Móbergshryggur
Móbergshryggur myndast í sprungugosi undir jökli eða í sjó. Einstakt afbrigði slíkrar myndunar er móbergskeila, s.s. Keilir. Í rauninni ætti því fjallið að heita Keila – og það er alls ekki of seint að breyta því. Líklega yrði það til að vekja meiri athygli á jafnréttisbaráttunni en nokkuð annað, sem gert hefur verið hingað til.
Móbergsmyndunin varð liður í bergmyndun landsins frá því fyrir 700 þúsund árum til loka ísaldar. Á því tímabili urðu flestir móbergshryggir landsins til. Þeir eru svo til allir á flekaskilum Evrópu og Ameríku, enda eitt afkvæma gosvirkninnar á sprungureinum. Börn hennar voru dyngjurnar og barnabörnin hraungosin. Hér verður einungis fjallað um forsöguna; „afan og ömmuna“.
Ásarnir, Geitahlíð, Sveifluháls, Núpshlíðarháls og Fagradalsfjall eru dæmi um móbergshryggi, sem myndast hafa við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Þeir eru ágæt dæmi um gos undir jökli. Í Æsubúðum á Geitahlíð má sjá ummerki þess að gosið hafi náð upp úr jökulhettunni og myndað móbergsstapa úr bólstrabergi. Víðast hvar annars staðar hefur jökullinn reynt að kæfa gjósku- og klepramyndunina jafnóðum, en henni hefur samt sem áður tekist að bræða ísinn og forma setlaga hryggi úr móbergi í bland við bólstrabergsbrotsmyndun. Sumstaðar birtist það nú sem brotaberg eða sambland af hvorutveggja. Drumbur í Sveifluhálsi er ágætt dæmi um brotabergsmyndunina. Miðdegishnúkur á sama hálsi er hins vegar ágætt dæmi um blandmyndun á gosreininni. Litlu hefur munað að hún hafi náð að sigra jökulinn, en hæðin á yfirborði jökulsins hefur þá verið í u.þ.b. 370 metra hæð (Miðdegishnúkur er u.þ.b. 350 m.y.s., en Æsubúður eru 386 m.y.s). Til samanburðar má geta þess að Keilir (Keila) er nú um 379 m.y.s. svo kollurinn á honum hefur rétt náð að bræða af sér eða kíkja upp úr íshellunni áður en gosið hætti.
Landslag á tertíer var frábrugðið því landslagi sem gefur landinu hvað sterkastan svip nú. Hvergi hafa verið jökulsorfnir firðir né tignarlegir stapar eða móbergshryggir. Landið hefur víðast hvar verið fremur slétt og tilbreytingarlítið með einstaka misgengisstöllum, gjám og gíghólaröðum. Hér og þar hafa láreistar dyngjur og allháar eldkeilur [Snæfellsjökull] borið við himin úti við sjóndeildarhringinn. Víða hafa lindir sprottið fram við hraunjaðra og lygnar lindár liðast um grunna dali. Í sigdölum og víðar þar sem grunnvatnsstaða var há voru mýradrög og flóar með smátjörnum. Laufblöð sem fuku út á tjarnir sukku til botns og grófust í leirinn á botninum en annars staðar náðu þykk mólög að myndast í mýrum. Seinna runnu svo hraunlög yfir tjarnirnar og mýrarnar. Laufblöðin steingerðust en mórinn varð að surtarbrandslögum sem óvíða eru þó þykkri en 0,5 – 1 m.
Þetta voru afleiðinga hlýskeiðsins millum síðustu ísalda. Á því árþúsundatímabili urðu einnig miklar jarðmyndanir og breytingar þeim samfara. Reyndar eru ummerkin þess lítt áberandi á Reykjanesskaganum, en þó má sjá dæmi rofmyndunarinnar á Rosmhvalanesi, Stapanum og í Slögu.
Þegar skriðjökull síðasta jökulskeiðs rann fram reif hann með sér urð úr undirlaginu. Undir jöklinum kallast þessi urð botnurð en jaðarurð þar sem jökullinn rennur fram með fjallshlíðum. Víða klofna jökulstraumar á fjallstoppum sem standa upp úr jökulstraumnum en sameinast svo að nýju neðan þeirra. Slík fjöll, umkringd jökli, kallast jökulsker. Þar sem svo jökulstraumar renna saman neðan jökulskerja sameinast jaðarurðir þeirra og mynda slóð urðar í og á jöklinum sem kallast urðarrendur. Víða má sjá slíkar myndanir, en fæstir setja það í það samhengi að áður hafi þykk íshella þakið annars gróðurvæn svæði. Helstu ummerki eftir jökulinn eru rákir á kaldbökum, sléttum grágrýtisklöppum. Botnurðin, sem jökullinn dregur með sér og ávallt er undir honum, er bæði gróf og fínkorna. Stærstu steinarnir skera djúpar rispur niður í klappirnar en sandur og möl slípar þær og gefur þeim fínlega áferð.
Rispurnar nefnast jökulrákir (jökulrispur) og eru ávallt samsíða skriðstefnu jökulsins. Jökulrispaðar klappir kallast hvalbök, sem fyrr sagði. Hvalbökin eru aflíðandi og vel slípuð á þeirri hliðinni sem vissi í jökulstrauminn en á hinni hliðinni, sem vissi undan straumnum, er brotsár þar sem ísinn kroppaði úr berginu um leið og hann rann fram af klöppinni. Ávallt eru hnullungarnir, sem drógust eftir klöppinni, núnir og oft einnig jökulrispaðir. Önnur roföfl; vatn, vindur og frostverkun hjálpuðust að. Smám saman, í gegnum árhundruðin, tókst þeim að móta landið – og eru enn að.
Mörg þau gil og skorningar í móbergshryggjunum, sem og margir þeir dalir og firðir sem þykja tilkomumestir í landslaginu eru grafnir af ísaldarjöklunum. Þar sem jöklar gengu fram V-laga dali vatnsfalla víkkuðu þeir þá út og gerðu dalina U-laga. Skriðjöklar sem runnu úr þverdölum voru yfirleitt mun rýrari en jökullinn í aðaldalnum og rofmáttur þeirra því minni. Jökulsorfnir þverdalir eru því oft grunnir miðað við aðaldalinn og kallaðir hengidalir. Víða náðu hvilftarjöklar aðskildra dala að grafa skörð er þeir náðu saman. Varð úr þessu fjölbreytilegt landslag dala, afdala, hvilfta, skarða og horna. Rofmyndunin er einstaklega augljós á Reykjanesskaganum.
Ólíkt flestum öðrum löndum, sem lágu undir jökli á jökulskeiðum ísaldar, er mikil eldvirkni hér á landi. Jökull, sem liggur yfir eldstöð, hefur afdrifarík áhrif á gosið og veldur því að kvika, sem á þurru landi hefði myndað víðáttumikil hraun, hrúgast upp undir ísnum og vatninu sem bólstraberg eða bólstrabrotaberg í hryggjum og stöpum. Hryggirnir urðu til þar sem gosið náði ekki upp úr jöklinum og náðu því ekki að mynda hraun við þau skilyrði. Hraunin, sem við þekkjum komu síðar; að tilstuðlan dyngnanna og síðar sprungureinagosanna, sem lýst er annars staðar á vefsíðunni í umfjöllun um einstakar ferði um einstök svæði.
Í miðju hinna fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans eru móbergsmyndanir, 1,0–1,5 km á þykkt, meðan utan þeirra virðast hraun sem runnið hafa á yfirborði mynda stóran hluta staflans. Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla t.a.m. eru móbergsmyndanir þykkastar undir sunnanverðum Bláfjöllum en þar eru misgengi ekki áberandi á yfirborði. Í Brennisteinsfjöllum og norðan þeirra er sigdalur og mikið af misgengjum en þykkt móbergsmyndana tiltölulega lítil. Mögulegt er að í Bláfjöllum hafi verið sigdalur svipaður þeim sem nú er í Hengli, en að gliðnun í kerfinu hafi flust til vesturs í Brennisteinsfjöll á þarsíðasta jökulskeiði. Víða koma fram grafnir móbergshryggir sem ekki sjást á yfirborði.
Þá er m.a. að finna í hraununum ofan Heiðmerkur þar sem hryggur virðist liggja austan Helgafells (Markraki) og ná norðaustur í Selfjall. Annar hryggur nær 4-5 km til norðnorðausturs frá norðurenda Bláfjalla, alfarið grafinn í grágrýti. Þessi hryggur kann að veita grunnvatni aðhald og eiga þátt í að austan hans er grunnvatnsborð nokkurn veginn flatt á stóru svæði. Þessi lægð kann að skýra með gröfnum móbergsstapa, svipuðum Lönguhlíð eða Sandfelli. Þykkir staflar hrauna eru milli Bláfjalla og móbergshryggsins sem teygir sig norðaustur frá Brennisteinsfjöllum. Mikill stafli er einnig undir Svínahrauni og norður um Mosfellsheiði. Kringum Geitafell gætu hraun sem að því liggja verið allt að 100-200 m þykk. Meirihluti þessara hraunamyndanna hafa orðið til fyrir síðasta jökulskeið. Hraun runnin á nútíma í Brennisteinsfjallakerfi eru talin er 15±6 km3 og rúmmál móbergsmyndana í kerfinu frá síðasta jökulskeiði er talið af stærðargráðunni 30 km3. Þetta bendir til kvikuframleiðslu upp á 1,5 km3/1000 ár á nútíma en 0,3 km3/1000 ár á síðasta jökulskeiði.J
ón Jónsson (1978) kortlagði mikinn hluta þessa svæðis og Kristján Sæmundsson (1995) vann ítarlegt jarðfræðikort í mælikvarða 1:50.000 af Hengilssvæðinu og nær það kort suður undir Geitafell. Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald gosmyndunar undir jökli.
Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Hengilsskerfið er það eina í vestara gosbeltinu sunnan Þingvallavatns sem myndað hefur megineldstöð. Í Hengli er að finna mikinn jarðhita og súrt berg. Hengilskerfið teygir sig norður fyrir Þingvallavatn og rennur þar saman við Þingvallasigdældina. Eldvirkni á nútíma sunnan Þingvallavatns hefur ekki verið eins stór í sniðum og í Brennisteinsfjallakerfinu en goseiningar eru þó allnokkrar, t.d. Hellisheiðarhraunin og dyngjur eins og Selvogsheiði.
Brotahreyfingar hafa verið mjög miklar í Hengilskerfinu. Talið er að kerfið hafi verið virkt í a.m.k. 200.000-300.000 ár (Knútur Árnason o.fl., 1987). Nokkurra kílómetra breiður sigdalur liggur í gegnum Hengilssvæðið. Eru sigstallarnir mjög áberandi í Stóra-Reykjafelli, Skarðsmýrarfjalli, Henglinum og norður um Nesjavelli. Sunnan Hveradala verða siggengi minna áberandi en sprungur eru algengar suður fyrir Selvogsheiði. Meitlar, Lambafell og Geitafell eru stapar og misgreinilegar stapamyndanir eru algengar í fjalllendi Hengilsins.
Dyngja kennd við Trölladal (Árni Hjartarson, 1999 notar nafnið Skálafellsdyngja) og Bitra norðan til á Hellisheiði eru taldar frá lokum síðasta jökulskeiðs. Nyrsti hluti mælisvæðisins nær yfir Mosfellsheiði sunnanverða að Borgarhólum. Borgarhólar eru dyngja, talin mynduð á Eem hlýskeiðinu fyrir rúmlega 100 þúsund árum (Jón Jónsson, 1978; Kristján Sæmundsson, 1995). Að Lyklafelli frátöldu rísa engin móbergsfjöll upp úr hraununum á þessu svæði.
Heimild m.a.:
-http://www.mr.is/~gk/jfr/ordskyr/index.html
-http://www.raunvis.hi.is/~mtg/pdf/RH-2004-12_Blafjoll.pdf