Mosfell – fornleifarannsókn við bílaplan
Árið 2018 fór fram fornleifarannsókn vegna framkvæmda við bílaplan við Mosfellskirkju. Í framhaldinu var skrifuð skýrsla; „Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna„. Höfundur var Ragnheiður Traustadóttir.
„Saga Mosfells
Í skýrslunni „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ„, sem var gefin út árið 2006 er rakin saga Mosfells og er bæjarstæðið skráð ásamt kirkjunni sem stóð þar. Þessi skýrsla var unnin upp úreldri skráningargögnum. Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980 og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á Íslandi. Í skýrslunni er að finna góðar lýsingar á fornleifum í sveitarfélaginu en hún er háð þeim takmörkunum að minjar voru ekki allar settar á kort og þær sem hafa ratað inn á vefsjá sveitarfélagsins eru oft ekki nákvæmt staðsettar enda voru mælingartæki á þeim tíma ekki jafn nákvæm og þau eru í dag. Lýsingar úr fornleifaskráningunni á bæjarstæðinu og kirkjunni er að finna í skýrslunni:
„Magnús Grímsson segir í athugasemdum við Egilssögu: „Bærinn á Mosfelli stendr á 122 austr-hala hóls þess, sem kirkjan stendr á. Hóll þessi er hæstr að vestan, næst Merkrvallargili, og að sunnan, sem fram veit að Köldukvísl; þar er brekka framan í honum, há og allfögur tilsýndar.
Fellsmegin við hól þenna er landslag nokkru lægra. Hæstr er hóllinn þar, sem kirkjan nú stendur á honum, og þar norðan undir er lægðin milli hans og fjallsins mest, þar sem kirkjan stóð áður.
Austur af hólnum er jafnaflíðandi, og þar er nú bærinn; ætla eg að hann hafi þar staðið síðan hann var fluttur af Hrísbrú, því engar rústir eru þær þar nærlendis, sem bendi á annað, enda eru og hér öskuhaugar miklir og fornir.
Eru þeir hér, eins og á Hrísbrú, beint fram undan bæjardyrum og skammt frá þeim, svo stórir, eins og smáhólar. En að Minna-Mosfell sé laungu síðar byggt, byggi eg meðal annars á því, að þar eru engir fornir öskuhaugar að sjá.
En það bregzt sjaldan að þeir sé til, jafnvel grasi vaxnir hólar, á fornum stórbæjum á Íslandi, og eins við fornarbæjarrústir, optast nær beint framundan bænum. Gæti þeir opt verið til góðs leiðarvísis, ef uppskyldi grafa slíkar rústir, sem á mörgum stöðum væri án efa vel gjörandi. Eitt það, sem eg byggi áætlan mína um það er þegar sagt er, um bæjarflutninginn frá Hrísbrú að Mosfelli …“.
Sigurður Vigfússon segir svo um öskuhauga: „…enn á Mosfelli veit eg að það hefir prófazt viðhúsbyggingar og umrót; þar fannst mikil aska, bæði undir bænum og í kálgörðunum fram undan bænum“.
Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir svo: „Mosfell (Stóra Mosfell) stendr á hæð lítilli, sunnan undir Mosfelli (Mosfellsfjalli), norðanvert í Mosfellsdal“ .
Seinna var bærinn fluttur: „Mosfell, prestssetrið, var sunnan í fellinu, en nú er bærinn fluttur suður yfir Köldukvísl á Víðinn, til að geta hitað húsin með hveravatni frá Norður Reykjum…“.
Á Túnakorti frá 1916 sést bærinn rétt austan við grafreitinn. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi úr timbri, eldhúsi úr torfi og skemmu úr torfi með timburþili. Þessi bæjarhús eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir núverandi kirkju og kirkjugarð.
Nokkur orð um Mosfellsprestakall: Kirkja var fyrst reist að Hrísbrú þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Sú kirkja var seinna flutt að Mosfelli. Getið er kirkna að Varmá, í Þerney, talað var um bænhús að Lágafelli fyrir 1700, kirkja var að Suður-Reykjum og var hún lögð niður 1765. Kirkjan að Varmá er með vissu niðurlögð fyrir 1600 (sbr. síðar). Með konungsbréfi 6/1 1774 var skipað að setja kirkju á Lágafelli og leggja þangað Mosfells- og Gufunessóknir, en það var afturkallað með kgbr. 7/6 1776. Viðey var lögð til Mosfells 1847. Árið 1880 er Brautarholtssókn lögð undir Mosfell. Með landshöfðingjabréfi 21/9 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli. Árið 1901 er Mosfellsprestakall lagt niður og Lágafells- og Viðeyjarsóknir lagðar undir Reykjavík en Brautarholtssókn til Reynivalla. Þetta kom þó aldrei til framkvæmda og 1927 er Mosfellsprestakall tekið upp á ný,óbreytt.
Í Egilssögu er getið um að kirkja sem reist var á Hrísbrú, er kristni var lögtekin, hafi verið flutt að Mosfelli.
Segir dr. Jón Þorkelsson að kirkjuflutningurinn hafi líklega verið á árunum 1130-1160. Segir Sigurður Vigfússon það eftir honum í grein sinni „Rannsókn í Borgarfirði 1884“.
Sama kemur fram í Prestatali og prófasta og er líklega einnig haft eftir Jóni Þorkelssyni. Nokkrar umræður urðu um staðsetningu hinnar fyrstu kirkju og bæjarins að Mosfelli. Vildu sumir meina að bæði kirkja og bær hafi verið flutt fráHrísbrú og að Mosfelli. Jafnframt hafi nafnið flust (þ.e. Hrísbrú hafi upphaflega heitið Mosfell). Helstutalsmenn þessarar kenningar voru Magnús Grímsson og Kålund.
Á annarri skoðun eru t.d. Sigurður Vigfússon í grein sem hann birti í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885 og Sigurður Nordal íútgáfu sinni að Egilssögu 1933, þ. e. að einungis hafi verið að ræða um flutning kirkjunnar. Í Prestatali og prófasta eru taldir upp allir prestar á Mosfelli frá upphafi. Skafti Þórarinsson er fyrsti prestur þar, sem heimildir geta um. Hann var prestur að Mosfelli fyrir 1121 og til um 1143 en þá tekur næsti prestur við og þjónaði hann til um 1180. Kirkju er getið að Mosfelli í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 yfir kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta vantaði að.
Af heimildum að dæma leggst kirkjan á Mosfelli niður snemma á miðöldum og er jörðin komin í eigu leikmanna á 15. öld.
Næst er kirkja reist að Mosfelli á fyrri hluta 16. aldar, ef marka má heimildir, og er prests getið þar um 1536 .
Er nú kirkja samfellt að Mosfelli fram til ársins 1888 að hún er rifin og ný kirkja reist að Lágafelli.
Kirkja var vígð að Mosfelli 4. apríl 1965 og stendur sú kirkja enn.
Úttekt var gerð á Mosfellskirkju árið 1887 að skipan prófastsins í Görðum og er úttektarskjalið til enn. Segir í því, að kirkjan hafi verið 11 álnir og 11 þumlungar að lengd innan gafla, en það mun vera um 7metrar. Breiddin var 9 álnir og 12 þumlungar, innan veggja, en það er um 5,7 metrar. Kirkjan hefur því verið rétt tæpir 40 fermetrar.
Um staðsetningu kirkjunnar segir Magnús Grímsson: „Kirkjan stendr enn í dag á Mosfelli, en ekki er hún þar nú í sama stað og hún hefir fyrst verið sett á. Kirkjan stendur nú á háum hól fyrir vestan bæinn.
Áður hefir hún staðið norðanvert við hól þenna, eða í norðrjaðri hans. Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústar hinnar fornu… Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verður ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin… Hafi bærinn á Mosfelli staðið þar, sem nú er hann, sem ekki er ólíklegt, þegar kirkjan var hingað flutt, þá hefir kirkjan verið sett viðlíka lángt frá bænum og öldúngis í sömu átt frá honum, eins og kirkja Gríms áður á Hrísbrú, og er það ekki með öllu óeptirtektan vert… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkjugarðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir að lángt muni vera síðan… Vera má hið forna kirkju stæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún.“
Um staðsetningu kirkjunnar segir Kålund: „Nu står kirken – som sædvanligt midt i kirkegården – på enhøj, der falder temmelig brat af mod mosen, men tidligare har kirken og kirkegården, af hvilken endnulævninger ses, været lidt nordligere umiddelbart nord for den nuvær ende“.
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Stór hóll var þar sem kirkjan var, og heitir hann Kirkjuhóll“.
„Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústarinnar fornu; er hún auðséð að vestan, norðan og austanverðu, en að sunnanverðu hefir garðrinn gengið að eða inn í kirkjugarðinn, sem nú er, og sést því ekki til hans þar; ætla ég, að þessi kirkjugarðr hafi verið ferskeyttr, hérum-bil 18 eðr 20 faðmar á lengd austr og vestr, en 12 eðr 14 faðma breiðr norðr og suðr. Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin. Í þessum garði sjást enn glögg merki til leiða, sem snúa í austr og vestr, sumstaðar í skipulegum röðum. Enginn steinn sést hér neinstaðar, nema einn eða tveir hleðslusteinar norðanvert í garðsrústinni.
Gata vestr úr túninu á Mosfelli liggr nú sunnan til um garð þenna, norðan undir hinum nýja kirkju garði… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkju garðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir, að lángt muni vera síðan.Mjög eru og bæði leiði og gröptur forn orðinn í þeim kirkjugarði, sem nú er, og sá garðr mjög útgrafinn; er hann þó allstór (hérumbil 72 faðmar umhverfis í átthyrningsmynd). Vera má hið forna kirkjustæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún. Svolítr og út, sem hinn forni kirkjugarður hafi verið mjög útgrafinn orðinn, og má vera, að hann hafi verið fluttr af því, að þar hafi ekki orðið jarðsett lengr“.
Magnús ræðir nokkuð hvar bein Egils Skalla-Grímssonar hafi verið lögð niður eftir að þau voru tekin úr haugi hans. Munnmæli um að þau séu í kirkjugarðinum „sem nú er“ telur hann ósennileg. Síðar segir hann: „Þó er ekki svo vel, að munnmæli þessi sé öldúngis viss í, hvar helzt á hólnum leiði Egils muni vera, hvort heldr undir kirkjunni, sem nú er, eðr skammt suðr frá henni. Er þar og ekkert að sjá, sem á þetta bendi með vissu, hvorki í hinum forna kirkjugarði, né hinum nýja; því hin fornu leiði eru hvort öðru lík, en engir eru steinar neinstaðar ofanjarðar, sem neina upplýsing gefi“.
Í Mosfellskirkjugarði eru þrír legsteinar frá 17. öld, legsteinn Jarþrúðar Þórólfsdóttur, dáin 1606 og legsteinn bróður hennar Þorvarðar Þórólfssonar, auk legsteins Arnórs Jónssonar.
Þar er einnig legsteinn Magnúsar Grímssonar, dáinn 1860 (Morgunblaðið, 4. nóvember 1962, einnig er steinsins getið í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness). Í sömu grein í Morgunblaðinu, og áðan var vitnað til, er einnig getið um, að á Mosfelli hafi fundist steinkola árið 1962. Ekki er sagt neitt frá kringumstæðum, nema að kolan hafi verið grafin úr jörðu.“
Þess má geta að framangreind framkvæmd, þ.e. að kalla á fornleifafræðinga eftir að fyrirhuguðu rannsóknarsvæði hefur verið raskað með stórtækum vinnuvélum, verður að telja lítt til eftirbreytni.“
Heimild:
-Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna; Ragnheiður Traustadóttir, 2018.
-Morgunblaðið, 247. tbl. 04.11.1962, „Góður orðstír er manninum auði tryggari, bls. 10-11.