Oddafellssel

Oddafellssel
Gengið var að Oddafellsseli. Stefnan var tekin til vesturs með norðanverðu Oddafellinu, að seljarústunum í austurjaðri Höskuldarvallahrauns. Keilir, 379 m hátt móbergsfjall, setti svip á landslagið í norðvestri. Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Keilir er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er mikið af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar. Nýlegur stígur liggur yfir hraunið, norðan Höskuldarvallastígs, áleiðis að Keili áður en komið er að meginseljarústunum, sem eru á tveimur stöðum undir Oddafellinu.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Austan við Oddafellið eru Höskuldarvellir. Það eru stórir grasvellir milli fellsins og Trölladyngju, u.þ.b. hálfur kílómetri að breidd, en á lengdina eru þeir rúmlega kílómetri, milli Sogalækjar og nyrsta hluta Sóleyjarkrika.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell, sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina. Líklega er hann að rugla saman öðru fjalli mun norðaustar, en sunnan við bæði fjöllin eru til frásagnir af útilegumönnum, sem þar áttu að hafa haldið til. Héldu þeir sig í helli sunnan Selsvalla og síðar í helli í Hrútargjárdyngjuhrauni sunnan við Fjallið eina, sem þar er. Í dag má enn sjá minjar eftir veru þeirra í hellunum, sem eru þó meira í ætt við skúta, eins og við þekkjum þá. Oddafellið er lágt (210 m), en um 3ja km langt. Í austurhlíðum Oddadells nokkuð sunnarlega er jarðhiti.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Tóftir Oddafelssels eru í vestanverðu fellinu, á tveimur stöðum. Selið var frá Minni-Vatnsleysu. Höskuldarvallastígurinn kemur út úr hrauninu sunnan við hústóftirnar, en sunnan hans eru stekkur og rétt. Fjárskjól er undir hraunröndinni milli mannvirkjanna. Hleðsla er í skútanum og má enn finna fjárlyktina (sumir segja anganina) í honum.
Stígurinn í gegnum hraunið er þar sem hraunhaftið er hvað þynnst. Hann liggur síðan norður með Oddafellinu. Skammt norðar liggur hann yfir tvær tóftir. Vestan þeirra er hlaðinn stekkur og aðhald.
Ekki er gott að segja hvar vatnsbólið er, en þó má telja líklegt að vatn hafi verið sótt í Sogaselslækinn, sem runnið hefur í gegnum Höskuldarvelli, en vellirnir eru einmitt að mestu mótaðir eftir framburð hans úr Sogunum og hlíðunum umhverfis.

Oddafellssel

Oddafellssel – uppdráttur ferlir.is.

Margir ganga á Keili. Flestir ganga þá suður Höskuldarvallastíg, yfir nyrðri tóftir Oddafellssel og beygja síðan til vesturs eftir stíg yfir Höskuldarvallahraun. Fæstir finna fyrir eða veita selstóftunum athygli á göngu sinni með Oddafellinu.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags.

Örfáir ganga svo langt suður með fellinu að þeir sjái hleðslurnar syðst í selinu, hvað þá gamla selsstíginn í gegnum hraunið. Samt er auðveldast að ganga yfir það eftir honum.
Öllum er hollt að staldra við hjá tóftunum, hugsa aftur til þess tíma þegar einhverjir forfeður þeirra og -mæður þurftu að hafa fyrir því að ala önn fyrir fénu um sumarið svo féð gæti alið önn fyrir þeim um veturinn. Ef hlutirnir hefðu ekki gengið þannig fyrir sig er aldrei að vita hvort eða hverjir afkomendurnir kynnu að hafa orðið.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í sumum seljanna ofan við Ströndina var selstaðan skemmri vegna vatnsskorts. Má í því sambandi nefna næsta sel norðan við Oddafellssel; Rauðhólssel frá Stóru-Vatnsleysu. Þar gat verið erfitt að nálgast vatn í þurrkatíð og því sjálfhætt. Stundum var ástæðan þó tilgreind önnur en vatnsskortur, s.s. draugagangur. Draugagangurinn var skiljanlegri afsökun en vatnsskorturinn í þá daga og ástæðulaust að efast þegar hann var annars vegar.
Gangan tók 33 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Oddafellssel

Oddafellssel.