavog, suður á Álftanes, og býsna margir sækja á Suðurnesin, en þeir, sem að sunnan koma, eru sumir að koma úr Kópavogi. Samt sem áður mun það ekki of í lagt, að milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur ferðist rúmlega milljón manna á ári, eða nær sexföld tala allra Íslendinga.
Vegurinn, sem á að anna allri þessari umferð, er fyrir löngu orðinn allt of mjór, auk þess sem hann er bæði holóttur, óþarflega hlykkjóttur og bráðhættulegur í frosti, snjó og regni. Það ætti alls ekki að taka yfir 12 til 15 mínútur að komast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á okkar dögum, en ferðalagið tekur venjulega um 25 mínútur og oft talsvert lengri tíma.
Um milljón manns eyðir því um 10.000.000 mínútum eða 16.666 klst. og 40 mín, eða rúmum 20.833 átta stunda vinnudögum á ári í óþarfa silagang á þessari leið. Ef einhver heldur, að hér sé um hæpna útreikninga að ræða, þá er þess að minnast, að það er ekki ein milljón, heldur a. m. k. 7 milljónir, sem leggja að einhverju leyti leið sína um Hafnarfjarðarveginn, meðan jörðin er að silast sporbaug sinn í kringum sólina.
Slæmir vegir í þéttbýli eru dýrir á okkar tímum. í hvert sinn, sem við silumst milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, erum við að greiða vegatoll hinnar ólögðu brautar, án þess að þau útgjöld komi að nokkru gagni. En seinagangur er ekki að öllu leyti neikvæður. Hann gefur ferðamönnum m. a. tóm til þess að athuga umhverfið, þegar sessunauturinn er ekki allt of skemmtilegur og aðlaðandi.
Meistaraverk náttúrunnar
Leiðin liggur úr Hafnarfirði, einhverju sérkennilegasta bæjarstæði hér á landi. Náttúran hefur gert frumdrætti að dálitlu listaverki upp frá höfninni, og það er vandmeðfarið eins og öll verk sinnar tegundar. Helztu hlutar þess eru hraun, lækur og hamar. Hvert þeirra býr yfir sérstökum töfrum, sem mannanna verk eiga að lúta, en ekki eyðileggja. Það er hægt að ganga þannig frá hlutunum í þessum bæ, að hraundrangarnir séu aðeins ljótir og leiðir farartálmar, sem skaga svartir og hálfbrotnir út í göturnar, gjóturnar séu óþverraholur, og lækurinn falli í óyndislegum sementsstokk til sævar.
Þótt Hafnfirðingar kannist við slík fyrirbrigði og þekki hverfi, þar sem hverju húsinu er troðið að öðru, svo að eitt rekur sig á annars horn, og göturnar eru furðulegir krákustígir, þá blasir víðar við sjónum smekkvísi og umhyggja fyrir verkum skaparans. En bærinn á eftir að vaxa mikið. Það er ekki of í lagt, að á svæðinu Hafnarfjörður — Reykjavík muni búa um 180 þús. manns árið 2000, ef engin sérstök ógæfa sækir okkur heim. Það er jafnvel sennilegra, að um aldamótin muni búa á þessu svæði rúmlega 200 þúsundir manna. Hafnarfjörður mun eflaust eiga eftir að gera betur en tvöfaldast að íbúatölu á næstu 38 árum. Framtíðaráætlanir um skipulag bæjarins verður að gera á grundvelli þess, að hér rísi upp stórborg einhvern tíma. Hún mun m. a. teygja sig yfir hraunið meðfram nýja veginum, upp Setbergshlíðina og inn hraundalinn. Þar á lækurinn og umhverfi hans að vera mesta borgarprýðin, tjarnir og trjágarðar. —
Einnig mun byggð þéttast um Jófríðarstaðaland frá Skuld og suður og austur dalinn meðfram Grænugrófarlæk.
Ferfœttir skipulagsstjórar
Hér er ekki ætlunin að dveljast einkum við framtíðina, heldur hyggja lítið eitt að fortíðinni.
Hafnarfjörður er með elztu verzlunarhöfnum á landi hér. Fjörðurinn verður aðalhöfn landsins á 15. öld og heldur því sæti að mestu fram á daga Skúla Magnússonar.
Skúli gamli bjó í Viðey og vildi hafa innréttingarnar sínar, nýsköpunarfyrirtækin, sem hann stofnaði, sem næst sér. Það var upphaf Reykjavíkur. Við verðum að fyrirgefa honum staðarvalið, af því að honum gekk gott eitt til.
Hér í firðinum mun lútherskt kirkjuhald eiga upphaf sitt á Íslandi, hér sló fyrsti íslenzki kaupmaðurinn tjöldum og hér hófst rafvæðingin á Íslandi hjá honum Reykdal. Þótt Hafnarfjörður væri svo mikilvægur verzlunarstaður á 15. og 16. öld, að erlendir kaupmenn þreyttu hingað kappsiglingu á hverju vori, þá gerðu Íslendingar seint nokkuð til þess að greiða fyrir samgöngum hingað á landi.
Sauðkindin var lengi helzti skipulagsmeistarinn á Íslandi og vegamálastjóri. Í Landnámu segir, að „sumir þeir, er fyrstir komu út, byggðu næstir fjöllunum og merktu að því landkostina, að kvikfé fýstist frá sjónum til fjallanna“. Feður fræknu treystu auðheyrilega betur framsýni sauðkinda sinna en eigin dómgreind og létu stjórnast af sjónarmiðum þeirra til landgæða og búsældar við bólstaðaval. Jafnvel íslenzkir stórhöfðingjar eins og biskuparnir eltu forystusauðina upp í afdal norðan lands og upp fyrir öll stórvötn syðra. Til Skálholts varð ekki komizt úr neinni átt nema með þrálátum sundreiðum og selflutningum, en sauðir biskups áttu greiða leið til fjalla. Svo virðist sem hann Ingólfur gamli hafi verið nær eini heilskyggni maðurinn, sem hingað flutti í upphafi landsbyggðar. —
Þær þjóðir, sem létu ekki stjórnast af hagspeki ferfætlinga, reistu sér aðalstjórnar- og menntasetur við góðar hafnir eða verzlunarleiðir, og þar risu upp þorp, sem urðu miðstöðvar atvinnulífsins í landinu, er stundir liðu. Hér var því ekki að heilsa. Í 740 ár var helzta höfuðsetur landsins uppi í Tungum, og þar var of t margt um manninn. En Skálholtsstaður var höfuðsetur íslands, meðan hér bjó frumstæð landbúnaðarþjóð í atvinnuefnum, en ekki stundinni lengur. Hefði biskupsstóllinn hins vegar staðið hér á Innnesjunum í landnámi Ingólfs, hefði hann orðið grundvöllur þeirrar borgar, sem Ísland skorti langan aldur. En stóllinn stóð á sínum stað, og það þurf til eitt mesta eldgos veraldarsögunnar að viðbættum ógurlegum jarðskjálftum til þess að hrekja hann til strandar, og á leiðinni liðaðist hann nær algjörlega í sundur.
Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur, sem áður lá austan að klifinu. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa.
Vegurinn
Einn talaði um veg yfir vegleysur og hraun,
einn vitnaði í samtök, er ynnu þyngstu raun,
einn mældi fyrir vegi og vissi upp á hár,
hvar vegurinn ætti að koma, svo liðu hundrað ár.
Það breyttist ekki hraunið og björgin lágu kyrr.
Í byggðinni var talað um veginn eins og fyrr.
Einn hafði góðan vilja en öðrum þróttur þraut,
og þriðja fannst það heimska að leggja nokkra braut.
-Davíð Stefánsson.
Konungskoman 1874
Um 1873 bárust þau tíðindi til Hafnarfjarðar, að kóngurinn í Kaupmannahöfn ætlaði að heimsækja Ísland. Hafnfirðingar sáu það þegar af hyggjuviti sínu, að kóngur mundi aldrei fara svo af Fróni, að hann hefði ekki komið í Hafnarfjörð, þann stað, sem löngum var frægastur íslenzkra hafna og forfeður Kristjáns Friðrikssonar höfðu leigt við ærnu gjaldi.
Hins vegar fengu þeir strangar áhyggjur af því, að það væri alls ekki kóngi bjóðandi að eyða hálftíma í að paufast Gömlufjarðargötur yfir hraunið; hans hátign gæti þar að auki dottið og hlotið skrámur.
Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinuni, Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal. Þetta varð svo konunglegur vegur, að hér eftir var talið 10 mínútna skokk milli fyrrgreindra bæja.
Kóngurinn kom í Fjörðinn ári síðar, en Hafnfirðingar reyndust mjög tómlátir, þótt hans hátign birtist á Mölinni. Yfir Háaklif var lagt siglutré milli kletta, skreytt birki og lyngi. Klettarnir voru svo háir, að það var vel reitt undir ..lauftréð“. Kóngur hafði orð á því, að honum fannst sem hann hrapaði ofan í bæinn, þegar hann fór niður Háaklif.
Niðri á Mölunum var fólk í óðaönn að taka saman fisk. Kóngur gekk um sjávargötuna frá Linnetskletti og vestur að húsi Kristins Zimsens, sem eitt sinn var hús Bjarna Sívertsens. Við götu hans var engin skrúðfylking glápandi þegna, horfandi höggdofa á, hvernig kóngurinn hreyfði sig. Þó voru það ýmsir, sem veittu honum óskipta athygli. Börnin hættu leikjum sínum og fylgdust álengdar með hverju fótmáli hans. Meðal þeirra var Nielsína Abigael Ólafsdóttir, þá á 5. ári, en hún sagði löngu síðar Gísla Sigurðssyni frá konungskomunni til Hafnarfjarðar og hann mér. Níelsína giftist Daníel Daníelssyni dyraverði í stjórnarráðinu.
Á stakkstæðunum héldu menn áfram að rogast með börur sínar og taka saman fiskinn, rétt eins og ekkert væri um að vera í plássinu.
Þó er þetta ekki öldungis rétt, því að maður nokkur vék af einu stakkstæðinu rétt hjá Knudtzonsbryggju, gekk í veg fyrir konung og bauð hann velkominn í plássið. Nafn pessa konungdjarfa Hafnfirðings mun með öllu gleymt, og ræðan var aldrei skráð. Hún var þýdd fyrir konung, og hann gaf þessum fullrúa hafnfirzkrar sjómannastéttar gullpening fyrir kveðjuna, en hann hneigði sig og gekk aftur til vinnu sinnar við fiskinn. Þar með var hinni opinberu móttökuathöfn lokið. – Kristinn Zimsen bauð konungi inn, og Katinka, dóttir hans, færði hnum blómvönd úr garðinum bak við húsið. Kóngur þáði glas af léttu öli, það voru veitingarnar, og tók stúlkuna á kné sér og þakkaði henni móttökurnar.
Konungur hvarf á braut upp Illaklif og hélt með föruneyti sínu inn veginn frá Sjónarhóli. Hann hafði öldungis óviljandi orðið til þess, að Hafnfirðingar kynntust vegabótum.
Nœstu áfangar
Hafnfirðingar voru svo hrifnir af nýja veginum, að á næsta ári höfðu þeir uppi allmikil áform um vegabætur. Þann 12. apríl kemur hreppsnefnd Álftaneshrepps til aukafundar, og segir svo m. a. í fundargerðarbókinni:
„Á fundinum var fyrst rætt, hverjar uppástungur skyldi gjöra um, hvað vinna skyldi að þjóðveginum á næsta sumri. Var samþykkt af öllum nefndarmönnum, að góður vegur skuli lagður frá hinum nýja vegi, sem liggur ofan í Hafnarfjörð og suður undir Hvaleyri, og ætlar nefndin til þess 800 kr. þurfi, en skyldi upphæð þessi ekki fást öll, álítur nefndin óumflýjanlegt að gjöra við kafla þann, sem kallast Hamar, og nú til þess ætla 400 krónur.
Einnig álítur nefndin mjög nauðsynlegt að leggja brú yfir mýrina frá trébrúnni á Hraunsholtslæk inn að Arnarneslæk, og ætlar nefndin, að til þess að gjöra góða brú mundi þurfa 1000 krónur, en að mikið megi bæta mýrina með 400—500 krónum. Var oddvita falið að semja uppástungu um þetta.“
Af fundargerðinni sést, að brýnustu vegabæturnar voru að ryðja braut yfir Vestur-Hamarinn, þar sem Vélsmiðja Hafnarfjarðar stendur, og „brúa“ Austurmýrina, sem nú kallast Hofstaðamýri. Að brúa merkir að gera veg, bera a. m. k. ofan í verstu svakkana í mýrinni.
Talað er um trébrú á Hraunsholtslæk, en hvenær hún var gerð, er mér ókunnugt. Menn ætla að ráðast í talsvert og eru allbjartsýnir.
Alþingi fékk nokkurt fjárforræði með stjórnarskránni 1874, en afl þeirra hluta, sem gera skal, var þó af býsna skornum skammti. Lán voru ekki auðfengin, og lítið varð oft úr framkvæmdum, þótt viljinn væri góður. Árið eftir berst hreppsnefndinni beiðni frá Reykvíkingum um styrk til brúargerðar á Elliðaárnar. Hafnarfjörður hafði verið helzta verzlunarhöfn við Faxaflóa, og þangað höfðu bændur sótt í kaupstað hundruðum saman austan úr sveitum, þótt tekið væri að byggja upp í Reykjavík.
Brúargerð á Elliðaárnar var fyrirboði þess, að viðskiptaleið bænda mundi breytast, og hreppsnefndin synjaði um styrkinn.
Þegar þetta mál er til umræðna, kemur fram, að Konungsvegurinn yfir Flatahraun liggi undir skemmdum. Veittar eru 300—400 kr. til þess að láta bera ofan í hann.
Brúargerðin yfir Austurmýrina hefur auðsæilega strandað á féleysi, en margt kallar að. Álftnesingar þurfa að komast yfir mýrarfenin undan túninu á Selskarði, en þar „er ófær vegur“, og 400 kr. eru veittar til „brúargerðar“ þar. „Ef mögulegt væri að fá meira fé“, ákveður nefndin að ráðast á Hraunsholtið , láta ryðja þar „vegarbreidd og gjöra skurð við hlíðarnar“. Til þess ætlar hún 200 kr., ef hægt er á einhvern hátt að höndla þá fjárhæð.
Dýrt vegagjald
Árin líða, og lítið er hægt að framkvæma sökum fátæktarinnar. Í 1000 ár höfðu menn búið á Íslandi án þess að leggja nokkurn vegarspotta, svo teljandi sé. Menn höfðu slarkað einhvern veginn yfir ófærurnar eða orðið til í þeim. Menn björguðust eða fórust; það er hið endalausa efni íslenzkra ferðasagna í gamla daga. Hver kaupstaðarferð var svaðilför víðast á landinu. Og menn þurftu ekki að leggja í langferðir til þess að lenda í lífsháskum.
Féleysi, þróttleysi, klæðleysi, vegaleysi og allsleysi varð mörgum að fjörtjóni milli bæja, ef nokkuð varð að veðri, en mórum, skottum og illum vættum var kennt um ófarirnar. Álfhóll heitir klapparhóll á Digraneshálsi. Við hann er kennd Álfhólsbraut. Það er dálítill hlykkur á götunni hjá hólnum, af því að Finnbogi Rútur bannaði vegagerðarmönnum að brjóta byggð álfanna. Rétt sunnan við hólinn innan girðingar eru tættur sennilega af stekk. Þar í urðinni á að vera huslaður maður, sem varð úti á leiðinni milli Bústaða og Digraness. Þetta á að hafa verið ekki mjög merkilegur borgari á sinni tíð, og þess vegna var ekki fengizt um hann frekar.
Hábunga Garðaholts heitir Völuleiði. Undan útnorðurhorni girðingar á háholtinu vestan vegar er dys. Ekki á völva að hafa verið heygð þar að fornu, heldur mæðgur tvær, sem urðu þar úti á leið frá Bessastöðum að Görðum. Sagt er, að konan hafi farið að Bessastöðum með unga dóttur sína, sem hún kenndi einum manni yfirvaldsins, en sá vildi ekki við kannast. Af þeim sökum féll sá grunur á, að móðirin hefði fargað barni sínu og sér sjálfri á þessum stað, lagzt fyrir og hætt að þreyta göngur milli góðbúanna.
Um 1912 verður maður úti frá Lásakoti í Skógtjarnarhverfi á leið austur með Völuleiði. Hjörleifur, faðir Ingimundar Hjörleifssonar í Ásbúðartröð 3, verður úti í Garðahrauni veturinn 1909—10.
Margir kannast við kvæði Matthíasar Jochumssonar um börnin frá Hvammskoti (nú Fífuhvammi), sem drukknuðu á útmánuðum 1874 í Kópavogslæk:
Þrjú stóðu börnin við beljandi sund
næddi vetrarnótt yfir náklædda grund.
Hlökkuðu hjörtun svo heimkomufús,
hinum megin vissu sín foreldrahús.
En lækurinn þrumdi við leysingarfall,
fossaði báran og flaumiðan svall.
Hímdu þar börnin við helþrunginn ós;
huldu þá sín augu Guðs blásala ljós.
„Langt að baki er kirkjan,
sem komum við frá,
en foreldranna faðmur
er fyrir handan á.
í Jesú nafni út í,
því örskammt er heim.“
En engill stóð og bandaði
systkinum tveim.
Eitt sá tómt helstríð —
og hjálpaðist af;
hin sáu Guðs dýrð — og bárust í kaf.
Brostin voru barnanna bláljósin skær,
brostu þá frá himnum smástjörnur tvær.
Foreldrarnir tíndu upp
barna sinna bein,
og báran kvað grátlag
við tárugan stein.
Hafnarfjörður kemst í vegasamband
Það þurftu margir að greiða dýran vegatoll, af því að hér voru hvorki til brýr né vegir. Verstu mýrarsvakkarnir út á Álftanesið voru brúaðir á árunum eftir 1876, en árið 1879 er fyrst ráðizt í vegagerð yfir Hraunsholtið. Á næstu árum geisa fádæma harðindi hér á landi, en allt um það eru Garðhreppingar, sem voru orðnir sérstakt hreppsfélag, alltaf hafnasamir við vegagerð. Árið 1881 kemst vegur yfir Hraunsholtið, og þá og á næsta ári munu gerðar brýr yfir Austurmýrina og upp Arnarnesið. Sá vegarkafli að Arnarneslæk var löngum nefndur „Mýrarbrú“. Arnarneslækurinn var þó óbrúaður enn um skeið.
Árið 1883 er tekið að leggja veg frá Hamrinum suður á Hvaleyri og hugsa fyrir brú á Kópavogslæk. Sú brú mun hafa komizt á 1884 eða 1885, og hefur sennilega einungis verið göngubrú í fyrstu. Um þær mundir eignast Garðahreppur nýja stétt embættismanna, vegabætarana, og bera þeir Magnús Brynjólfsson á Dysjum og Þorgils Halldórsson í Miðengi fyrstir þann titil.
Hreppnum var skipt í umdæmi milli þeirra. Skyldi Magnús sjá um vegagerðina í Hafnarfjarðarhraunum, en Þorgils í Garðahverfi og uppbæjum.
Ekki urðu neinar stórbreytingar á vegamálum hreppsins við tilkomu þessara embættismanna. Af samgöngubótum fara heldur fáar sögur næsta áratuginn. Verkfærakostur manna var af mjög skornum skammti, venjulega ekki annað en skófla, járnkarl, haki eða mölbrjótur og handbörur. Árið 1899 samþykkir hreppsnefndin að kaupa Landssjóðsverkfæri fyrir kr. 17,50. — sautján krónur og fímmtíu aura — til hreppsvegasjóðs. Þá var „kirkjuvegurinn með sjónum fram að Görðum orðinn bráðófær“ og skyldi ráðizt í endurbætur á honum með 300 kr. lántöku.
Lítið var fengizt um vega- og gatnagerð í þorpinu sjálfu. Brú var gerð á lækinn um 1785, að því er Gísli Sigurðsson telur. Sú brú var sunnan við Brúarhraunsklett. Annar brúarsporðurinn stóð á Brúarklöppinni, en hinn á eyraroddanum. Þetta mannvirki kom helzt að gagni á fjöru, því að á flóðinu var það umflotið sjó. Síðar er brúin færð, og stendur hún þá um skeið fram undan þeim stað, þar sem búð Olivers er nú.
Þessar brýr voru gerðar og kostaðar af kaupmönnum. Í þriðja sinn er henni fundinn staður undan Einarsbúð, og það er sá brúarflutningur, sem vofir yfir 1902. Þegar brúin var færð, fylgdi því m. a. sá kostnaður að teygja veginn að henni. Hreppsnefndin leitaði til sýslunefndar um fjárstyrk til framkvæmda og fékk 500 kr. til vegagerðar niður í Hafnarfjörð, um þorpið og til búargerðar gegn tvöfaldri upphæð til sömu framkvæmda annars staðar frá. Það fé lagði hreppsnefndin til, og þá um vorið var í fyrsta sinn lagður „viðunanlegur akvegur“ ofan í Hafnarfjörð.
Sumarið 1902 var í fyrsta sinn hægt að komast með vagna niður í verzlunarstaðinn Hafnarfjörð, en ekki í gegnum þorpið. Á næsta ári var nýja brúin byggð á lækinn og hafizt handa um vegagerð í þorpinu. Þá varð það, að búendur í Brekkunni sunnan lækjar báðu hreppinn að leggja til land undir veg, sem þeir ráðgera að leggja beint upp Brekkuna (Illubrekku) milli sýslumannshússins og barnaskólans, „þar sem nú er mjór gangstígur“. Einnig báðu þeir um fjárstyrk til vegagerðarinnar. Þeir fengu landið, ræmu af lóð barnaskólans, og var heitið 20 króna virði í vinnu, sem hreppurinn útvegaði. Með þennan bakhjarl var einnig tekið við að leggja Suðurgötuna.
Þar með opnaðist akfær leið gegnum Hafnarfjörð, og árið eftir veitti landssjóður 2.800 kr. til vegagerðar milli Hafnarfjarðar og Vogastapa. Sá vegur átti langt í land, en þó var áfanga náð; Hafnarfjörður var kominn i vegasamband við umhverfið. Hitt var annað mál, að vegakerfið beindi brautir manna til Reykjavíkur, en ekki hinnar fornu hafnar við Faxaflóa.
Helztu heimildarmenn mínir eru þeir Gísli Sigurðsson lögregluþjónn og Adolf J. E. Petersen verkstjóri.“
-B. P.
Vegagerð í bænum bundin öðruleikum
Í skýrslu um „Húsakönnun í miðbæ Hafnarfjarðar frá árinu 2019 segir m.a. um vegagerð í byrjun 20. aldar:
„Segja má að þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 hafi ekki verið nokkurt skipulag á byggðinni og fáar eiginlegar götur í bænum. Strandgatan og Reykjavíkurvegurinn voru þó á sínum stað en að öðru leyti má segja að einungis hafi verið um slóða og stíga að ræða. Þar sem bæjarfélagið var fámennt og bæjarsjóður ekki vaxinn til stórframkvæmda var ljóst að kostnaðarsamar framkvæmdir eins og gatnagerð var, sérstaklega í svo erfiðu landslagi, yrðu ekki forgangsverkefni. Árið 1911 var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum og slóðum í Hafnarfirði nöfn og tölusetja hús í bænum. Í greinargerð sem nefnd þessi sendi frá sér sagði meðal annars:
„Þegar maður fer um Hafnarfjörð og virðir fyrir sér byggðina, verður maður þess fljótt var, að öll ný veglagning er bundin miklum örðuleikum, ekki aðeins vegna hins hrjóstruga landslags, heldur einkum og ekki sízt sökum þess, hve óreglulega hefir verið byggt og ekkert fyrir hugað frá öndverðu um það, hvar vegir ættu að byggjast, þegar fram liðu stundir.“
Niðurstaða nefndarinnar var að gefa flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra.“
Heimildir:
-Alþýublað Hafnarfjarðar, jólablað, 15. des. 1962, Björn Þorsteinsson sagnfræðingur – Mjói vegurinn – Mesta umferðaræð Íslands, bls. 6-8.
-Miðbær Hafnarfjarðar, Skýrsla um húsakönnun, 2019.