Mosfellsheiði – gamli vegurinn
Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
„Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður“ — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari“; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari“ þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn.
Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.
Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni“, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.
Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri.
Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.“ Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.