Ögmundarhraun og Selatangar
Gestur Guðfinnsson skrifaði eftirfarandi um „Ögmundarhraun og Selatanga“ í Morgunblaðið árið 1970:
„Einhvers staðar segir í gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þama var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum framundir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil.
Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.
En áður en lengra er farið út í lýsingu á verbúðalífi og sjósókn í Selatöngum, skulum við virða lítillega fyrir okkur umhverfið, landssvæðið á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og gera okkur grein fyrir því í stór um dráttum. Það er að vísu ekki sérlega margbrotið, þótt bæjarleiðin sé nokkuð löng. Þetta svæði er landareign tveggja jarða, Krýsuvíkur og Ísólfsskála, og hefur Krýsuvík verið miklu stærri jörð en Ísólfsskáli, landareign hennar nær langt austur fyrir Eldborg eða að svokölluðum Sýslusteini, en þar er allt í senn: landamerki, hreppamörk og sýslumörk. Sömuleiðis langt til norðurs, hverasvæðið sunnan undir Sveifluhálsi, sem allir þekkja, tilheyrði t.d. Krýsuvík. Landareign Ísólfsskála nær hins vegar frá Nípum á Festarfjalli og austur að Selatöngum, en þar eru landamerki þessara tveggja jarða. Var þá miðað við hraunstand uppi í kampinum á Selatöngum, sem hét því undarlega nafni Dágon, en má nú heita alveg úr sögunni.
Verulegur hluti af þessu landi, svæðinu milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, er samfelld hraunbreiða. Aðallega er um tvö hraun að ræða, misjafnlega gömul og ekki runnin frá sömu eldstöðvum. Annars vegar hraunið austur frá fsólfsskála, sem ekkert heildarheiti virðist hafa, a.m.k. á kortum. Það nær á móts við Selatanga og er augsýnilega eldra en hraunið þar fyrir austan. Hins vegar hraunið í Krýsuvíkurlandi, yngra hraunið, en það heitir einu nafni Ögmundarhraun og er talið hafa runnið á 13. eða 14. öld. Dálítið ofan við veginn, sem liggur milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, þar sem heita Almenningar, getur að líta nokkra ósköp sakleysislega gjallhóla, eins konar rauðukúlur, sem fara ljómandi vel í landslaginu og gleðja gestsaugað. Þessar meinleysislegu kúlur eða hólar eru eldvörpin, sem ögmundarhraun hefur komið úr á smum tíma. Traðirnar, sem hraunið hefur myndað um leið og það rann, eru skýrar og greinilegar, og mokstursjötnarnir hafa látið bæði traðirnar og hólana í friði hingað til, svo er fyrir að þakka. Ég held, að við ættum að biðja guð og Náttúruverndarráð að sjá til þess, að þeim yrði einnig þyrmt í framtíðinni, jarðfræðin og sagan mæla eindregið með því, hvor á sinn hátt, þó að við sleppum öllum fagurfræðilegum vangaveltum. Þetta hefur verið mikið gos, gígarnir sem eru um 100 að tölu, eru á sprungusvæði milli Núphlíðarháls og Sveifluháls.
Þaðan hefur ógurlegt hraunflóð runnið niður á jafnsléttuna, breiðzt síðan út til beggja handa og lagt undir sig svo að segja hvern blett og skika lands allt í sjó fram. Þetta er yfirleitt apalhraun, úfið og tröllslegt, einkum víða meðfram ströndinni, og hroðalega ógreiðfært yfirferðar. Það eru litlar sem engar heimildir til um hvernig umhorfs var á þessu svæði áður en Ögmundarhraun rann. Þó er vitað með vissu, að þarna var a.m.k. einn bær, Krýsuvík, sem stóð niður við sjóinn, líklega upp undan samnefndri vík, sem hraunið hefur að nokkru leyti afmáð og fyllt og er nú kölluð Hælsvík. í Krýsuvík var kirkja. Gosið hefur efalaust skotið fólkmu í Krýsuvík illilega skelk í bringu og ekki að ástæðulausu. Ekki hefur verið nema um 5 km vegalengd frá eldstöðvunum heim að bænum í Krýsuvík og landinu hallar þangað, þótt lítið sé að vísu eftir að kemur niður á láglendið. Enda fór líka svo, að Krýsuvík lenti í hraunflóðinu, færði hraunið sum húsin í kaf, en staðnæmdist annars staðar við húsveggina. Sér ennþá greinilega fyrir húsarústunum austast í hrauninu, þar sem nú heitir Húshólmi og Óbrennishólmi, m.a. sést þar fyrir aflöngu tóttarbroti, sem talið er að gæti verið rúst kirkjunnar.
Til er örstutt saga af þessum atburðum, upphafi gossins og hvernig smalamaður á að hafa bjargað sér og fénu undan hraunflóðinu. Sagan er skráð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og læt ég hana fylgja hér með, þó að hún hafi sjálfsagt farið margra á milli og kannski brenglazt eitthvað á langri leið í meðförunum, en hún er á þessa leið: „Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.
Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstað inn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfír þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu.
Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“ Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, sem þá var til margra hluta nytsamlegur. Við það losnaði kapallinn og hófurinn greri aftur við. Nokkuð gömul mun líka eftirfarandi vísa, sem líklega er ort af einhverjum ferðalang, er átt hefur leið um hraunið og þótt það illt yfirferðar: Eru í hrauni Ögmundar ótal margir þröskuldar fáka meiða fæturnar og fyrir oss brjóta skeifurnar.
Til er saga um hvernig vegur var ruddur yfir Ögmundarhraun. Sú saga minnir nokkuð á söguna í Eyrbyggju um Berserkjagötu, nema hvað berserkurinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvern ig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar.
En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu. Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jóraar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.
Mikið er af gömlum búðartóttum í Selatöngum. Það eru vistar verur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranialagar og þrömgiar vistarverur, veggir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa.
Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt því: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv. Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.
En það er fleira skoðunarvert þarna en hin gömlu mannvirki útróðrarmannanna og trjárekinn í fjörunni. Hraunið vestan við tangana er t.d. gríðarlega tröllslegt og stórbrotið meðdjúpum grasi grónum kvosum og skvompum og hraunhryggjum á milli. Það heitir Katlahraun. Þar er býsna gaman að eyða tímanum stund úr degi. Enn er reyndar margt ósagt um Selatanga, sem vert hefði verið að drepa á, t d. reimleikana og verbúðadrauginn Tanga-Tómas, en rúmið leyfir ekki lengra mál. Þegar landkrabbar eins og sá sem þetta ritar koma í forna verstöð eins og Selatanga horfa þeir náttúrlega blindum augum á marga hluti og skilja hvorki upp né niður í þeirri tilveru, sem þar var einu sinni, en nú er liðin undir lok. Það skjóta ýmsar spurningar upp kollinum, sem vafizt geta fyrir þeim, sem aldrei hefur migið í saltan sjó eða ýtt báti úr vör, hvað þá tekið brimlendingu á stað eins og Selatöngum.“
Heimild:
Morgunblaðið 16 maí 1970, bls. 8-9.